Frétt

Kæru aðstandendur

Síðustu tvær vikur hafa að okkar mati gengið ljómandi vel og eðlilega allir kátir að fá heimsóknir.  Lífið fer að færast í eðlilegt horf og gerum við ráð fyrir að í  næstu viku fái hver heimilismaður eina heimsókn daglega, það er einn gestur til hvers og eins á dag.  Ekki þarf lengur að skrá og panta tíma, við treystum ykkur  til þess að passa upp á það að aðeins komi einn á hverjum degi.  Og nú þarf það ekkert að vera sá sami alla dagana.  Áfram gilda þó þær reglur að heimsóknirnar eiga ekki að eiga sér stað í almennum rýmum heldur inni á herbergjum heimilismanna og heimsóknartími verður almennt á milli kl. 13-16 og á þeim tímum  verður húsið opið.  Ykkur er áfram frjálst að fara út í göngutúra og hvetjum við til þess, það er yndislegt að sitja úti í sólinni og bekkir í görðunum sunnan við Grund.  Starfsfólk aðstoðar ykkur að komast út úr húsinu því við erum með húsinu skipt niður í sóttvarnarhólf og reiknum með að halda því eitthvað áfram. 

Bíltúrar og heimsóknir utan Grundar eiga að bíða fram yfir mánaðarmótin en þá er reiknað með eðlilegu horfi á heimsóknum á ný svo framarlega að smitum fari ekki fjölgandi í samfélaginu.

Snyrtistofa og hárgreiðslustofa eru mikið nýttar núna eftir langt hlé.   Sjúkraþjálfun er komin í nokkuð eðlilegt horf en sundlaugin verður lokuð eitthvað áfram enda áhersla lögð á útivist yfir sumartímann😊

Morgunstund verður áfram sjónvarpað og starfsfólk iðjuþjálfunar sinnir afþreyingu ýmis konar inni á deildum.

 Að lokum minnum við á að það er velkomið að vera í sambandi við okkur ef einhverjar spurningar vakna varðandi heimsóknirnar eða annað sem brennur á ykkur.

Það getur auðvitað ýmislegt breyst á tveimur mánuðum hjá ykkar ástvinum og við viljum svo gjarnan heyra í ykkur ef það er eitthvað sem þið hafið áhyggjur af.

 Með ósk um góða helgi.  

Mússa