Frétt

Þetta líður hjá

Við Varmá í Hveragerði stendur listaverkið „Þetta líður hjá“ eftir Elísabetu Jökulsdóttur.  Verkið er 12 tonna steinn sem myndhöggvarinn Matthías Rúnar Sigurðsson hjó út sæti í.  Hægt er að sitja í sætinu, sem snýr í hásuður, njóta nærveru Varmár og láta sér líða vel. Verkið minnir okkur á að allt kemur til með að líða hjá, líka Covid – 19 veiran.  Sem við höfum att kappi við undanfarnar vikur.  Og því miður þurft að grípa til erfiðra varúðarráðstafana, þar með talið umtalað/umdeilt heimsóknarbann á hjúkrunarheimilum landsins.

 Nú hillir undir afléttingu heimsóknarbannsins.  Með hvaða hætti kemur væntanlega í ljós í næstu viku en telja má víst að það verði gert í einhverjum skynsamlegum skrefum.  Ólíklegt er að heimilin verði opnuð öllum frá byrjun maí, þess heldur að opnunarferlið nái yfir nokkrar vikur.  Við opnun heimilanna aukast líkur á smiti meðal heimilis- og starfsmanna, eitthvað sem við munum þá tækla á sem skynsamastan hátt.  Hvernig, kemur í ljós þegar það raungerist. 

 Með þessum línum vil ég þakka öllum þeim sem hafa lagt á sig ómælt erfiði vegna heimsóknarbannsins.  Þar ber fyrst að telja heimilismennina og aðstandendur þeirra.  Ég þakka einnig af heilum hug starfsmönnum Grundarheimilanna sem hafa lagt mikið á sig til að létta heimilisfólkinu lífið og hafa í mörgum tilvikum „komið í stað aðstandenda“ ef þannig má að orði komast og eins langt og það nær.  Ég viðurkenni að þetta var erfið ákvörðun en ég er enn sannfærður um að þetta var rétt skref.  Umfangsmikið smit á hjúkrunarheimili hefði eflaust haft mikil og neikvæð áhrif á heilsufar og vellíðan heimilismanna auk aðstandenda þeirra og starfsmannanna.  Það er ómögulegt að segja til um og sanna eða afsanna hvort þetta var rétt ákvörðun.  Ég hef þó mikinn áhuga á því að gera heilsuhagfræðilega úttekt á áhrifum heimsóknarbannsins.  Það er að reyna að meta ávinning af banninu og bera þann ávinning saman við þann skaða sem bannið kann að hafa valdið framangreindum hópum.  Þetta er hægt að meta út frá heilsufari og líðan heimilismanna, aðstandenda þeirra og starfsmanna og sjá hvort við komum út í plús eða mínus.  Einnig væri hægt að taka inn í þessa rannsókn fjárhagsleg áhrif bannsins.  Vonandi verður rannsókn sem þessi framkvæmd á næstu misserum.

 Að lokum, munum að þetta líður allt saman hjá.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna