Frétt

Einmanaleiki og heimsóknarbann á hjúkrunarheimilum

Faraldursfræðilegar rannsóknir hafa sýnt tengsl milli félagslegrar einangrunar og einmanaleika við aukna færnisskerðingu og dánartíðni meðal eldri einstaklinga. Faraldursfræðilegar rannsóknir sýna fram á tengsl en ekki beint orsakasamband. Í rannsókn Tilvis frá 2011 á einstaklingum 80 ára að meðaltal, var dánartíðni 17% hærri á 5 ára tímabili hjá þeim sem voru einmanna en hinum sem ekki voru það, þegar heilsa var tekin með í reikninginn 1).

 Í því sambandi má benda á að ef einstaklingur sem býr á hjúkrunarheimili sýkist af COVID-19 má búast við 34% líkum á dauða á nokkrum vikum 2). Það má einnig benda á að á hjúkrunarheimilum eru íbúar umkringdir fólki, öðrum íbúum og starfsfólki. Oft myndast ástríkt samband milli þeirra þó að sjálfsögðu komi það ekki í stað nánustu ástvina. Íbúar hafa líka gjarnan samband við aðstandendur sína í síma, myndsíma og jafnvel í gegnum glugga eins og sýnt hefur verið í fréttum. Tímabundið heimsóknarbann er því ekki líklegt til að valda skaða eins og aukinni dánartíðni heldur líklegra til að stuðla að vernd íbúa gegn ótímabæru andláti. Það hefur verið gagnrýnt að starfsfólk gangi inn og út en ekki aðstandendur, við því er einfalt svar, fólk fer á hjúkrunarheimi vegna þess sem starfsfólkið gerir fyrir það - án starfsfólks er ekkert hjúkrunarheimili.

Á hjúkurnarheimilum starfar margt fólk, flest yndislegar manneskjur sem hjúkra íbúum af lífi og sál, með óeigingirni og ástúð. Margir þeirra hafa verulega dregið úr samskiptum sínum við aðra í frítíma sínum til þess að vernda fólkið sem þeir sinna. Engum okkar líkar það að setja bann á heimsóknir, COVID-19 er dauðans alvara og stundum þarf að gera meira en gott þykir.

 Helga Hansdóttir öldrunarlæknir

 

  1. McMichael et al, Epidemiology of Covid-19 in a Long-Term Care Facility in King County, Washington.NEJM 27. Mars 2020
  2. Tilvis et al. Suffering from Loneliness Indicates Significant Mortality Risk of Older People. J Aging Res. 22. Feb 2011