Frétt

Vinkonurnar árið 1958

Hlíf Anna Dagfinnsdóttir las í gær upp ljóð í morgunstund. Ljóðið Vinkonurnar árið 1958 er minningabrot frá æsku hennar. Hún átti heima við Brávallagötu 24 í þrjá áratugi og hún á m.a. minningar frá Grund. "Við krakkarnir kölluðum Grund alltaf elló því þá hét heimilið elliheimilið Grund. Okkur þótti spennandi að fara í föt af mæðrum okkar og ganga svo hringinn í kringum elló og þykjast vera gamlar konur. Við lékum  hlutverk okkar með leikrænum tilþrifium sérstaklega þegar við fórum í Pétursbúð á horni Blómvallagötu og Ásvallagötu." Þær urðu sármóðgaðar þegar Pétur kaupmaður spurði þær stuttur í spuna hvað þær væru að bralla og sagði þeim að fara út að leika sér.

Vinkonurnar tylla sér niður

á gula bekkinn

sem stendur upp við húsvegginn

elliheimilið Grund

horfa á ungviðið í leik.

 

Það fer að kólna

snjókorn falla

förum inn í hlýrri föt

segir önnur og 

ræskir sig

 

Þær fara í sitthvora áttina

mætast við bekkinn

í vetrarkápum

með hatta

hatta trefla,

önnur með veski

ætlar að koma við í búðinni

 

Þær halda af stað

virðast hoknar af reynslu 

styðjast við hvor aðra

fara varlega

ekki gott að detta

í hálkunni

nei ó nei

þá er kallað

stelpur 

vilið þið koma með

fötin mí og veskið

 

tvær ungar stelpur 

kasta af sér

spjörunum

hlæja dillandi hlátri

 

um leið hlaupa þær út í lífið

sem bíður þeirra

bjart og brosandi

voru að æfa sig fyrir 

ellina.