Frétt

Vörnin vinnur leikinn

Ég spilaði körfubolta á mínum yngri árum, með nokkrum liðum meðal annars KR.  Einu sinni KR-ingur, alltaf KR-ingur J  Margir af mínum bestu þjálfurum notuðu fyrirsögnina í sínu daglega þjálfarastarfi, vörnin vinnur leikinn.  Það er ekkert mikið mál að skora, en það getur verið erfiðara að koma í veg fyrir að andstæðingurinn skori hjá okkur.

 Mér hefur liðið undanfarna daga og vikur eins og ég sé í körfuboltaleik.  Og stöðugt í vörn.  Þjálfararnir eru þrír, Alma, Víðir og Þórólfur.  Og þetta framúrskarandi flotta tríó er sífellt að leggja áherslu á vörnina.  Hvernig við getum varist því að smitast og hvaða leiðir er hægt að fara til að minnka líkur á að smit berist manna á milli. Í körfunni er spiluð maður á mann vörn annars vegar og svæðisvörn hins vegar.  Báðar gerðir eru nauðsynlegar í þessari baráttu.  Hver og einn einstaklingur ber ábyrgð á því hvernig hann hagar sér (maður á mann vörn) og svo er mikilvægt að við sem samfélag gerum okkar besta til að bregðast við veirunni (svæðisvörn).  Verum heima þeir sem það geta. 

 Ég hef orðið vitni að mikilli samstöðu starfsmanna Grundarheimilanna undanfarið.  Það er eins og allir leggist á eitt til að láta þetta ganga upp.  Mér finnst eins og það sé einhvers konar keppnisandi í liðunum okkar.  Allir leggja sig 100% fram.  Takk kærlega öll sömul fyrir allt það sem þið hafið lagt á ykkur undanfarið í tengslum við þessa veiru.  Einnig þakka ég heimilismönnum og aðstandendum þeirra fyrir skilning á verulega breyttum aðstæðum.  Staðan er ekki eins og ég óskaði mér, en ég tek þetta, og sýnist flestir gera það einnig, af æðruleysi.  Breytum því sem við getum breytt en sættum okkur við það sem við getum ekki breytt.  Og svo þetta mikilvæga sem við höfum öll, vitið til að greina þar á milli.

 Þetta er vissulega enginn leikur, en samlíkingin á við að mínu mati engu að síður.

 

Til að við eigum smá breik

og að lokum við stöndum öll keik

Við handþvottinn stundum

og frestum öll fundum

Því vörnin, hún vinnur hvern leik

 

Kveðja og gangi okkur öllum vel,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna