Frétt

Takk Raggi Bjarna

Einn ástsælasti tónlistamaður landsins, Ragnar Bjarnason lést í vikunni, 85 ára að aldri.  Raggi Bjarna hefur komið reglulega á Grund í desembermánuði, líklega í ein 15 ár.  Og yfirleitt var Þorgeir Ástvaldsson útvarpsmaðurinn góðkunni og glaðlyndi með honum í för á píanóinu.  Þetta var einstakur dúett.  Þeir skutu góðlega á hvorn annan með stríðnisbros á vörum og sögðu gamansögur ásamt því að syngja og spila fyrir heimilisfólkið okkar á Grund.

Þegar Raggi kom í salinn þá fór kliður um hann.  Sennilega svona svipað og þegar Messi gengur inn á völlinn í Barcelona.  Það þekktu allir Ragga, elskuðu og dáðu.  Hann var ofurstjarna á íslenska vísu í söngbransanum og sjarmör fyrir allan peninginn.  Dömurnar á Grund fengu í hnén þegar Raggi brosti til þeirra og sagði eitthvað fallegt við þær.

 Raggi og Þorgeir komu í desember árið 2018, eins og alltaf.  Þá leið yfir Ragga og hann tjónaðist aðeins við það, ekki mikið.  En lét ekki deigan síga og mætti aftur í desember síðastliðnum ásamt Þorgeiri.  Til að koma í veg fyrir fall vegna hugsanlegs yfirliðs ákvað hann að sitja og syngja fyrir okkur.  Kom ekki til greina að sleppa því að mæta.  Raggi mætti með bros á vör, blikkaði stelpurnar í hátíðarsalnum og heillaði þær upp úr skónum.  Þeir félagar fluttu mörg góð lög við frábærar undirtektir.  Það síðasta sem ég sagði við Ragga þegar þeir gengur úr salnum í desember síðastliðnum var:  „Sjáumst í desember á næsta ári.“  „Að sjálfsögðu“ var svarið.  Það verður því miður ekki.

Við á Grundarheimilunum þökkum honum kærlega fyrir allar þær dásamlegu gleðistundir sem hann færði okkur.  Blessuð sé minning Ragga Bjarna.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna


Myndir með frétt