Frétt

Takk mamma og Júlli

 

 

Móðir mín, Guðrún Birna lætur af störfum sem forstjóri Grundar næsta mánudag, 1. júlí. Hún hefur verið forstjóri frá því að afi minn Gísli Sigurbjörnsson lét af störfum sem forstjóri í janúar 1994 eða í rúm 25 ár, aldarfjórðung. Sama dag lætur fósturfaðir minn Júlíus Rafnsson einnig af störfum sem framkvæmdastjóri Grundar en því starfi hefur hann gegnt frá árinu 1988, minnir mig.

Ég hef unnið hjá Grundarheimilunum í tæp 30 ár og þar af leiðandi með þeim allan þann tíma. Hef lært margt af þeim, sérstaklega til að byrja með, og þau kannski eitthvað af mér, svona í seinni tíma. Við þrjú höfum myndað að mínu mati ágætis stjórnendateymi (veit reyndar að mamma þolir ekki svona orð ) sem hefur stýrt Grundarheimilunum í um það bil þrjá áratugi. Og gengið bara nokkuð vel. Auðvitað er enginn dómari í eigin sök, en heimilin hafa vaxið og dafnað og talsverðar viðbætur orðið með Mörkinni, bæði með rekstri hjúkrunarheimilis og kaupum og byggingu rúmlega 150 íbúða fyrir 60 ára og eldri. Þá byggðum við nýtt hjúkrunarheimili í Ási og þvottahús auk þess sem byggt hefur verið við húsnæði Grundar og Áss ásamt verulegum endurbótum á húsnæði beggja heimila með hagsmuni heimilis- og starfsmanna að leiðarljósi.

Ég er afar þakklátur þeim fyrir mjög gott samstarf í þau tæpu 30 ár sem við höfum starfað saman. Við höfum ekki alltaf verið sammála, það hefur stundum hvesst á milli okkar, aðallega milli mín og mömmu, en við höfum alltaf getað leyst þann ágreining okkar í milli. Við mamma erum sennilega bæði nokkuð stjórnsöm og líklega hefur Júlli í nokkrum tilvikum lent á milli okkar mömmu. Og settlað málin.

Við þessi tímamót tek ég við sem forstjóri allra sex fyrirtækjanna sem heyra undir Grundarheimilin. Grund, Ás, Mörk hjúkrunarheimili, Þvottahús Grundar og Áss ehf, Grund Mörkin ehf og Íbúðir eldri borgara í Mörk ehf. Ég mun svo sannarlega ekki vinna alla þá vinnu sem þau inntu af hendi. Og þar sem þessi ákvörðun hefur legið fyrir í all nokkurn tíma ákvað stjórn Grundar að fara í stefnumótunarvinnu seinni hluta síðasta árs. Niðurstöður þeirrar vinnu voru á þann veg að einum manni er gert kleift að stýra fyrirtækjunum sex með góðri aðstoð sviðsstjóra, framkvæmdastjóra hjúkrunar auk nokkurra annarra einstaklinga, sem skipa framkvæmdastjórn Grundarheimilanna. Ég lít björtum augum á rekstur heimilanna með þessu fyrirkomulagi og öllu því frábæra starfsfólki sem Grundarheimilin hafa á að skipa og hlakka til framtíðarinnar með ykkur öllum mér við hlið.

Í tilefni starfslokanna ætla þau að vera með móttöku í hátíðarsalnum á Grund næsta mánudag, (1. júlí) milli kl. 15.00 og 17.00. Eflaust eru einhverjir samstarfsmenn, heimilismenn, ættingjar og vinir sem vilja koma og þakka þeim fyrir samstarfið og samfylgdina. Mamma verður 75 ára þennan dag og tekur ekki á móti neinum gjöfum. Ef einhver vill gleðja hana, þá er leiðin að láta Grundarheimilin njóta þess með einhverjum hætti. Ekki er gert ráð fyrir ræðuhöldum og formlegheitum, það er ekki þeirra stíll, í það minnsta ekki mömmu. Allir velkomnir 

Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Mörk hjúkrunarheimili
og framkvæmdastjóri Áss í Hveragerði