Frétt

Heima um páskana

Með því að hitta sem fæsta, fara ekki í sumarbústaðinn með ættingjum og vinum eða halda í jeppa- og sleðaferðir upp á hálendið, eins og það er nú jú freistandi, þá stuðlum við að því að heilbrigðiskerfið okkar ráði við afleiðingar þessarar vondu veiru.  Annars er hætt við manntjóni þar sem gjörgæslueiningar okkar munu ekki geta tekið við öllum þeim sem þurfa hugsanlega á því að halda.

 Það er nú ekki mikið á okkar lagt með þetta, það er að vera heima við um páskana.  Ég held við gleymum því allt of oft hversu gott við höfum það yfir höfuð hér á landi.  Ekkert samfélag er fullkomið og það eru alltaf einhverjir sem minna mega sín, og væri vissulega hægt að gera talsvert fyrir marga sem hafa það ekki gott.  En á heildina litið erum við Íslendingar í afar góðri stöðu.  Og ef það eru aðal áhyggjur okkar margra, hvort við getum farið í ferðalög um páskana, utan lands eða innan, þá eru þær áhyggjur okkar hjóm eitt.

 Ég er reyndar ekki alveg sammála Víði með það að ferðast innanhúss um páskana.  Góðir göngutúrar í fallegri íslenskri náttúru, nálægt heimilum okkar auðvitað, er eitthvað sem bætir, hressir og kætir.  Og ég mæli eindregið með.  En sleppum öllum ferðalögum um páskana þetta árið, takk.

 Annað.  Horfði á Kára Stefánsson í Kastljósinu í vikunni.  Hann var jákvæður og bjartsýnn, og ég held ég endi vikupistilinn á lokaorðum Kára sem ég er honum svo sammála:  „Ég er handviss um að við komum til með að koma út úr þessum faraldri betra samfélag heldur en við fórum inn í hann.“

                                                                  Kveðja og gleðilega páska,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna