Frétt

Kæru aðstandendur

Heimsóknir síðustu vikur hafa gengið afar vel, það var notalegt að sjá ykkur aftur og nú eftir Hvítasunnuhelgina, þriðjudaginn 2.júní verður heimsóknarbannið að fullu aflétt á Grund og heimilið opnað að nýju fyrir gestum.  Húsið verður opið til kl.17 á daginn en eftir það þarf að hringja dyrabjöllu og biðja um að láta opna og gjarnan geta þess hvern þið eruð að heimsækja.  Við munum framvegis ekki opna dyrnar sem snúa að Hringbrautinni.  Allt þetta er gert til að auka öryggi og draga úr umgengni um heimilið.  Eins og ávallt eru gestir hjartanlega velkomnir og heimilismenn geta í næstu viku farið í bíltúra, heimsóknir og sinnt öðrum erindum utan heimilisins eins og áður. Áfram verður samt alltaf nauðsynlegt að gæta að sóttvörnum. Við viljum biðja ykkur áfram að njóta heimsóknarinnar á herbergi ástvina ykkar ekki í sameiginlegum rýmum Grundar.  Eins langar mig að biðja ykkur að taka tillit til þess að við getum ekki boðið upp á kaffiveitingar í heimsóknunum, það er þá möguleiki að  koma með einhverja hressingu með ykkur í heimsóknina til að njóta saman inni í herbergi.  Vonandi viðrar vel á næstunni til útiveru og við erum búin að mála útibekkina okkar og erum að koma þeim fyrir allt í kringum húsið.  Það er gott að fá sér göngutúr saman😊

Við þessi tímamót er mér efst í huga þakklæti og langar mig að nota tækifærið og þakka þeim sem skráðu sig í bakvarðasveit heimilisins, það var okkur mikils virði og styrkur að finna að margir voru tilbúnir til að stökkva inn í og aðstoða ef þurft hefði. Ykkur öllum þakka ég skilning og þolinmæði en ekki síst fyrir góða samvinnu og jákvætt viðhorf.

Samstarfsfólki mínu sem síðustu vikur og mánuði hefur unnið af æðruleysi við afar krefjandi og einstakar aðstæður þakka ég fyrir óeigingjarnt starf.   Ég hef heyrt ykkur hrósa þeim og þakka og það gerir heimilisfólkið sannarlega líka.

Við getum margt lært af þessari reynslu okkar og það gerum við saman einsog við fórum í gegnum þetta saman.  Við viljum alltaf bæta okkur og nú viljum við heyra frá ykkur hvað við hefðum að ykkar mati getað gert betur.  Heimsóknarbannið sem var sett á var ekki óumdeild aðgerð og gott að líta í baksýnisspegilinn þegar þessi faraldur er afstaðinn.  Ég hvet ykkur til að hafa samband við mig þegar nú má aftur fara að hittast en það má einnig hringja eða senda mér línu.

Njótið helgarinnar og farið varlega.

Mússa