Frétt

Grund er samofin mínu lífi

Guðrún B. Gísladóttir lætur nú af störfum sem forstjóri Grundar í dag, þann 1. júlí, sama dag og hún fagnar 75 ára afmæli. Hún er fyrsta konan til að gegna starfi forstjóra á hjúkrunarheimili hér á landi og það sem er einstakt er að hún er líka fædd og uppalin á Grund. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir settist niður með Guðrúnu vegna tímamótanna og fór yfir farinn veg með henni.

„Ég er ekkert að yfirgefa Grund þó ég sé að hætta sem forstjóri“, er það fyrsta sem hún segir við mig þegar við byrjum spjallið okkar. „Hér er ég fædd og hef verið hér meira og minna alla mína ævi. Þegar ég var að horfa yfir farinn veg áttaði ég mig á því að af þeim 75 árum sem ég hef nú lifað hef ég verið tengd Grund fyrir utan tvö ár þegar ég bjó í Neskaupsstað. Grund er samofin mínu lífi og ég lít á það sem mína gæfu. Nú þegar ég læt af starfi forstjóra get ég hinsvegar farið að einbeita mér að því sem mér finnst skemmtilegast, að spjalla við og kynnast heimilisfólkinu betur. Mér hefur alla tíð liðið betur með mér eldra fólki.”

Guðrún er þriðji ættliðurinn sem fer með stjórn Grundar. Föðurafi hennar, Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason, var einn af stofnendum Grundar á sinni tíð en Sigurbjörn var þjóðkunnur guðfræðingur og kennari. Sigurbirni og vinum hans hraus hugur við aðbúnaði fjölmargra aldraðra hér á öðrum áratug síðustu aldar. Í samvinnu við fáeina hugsjónamenn og kaupmenn í bænum stofnaði hann líknarfélagið Samverjann sem beittisér fyrir því að unnt væri að festa kaup á húsinu Grund við Kaplaskjólsveg fyrir elliheimili.

Afi heimilisprestur á Grund

„Afi lauk prófi úr Prestaskólanum aldamótaárið en kenndi svo á veturna stærðfræði og á sumrin ferðaðist hann gjarnan og prédikaði í kirkjum landsins og stofnaði bindindisfélög þar sem hann kom því við.” Sigurbjörn hlaut vígslu 23. ágúst 1942, þá 66 ára gamll og var þá vígður sem heimilisprestur á Grund. Konan hans var Guðrún Lárusdóttir alþingismaður og rithöfundur.

Ómetanlegt veganesti

Guðrún er dóttir Gísla Sigurbjörnssonar og Helgu Björnsdóttur en hann var forstjóri heimilisins í sextíu ár. Ráðsmaður heimilisins lést árið 1934 og þá var pabbi hennar beðinn um að koma á skrifstofuna í nokkra daga uns stjórnin hefði fundið nýjan ráðsmann. „Á þessum tíma var pabbi 27 ára gamall. Dagarnir urðu að sextíu árum. Öll störf föður míns á langri starfsævi í þágu aldraðra byggðu á hugsjón. Engan veit ég hér á landi sem hefur komið meiru til leiðar í málefnum aldraðra en föður minn. Gáfur hans, atorka, fjármálavit og viljastyrkur réðu þar mestu. Velferð heimilisins var honum alla tíð hjartans mál. Um það þurfti enginn að efast. Í meira en þrjátíu ár starfaði ég með honum og kynntist vel viðhorfum hans. Það veganesti hefur reynst mér ómetanlegt. Eitt af því sem pabbi brýndi fyrir mér var að muna að vera alltaf góð við gamla fólkið.”

Forréttindi að alast upp á Grund

Guðrún hefur setið í stjórn heimilisins frá árinu 1979 og tók við starfi forstjóra í ársbyrjun árið 1994. Það er ekki nóg með að Guðrún hafi unnið á Grund nánast alla sína starfsævi eða í 52 ár heldur er hún fædd á heimilinu og bjó þar fyrstu árin áður en fjölskyldan flutti á Blómvallagötu 12, þar sem nú er Minni Grund.

En hvernig var að alast upp á Grund?

„Ég var þriggja ára þegar við fluttum af Frúargangi sem nú heitir A-3. Frúargangur hlaut ekki nafn sitt af því að þar hefðu bara búið konur heldur var hún mamma, Helga Björnsdóttir, oftast kölluð frúin og þannig festist nafnið við ganginn þar sem við bjuggum.”

Guðrún segir það hafa verið forréttindi að alast upp með heimilisfólkinu. „Hvorki mín börn né barnabörn hefðu komist upp með það sem við systurnar gátum dundað okkur við. Húsakynnin öll voru leiksvæðið okkar og við eignuðumst auðvitað margar ömmur og afa meðal heimilisfólksins sem spiluðu við okkur og laumaðu að okkur ýmsu góðgæti. Heimiliskonan hún Ásta P kenndi mér að drekka kaffi þegar ég var sex ára.

Við vorum auðvitað oft í feluleik um allt hús og það var meiriháttar því felustaðirnir voru margir. Þegar lyftan og sundlaugin komu í húsið í kringum árið 1955 var það heilt ævintýri. Við dvöldum langtímum saman í lyftunni og vorum spenntar að sjá hvort við færum upp eða niður þegar fólk var að panta lyftuna. Sama með sundlaugina. Við fengum að fara í sundlaugina um helgar og buðum þá gjarnan vinkonum með okkur og þá var oft glatt á hjalla.“

Bernskujólin

Mér eru líka minnisstæð jólin. Eftir jólaguðsþjónustu hjá afa, sr. Sigurbirni, fórum við Helga systir með pabba um heimilið og tókum í höndina á öllum heimilismönnum og óskuðum þeim gleðilegra jóla. Þá voru á Grund tæplega 400 heimilismenn en til gamans má nefna að í dag eru þeir 175 og Litla Grund hefur bæst við. Á þrettándaskemmtuninni sem þá var haldin að kvöldi höfðum við systurnar það hlutverk að pússa rauð epli og afhenda svo fólki að lokinni skemmtuninni.

Rafmagnið fór oft af bænum í gamla daga og eitt skipti var pabbi að koma frá föður sínum í Ási við Sólvallagötu og sá að það logaði ljós allsstaðar í hverfinu nema á Grund. Hann vissi að rafmagnsreikningurinn var ógreiddur þar sem peningar höfðu ekki verið til en þarna ákvað pabbi að það skyldi aldrei aftur vera myrkur á Grund. Það skyldi loga ljós þó rafmagn færi af í bænum. Það var keypt ljósavél okkur systrum til mikilla vonbrigða því þegar rafmagnið fór af borginni fór ljósavélin í gang og því varð aldrei rafmagnslaust aftur á Grund.“

Synirnir skírðir í hátíðasalnum

„Stóru viðburðirnir í mínu lífi hafa allir tengst Grund. Það kom ekkert annað til greina en að afi myndi gifta okkur Palla í hátíðarsalnum í september árið 1965 og heimilisfólkið var auðvitað velkomið í athöfnina.” Sr. Páll Þórðarson lést aðeins 35 ára gamall árið 1978. Þau eignuðust þrjá syni, Gísla Pál, Þórð Björn og Halldór Gunnar. Seinni maður Guðrúnar er Júlíus Rafnsson, framkvæmdastjóri á Grund til þrjátíu ára sem einnig lætur af störfum á þessum tímamótum. Þau eiga soninn Kjartan Örn en Júlíus átti áður fjögur börn svo alls eru drengirnir sjö og ein stúlka. „Þrír synir mínir og flest barnabörnin hafa verið skírð á Grund en maðurinn minn skírði yngsta son okkar, Halldór Gunnar, þegar hann var þjónandi prestur í Neskaupsstað. Á afmælisdegi afa, nýársdag árið 1968, var næst elsti sonur minn skírður við guðsþjónustu á heimilinu og þá var afi 92 ára. Fyrir nokkrum árum var svo ömmustrákurinn minn, Páll Gíslason, fermdur við guðsþjónustu á Grund. “

Fólkið minnisstæðast

Nú þegar þú kveður sem forstjóri og horfir yfir farinn veg, hvað er þér minnisstæðast úr starfinu?

„Allt það yndislega fólk sem ég hef kynnst, bæði heimilisfólk og starfsfólk. Án alls þessa góða fólks væri Grund ekki það sem heimilið er í dag.“ Það má með sanni segja að Guðrúnu sé annt um starfsfólkið sitt. Hún prjónar gjarnan þegar degi tekur að halla og ef hún veit að von er á fjölgun í fjölskyldum starfsfólks og heimilisfólks er hún mætt með handprjónaða ungbarnasokka til að gefa þeim. Þetta endurspeglar þá væntumþykju sem hún ber til fólksins sem á Grund býr og starfar.

„Þetta hafa verið afar viðburðarrík ár síðan ég tók við sem forstjóri. Það hefur verið byggt við Grund nokkrum sinnum og síðasta viðbyggingin var þegar Grundirnar voru tengdar saman með tengigangi. Hjúkrunarheimilið í Ási var vígt árið 1998 og eitt fullkomnasta þvottahús landsins var byggt og tekið í notkun í Hveragerði 2007. Grund tók að sér rekstur Markar hjúkrunarheimilis fyrir ríkið í ágúst árið 2010 og festi kaup á 78 íbúðum fyrir 60 ára og eldri við Suðurlandsbraut 58 – 62 í ársbyrjun 2010. Það reyndist heimilinu gæfuspor því mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðunum. Brugðist var við henni með byggingu 74 íbúða austanmegin við hjúkrunarheimilið. Þær voru allar teknar í notkun á síðasta ári og á fjórða hundrað manns eru enn á biðlista.

Guðrún segist halda að það sé kostur að fjölskyldan skuli standa að rekstrinum en heimilið á sig sjálft því það er sjálfseignarstofnun. „Við lítum á Grund sem miklu meira en vinnustað. Ég er alltaf í vinnunni, bý við hliðina á Grund og fer ekki í háttinn nema fara út í glugga og líta yfir, fullvissa mig um að allt sé með ró og spekt.

Það gladdi mig mjög þegar pabbi bað Gísla Pál, son minn, um að taka við framkvæmdastjórastöðu í Ási í september árið 1990 og hann gat starfað við hlið afa síns og numið af honum. Það er í mínum huga ómetanlegt. Hann hefur verið forstjóri Markar frá upphafi og nú tekur hann við af mér. Ég get ekki hugsað mér betri mann og er þess fullviss að hann mun sinna starfinu sínu af mikilli alúð með konuna sína Öldu Pálsdóttur sér við hlið.“

 


Myndir með frétt