Frétt

Fimmti ættliðurinn sem vinnur á Grund

 Einn af sumarstarfsmönnunum á Grund þetta árið var Eliour Yazirlioglu  en hún er fimmti ættliðurinn sem vinnur á heimilinu. Elinour er fædd og uppalin í Svíþjóð en bæði móðir hennar Esther Arnardóttir Yazirlioglu og  amma hennar Guðrún Edda Ágústdóttir  sem og langamma  hennar Esther Jónsdóttir og langalangamma Ólafía Guðrún Sumarliðadóttir hafa allar unnið á Grund. Langalangalangamma hennar Guðrún Ingimundardóttir var síðan heimiliskona á Grund. Sjötti ættliðurinn sem tengist heimilinu þó hún hafi ekki unnið þar.

Sú fyrsta í ættinni, Ólafía Guðrún Sumarliðadóttir vann á Grund  frá árinu 1957 til ársins 1974 og langamman, Esther, sem var varaformaður Sóknar,  vann á Grund frá 1959 og með hléum til ársins 1995.  Hún vann við ýmis störf á Grund og um skeið vann hún  líka heima hjá Gísla Sigurbjörnssyni forstjóra og konu hans Helgu Björnsdóttur.  Guðrún, amma Elinour byrjaði 1967 sð vinna sem barnapía og sendill á skristofu. Hún passaði Gísla Pál Pálsson, núverandi forstjóra Grundar, og bróður hans Þórð Björn. Hún starfaði líka á mismunandi deildum Grundar allt  þar til dóttir hennar Esther fæddist árið 1971. Esther yngri vann tvö sumur með skóla og síðan hálft ár í kringum 1995. Hún hafði búið í Svíþjóð í nokkur ár þegar hún  gerði eins og dóttir hennar núna, kom að vinna á Íslandi til að halda tengslum við landið.

”Ég er þakklát fyrir að gafa fengið vinnu á Grund í sumar. Þetta var mjög gefandi reynsla sem seint mun gleymast.  Bæði heimilisfólk og starfsfólk var yndislegt og allir svo tilbúnir að hjálpa mér að læra íslensku”, segir Elinour sem skilur orðið töluvert í íslensku eftir sumarið. Hún nemur hjúkrunarfræði og segir að það hafi verið gagnlegt að bera saman hvernig hlutirnir eru gerðir í Svíþjóð og hér á Íslandi. ”Sumt er eins en aðrir þættir mjög ólíkir. Mér finnst fólkið yngra og hressara en í Svíþjóð þegar það fer á hjúkrunarheimili og getur þá tekið þátt í þeirri fjölbreyttu afþreyingu sem stendur til boða  á Grund eins og  upplestri, morgunstundum  og svo framvegis.” Elinour fannst líka gaman að læra íslensku. ”Viss orð eru lík á sænsku og íslensku en geta haft aðra merkingu og svo var gaman að læra og upplifa að allir voru tilbúnir að hjálpa mér að læra málið.”


Myndir með frétt