Frétt

Frábært ef ég get linað verki hjá heimilisfólki

Dr. Sveinn Gunnar Björnsson hefur hafið störf í sjúkraþjálfun Grundar. Hann er kírópraktor og lauk doktorsnámi sínu frá Life háskólanum í Atlanta fyrir rúmu ári. Auk þess hefur hann sótt fjölda námskeiða og þar lært m.a. mismunandi aðferðir til að meðhöndla vöðva og liðamót og „teipa“ fólk og segist hafa verið svo lánsamur að fá að vinna með íþróttamönnum úti en það hefur verið áhugamál hans um árabil, íþróttir og heilsurækt. Sveinn hefur einnig unnið mikið með samspil líkama og hugar og leggur áherslu á í sínu starfi jákvæðni og uppbyggilegt hugarfar. Frá því hann lauk námi starfaði hann í Atlanta sem kírópraktor en er nýfluttur til landsins því eiginkonan Alexandera. Guðbergsdóttir var að láta sinn draum rætast þegar hún fékk vinnu sem flugfreyja hjá WOW. Og þá er bara að aðlaga sig og koma til móts segir Sveinn brosandi því hún fylgdi honum til Atlanta á sínum tíma. 
Margir hér á Grund þekkja þessi ungu hjón því þau hafa um árin unnið í fríum á Grund með námi. Hann segir að nýja starfið leggist vel í sig hér á heimilinu. Hann aðstoðar heimilisfólk eftir bestu getu við endurhæfingu og að halda hreyfigetu sinni og nýtir menntun sína til að freista þess að lina verki og koma liðum í stand. Hann bætir við að það sé frábært ef honum takist að lina verki hjá heimilisfólki. Hann býður auðvitað starfsfólki upp á sérstök kjör og tekur það í tíma eftir að vinnudegi á Grund lýkur.

Myndir með frétt