Frétt

Kæru aðstandendur

Hér gengur allt vel og heimilismenn flestir við góða heilsu.  Enn hefur enginn veikst af Covid-19 og vonum við að það haldist þannig sem lengst.  

Við höfum gert ýmsar ráðstafanir til að minnka líkur á smiti og er heimsóknarbannið umrædda bara einn liður í því.   Endilega ekki hika við að hafa samband við okkur og ef þið þurfið eða viljið færa heimilismönnum eitthvað þá má koma með það, vera í sambandi við deildina og við komum því til skila. 

Starfsfólk okkar í stoðdeildum fer inná allar deildir og sér um afþreyingu og við reynum að gera þetta heimsóknarbann eins bærilegt og hægt er.  Ég verð að segja að heimilisfólk tekur þessu öllu af miklu æðruleysi.  

Varðandi ferðir heimilismanna út af heimilinu þá getum við auðvitað ekki bannað þær. Okkur langar þó að biðja ykkur um að vinna með okkur að því að hindra í lengstu lög að smit komi inn á heimilið og reyna því eftir fremsta megni að fresta öllum slíkum ferðum.

Síðast en ekki síst vil ég segja ykkur frá því að það gæti komið til þess að við þyrftum að flytja fólk á milli herbergja og jafnvel milli húsa.  Við vitum auðvitað ekkert hvað framundan er og hve margir gætu komið til með að veikjast hjá okkur. Við verðum að vera undir það búin að setja fólk í einangrun og það mun kalla á einhverja flutninga, bæði á veikum og eins þeim sem ekki eru veikir.  Við vonum að þetta valdi sem minnstum óþægindum fyrir fólk og reynum auðvitað hvað við getum til þess.

Allir eru sannarlega að gera sitt besta í þessari óvissu og við erum þakklát fyrir ykkar skilning.