Frétt

Ingólfur vinur minn

Ingólfur Skagfjörð Hákonarson kom til okkar í Ás árið 1992.  Hann lést í byrjun mánaðarins eftir afar skammvinn veikindi og við kvöddum hann í Hveragerðiskirkju í gær.  Hann var í brekku til að byrja með í Ási, hafði sig lítið frammi og dvaldi yfirleitt í sínu herbergi.  Svo var um all langa tíð.  En svo birti til hjá honum og hann fór að njóta lífsins, þrátt fyrir talsverð veikindi.  Hann sinnti dýrahaldinu í Bæjarási af áhuga og ástúð.  Gaf hænunum að borða og drekka, sótti eggin til þeirra, fór út með hundinn Kút og fylgdist með kettinum, hvers nafn ég man ekki.  Hann fór á milli húsa og spjallaði við heimilismenn og starfsmenn um allt og ekkert.  Hann var svo sannarlega í essinu sínu þegar kom að þessum fallegu verkefnum.  Og það er að mínu mati það mikilvægasta við dvöl á heimili eins og okkar að hver og einn heimilismaður finni sér verkefni sem hann ræður við og gefur lífi hans tilgang.  Þarf ekki að vera mikið eða flókið, aðallega að hafa eitthvað fast á hverjum degi að sýsla. 

 

Þess utan stundaði Ingólfur gönguferðir um fallega bæinn okkar af miklum móð.  Þegar við Bangsi (labrador hundurinn minn) hittum Ingólf á förnum vegi var kveðjan nær alltaf sú sama:  „Sæll Gísli, er þetta ekki Bangsi?“  Hann var mikill dýravinur og eftir að hafa spjallað stuttlega um daginn og veginn og klappað Bangsa hélt hann sína leið.

 

Ingólfur var mikill sólardýrkandi.  Um leið og sólin braust fram, jafnvel snemma vors með lágu einnar tölu hitastigi, var hann mættur út á horn við Austurás þar sem hann bjó, yfirleitt á nærbuxunum og sleikti sólina.  Við í Ási þekkjum þessa sjón og ég hugsa til þessa með hlýleika og brosi á vör.  Aðspurður af hverju hann færi aldrei til sólarlanda stóð ekki á svörum hjá Ingólfi:  „Þetta er sama sólin 😊

 

Ingólfur heitinn gaf mikið af sér til samfélags okkar í Ási sem ég fyrir hönd okkar allra þakka kærlega fyrir.  Hans verður sárt saknað.  Blessuð sé minning Ingólfs vinar míns.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna