Vikupistlar

Hvað er sóun?

Eitt af því sem að við þurfum stöðugt að vera með í huga á heimilunum okkar er sóun. Manneskjan virðist eiga það sameiginlegt nánast hvar sem er í heiminum að ganga illa um og ekki vera sérlega nýtin. Öll þessi sóun kostar fjármuni sem að gaman væri að nýta í að gera eitthvað skemmtilegt. Við þekkjum öll þetta orð, sóun, en hugsum kannski minna um hvað það nákvæmlega er. Að hafa skrúfað frá öllum ofnum og opna glugga er sóun. Að hafa kveikt ljós í björtu er sóun. Við getum líka sóað tíma. Tíma einhvers getur verið betur varið í önnur verk og verkefni en hann er akkúrat að sinna. Við getum líka sóað tíma með því að vera föst í ákveðnu verklagi sem að væri hægt að eindfalda. Þetta eru dæmi um sóun sem að við sjáum ekki endilega lenda í ruslinu. Úrgangur og sorp er svo önnur tegund sóunar. Magn sorps frá heimilunum okkar er um 3 kíló fyrir hvern heimilismann á dag, alla daga ársins. Það eru tæplega 400 þúsund kíló á ári sem að samsvarar um það bil 350 stykkjum af Toyota Aygo bílum, næstum því einn á dag. Því miður þá er það þannig að sorpið sem að kemur úr okkar starfsemi er að miklu leyti óhjákvæmlilegt vegna eðlis starfseminnar. Við þurfum þó að skoða ýmislegt sem að endar í ruslinu. Við hendum t.d. of miklum mat á Grundarheimilunum sem er eitthvað sem að við þurfum að skoða og ég kalla eftir aðstoð samstarfsfólksins míns við að finna hvar við getum gert betur þar. Sérfræðingarnir í dags daglegum störfum innan heimilanna sjá þetta lang best. Sýnum samfélagslega ábyrgð og tökum þátt, ég held að það gæti bara verið skemmtilegt líka ef að við fáum einhverjar góðar hugmyndir. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Að vera í sambandi

Það skiptir máli að vera í góðu sambandi og við höfum heyrt að aðstandendur almennt kalla eftir upplýsingagjöf um viðburði og annað sem í boði er fyrir heimilisfólk. Við viljum endilega hvetja aðstandendur til að taka þátt í viðburðum stórum og smáum, það er velkomið að líta við í opin hús í iðjuþjálfun með sínu fólki, stólaleikfimi eða hvað sem er, það er bara skemmtilegt að taka þátt í formlegum og óformlegum viðburðum, samveran gefur alltaf mikið. Til þess að við getum miðlað þessum upplýsingum þurfum við að vera með upplýsingar um aðstandendur og upplýsingarnar þurfa að vera réttar. Við hvetjum alla aðstandendur til þess að skrá inn upplýsingar um sig á hlekknum hér fyrir neðan. Við hvetjum líka þá sem að eru núna skráðir til þess að fylla út upplýsingar um sig, og mögulega þannig uppfæra gamlar upplýsingar. Vinsamlegast deilið þessum hlekk innan fjölskyldu þannig að fleiri geti skráð sig. Þeir sem að eru skráðir með þessum hætti fá þó ekki sjálfkrafa upplýsingar um heilsufar og viðkvæmar upplýsingar. Slíkt er alltaf metið í hverju tilfelli fyrir sig. Að hafa þessar upplýsingar skráðar hjálpar okkur líka að þekkja betur þá einstaklinga sem að við erum að aðstoða. Við viljum halda góðu sambandi og hvetjum aðstandendur til að hafa samband ef að eitthvað er, stórt eða smátt. Skráning upplýsinga hér: https://forms.office.com/e/Jjgc7VQk8b Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Samskipti

Í flóknu umhverfi reynir oft á samskiptin og samskiptahæfnina. Það eru allskonar tilfinningar í spilinu þegar að kemur að umönnun ástvina okkar og ljóst að við getum ýmist verið sátt eða ósátt með margt sem að þar fer fram. Eitt er alveg ljóst að lang flestir þeirra sem að vinna þessi störf, gera það eftir sinni allra bestu getu og leggja sig margir fram um að gera þetta eins og þeir sjálfir myndu kjósa. Mikið heyri ég af samverustundum og uppbroti sem að einstaka starfsmenn eða hópur starfsmanna tekur sig saman um að gera og engar starfslýsingar komast yfir að lýsa. Ég verð alltaf ákaflega stoltur af samstarfsfólki mínu þegar að ég heyri slíkar sögur. Tökum okkur saman og verum dugleg að hrósa og þakka fyrir dagleg störf þessa frábæra fólks sem að starfar of oft í vanþakklátum störfum. Þegar að hlutirnir eru hins vegar, að okkar mati, ekki eins og þeir eiga að vera er rétt að beina þeim ábendingum til stjórnenda því að okkar er ábyrgðin. Eru upplýsingar nógu aðgengilegar? Eru þær nógu skýrar? Vita starfsmenn hvers er ætlast? Er skipulagið að virka? Þegar að eitthvað af þessu er að klikka þá þarf að skoða þessa hluti og það er í höndum okkar stjórnenda. Því miður gerist það stundum að við fáum fregnir af því að almennir starfsmenn fái yfir sig skammir og öskur að þeirra mati og það er ekki undir neinum kringumstæðum ásættanlegt. Við sýnum því fullan skilning að þetta er allt saman mjög flókið og allskonar tilfinningar í spilinu. Upplifun er líka ólík milli aðila og getur verið að sá sem að er talinn vera að öskra á einhvern upplifi það ekki þannig. Ég vil því endilega hvetja alla sem að hafa einhverjar umkvartanir að koma með þær endilega til deildarstjóra, hjúkrunarframkvæmdastjóra eða forstjóra, eftir atvikum. Ég er tilbúinn í spjall hvenær sem er. Einnig bendi ég á að á heimasíðu heimilanna (www.grundarheimilin.is) er að finna ábendingarhnapp sem að má gjarnan nota til að koma ábendingum til okkar. Sem sagt, vöndum samskiptin, hrósum þegar að við sjáum tilefni til við hvern sem er, ábendingar, ósætti og kvartanir skulu berast þeim sem að hafa ábyrgð og völd til að bregðast við þeim. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Mikilvæg störf

Eitt af því sem er jákvætt í vinnustaðamenningu Grundarheimilanna er að við virðum störf hvors annars og áttum okkur á að vinnan okkar er mikilvæg og við hjálpumst að þegar á þarf að halda. Auðvitað kemur fyrir að einhver gleymir sér og finnst sitt starf mikilvægara en annarra en það er mikilvægt að hafa í huga að við finnum fyrir því öll þegar vantar einhverja hlekki í keðjuna. Við höfum okkar styrkleika og veljumst til starfa sem henta okkar styrkleikum. Í svona umfangsmikilli starfsemi er fjöldinn allur af fjölbreyttum störfum, alveg eins og á öllum heimilum. Það er eldhús, það er þvottahús, það þarf að þrífa, það þarf að skipta um perur, það þarf að sinna heilsurækt og heilsueflingu, hafa eitthvað fyrir stafni, það þarf að sinna fjölbreyttum líkamlegum þörfum og svo framvegis. Við erum góð í því sem að við gerum og ekkert gengi upp ef það væri ekki farið út með ruslið eða skipt um ljósaperur. Hvert verkefni hjá okkur getur, ef því er ekki sinnt, komið í veg fyrir að við hin getum sinnt okkar hlutverkum. Við reynum líka að horfa út fyrir hlutverk okkar og aðstoðum samstarfsfólkið í öðrum verkefnum ef á þarf að halda. Það er mikilvægt að við höldum í þennan góða anda, berum virðingu hvert fyrir öðru og störfum hvers annars og léttum undir með vinnufélögunum þegar þarf þannig að allir hlutir gangi sem best. Þannig búum við til jákvætt starfsumhverfi og getum hlakkað til að mæta í vinnuna á hverjum degi. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Sumarhátíðir

Í vikunni var veðrið dásamlegt og óhætt að segja að við höfum náð að nýta það á Grundarheimilunum. Sumarhátíðir voru haldnar en það er skemmtilegt að halda áfram að njóta sumarsins þrátt fyrir að margir haldi að sumarið sé búið um verslunarmannahelgi. Við vonum að þessar sumarhátíðir framlengi sumrinu og að við taki milt og gott haust. Framkvæmdin var í höndunum starfsfólks iðjuþjálfunar og félagsstarfs sem og eldhúss sem fengu svo til liðs við sig frábæra listamenn. Takk kærlega fyrir okkur. Að halda svona viðburði getur verið heilmikið átak en við erum með fjöldan allan af starfsfólki sem kom að þessumeð einum eða öðrum hætti. t.d. að fylgja okkar heimilisfólki og vera því innan handar og gleðjast saman. Það var líka frábært að sjá að margir aðstandendur náðu að njóta með okkur. Kærar þakkir öll fyrir vikuna. Á facebook síðum heimilanna má sjá myndir af hátíðunum. Við stefnum inn í haustið með frábærann hóp af starfsfólki. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem að komu til starfa í sumar á okkar heimilum. Sumir halda áfram að hluta með skóla, einhverjir halda áfram í hærra starfshlutfalli og aðrir hverfa til annarra verka. Kærar þakkir fyrir sumarið, og vonandi haldið þið sem flest áfram hjá okkur næsta sumar. Facebook Grundar: https://www.facebook.com/GrundReykjavik Facebook Áss: https://www.facebook.com/dvalaras Facebook Markar: https://www.facebook.com/morkhjukrunarheimili Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna.... lesa meira


Þetta hefur alltaf verið svona

Við festumst oft í viðjum vanans og einblínum stundum um of á hvernig við höfum alltaf gert hlutina. Við göngum inn í það sem okkur er kennt og höldum því áfram, verðum vélræn í leik og starfi og gerum eins og okkur er sagt. Dæmi um þetta er sagan af konunni sem eldaði alltaf kjötsúpu í tveimur pottum, af því að mamma gerði það alltaf þannig. Þegar mamman var spurð hvers vegna hún eldaði alltaf kjötsúpuna í tveimur pottum var svarið ósköp einfalt, hún átti bara aldrei nógu stóran pott. Við könnumst örugglega við þetta öll, að einhvern tíma hafi runnið upp fyrir okkur að við séum kannski að gera einhverja hluti undarlega „af því bara“. Að íhuguðu máli sjáum við ef til vill einfaldari leiðir til að ná sama markmiði, nú eða jafnvel er eitthvað sem að við gerum bara algjör óþarfi. Mér finnst svo frábært þegar að ég heyri pælingar í þessa veru þ.e. af hverju? Það fylgir því líka vellíðan að komast að niðurstöðu um að gera eitthvað öðruvísi og getur létt af okkur einhverjum kvöðum. Við þurfum á sama tíma að bera virðingu fyrir ákveðnum hefðum og venjum hvar sem við komum, þetta er því oft fín lína. Við skulum samt reyna að halda í gagnrýna hugsun og nýta tækifærið sem t.d. kemur með nýju fólki sem spyr um skrýtna hluti, að okkur finnst, og velta fyrir okkur hvort að það geti verið eitthvað til í því. Þegar spurt er spurninga er frábært að fá tækifæri til að útskýra hvers vegna hlutir eru með ákveðnum hætti. Allt samtal um hvernig og hvers vegna við gerum hlutina getur líka verið svo skemmtilegt og oft koma frábærar hugmyndir að breytingum þegar að leggjumst á eitt og kannski einföldum okkur vinnuna Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarssoon forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Tilbreyting

Það er svo gaman að fylgjast með samstarfsfólki mínu hvað það er uppátækjasamt. Á facebook síðum heimilanna má sjá að nýlega hefur verið allskonar skemmtilegt uppbrot frá daglegu lífi. Íspinnadreifing, svalasamkeppni, gönguferðir, söngstundir útivið, spariboð og ég veit ekki hvað. Sólin sem hefur verið síðustu daga hjálpar heldur betur til við að lyfta andanum. Það er skemmtilegt þegar við leyfum okkur að hugsa aðeins út fyrir boxið og hafa gaman í vinnunni á heimilum okkar heimilismanna. Þegar við njótum okkar við að gera skemmtilega hluti þá gleður það alla í kring. Höldum áfram að vera óhrædd við að fá nýjar hugmyndir og gera „spondant“ hluti, inni og úti við. Það er gaman að gera öðruvísi hluti, við getum öll komið með hugmyndir og sumar verða að veruleika og sumar breytast aðeins í framkvæmd eftir því sem aðstæður leyfa. Aðeins brot af því sem að gerist hjá okkur á hverjum degi kemur í facebook fréttirnar. Ég veit að það er heldur betur margt fleira brallað innan og utanhúss sem veitir tilbreytingu í tilveruna. Ég nota tækifærið og hvet aðstandendur til að vera með okkur í þessu ferðalagi, koma með hugmyndir og vera með í að koma hugmyndum í framkvæmd. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna... lesa meira


Að hafa hlutverk

Það skiptir okkur öll máli að hafa hlutverk í lífinu og á ólíkum æviskeiðum þá breytast hlutverkin okkar. Við höfum hlutverk í vinnu, í heimilishaldi, í uppeldi o.m.fl. Með hlutverki sem okkur er treyst fyrir og við finnum að skiptir máli höfum við tilgang. Það eru mörg skref og flókin sem að þarf að taka þegar að við skipum um gír í lífinu og þurfum að finna okkur nýtt hlutverk eða verkefni þegar einu hlutverki eða verkefni lýkur. Dæmi um þetta er þegar að barnauppeldi lýkur og börnin fara að heiman, þegar við hættum á vinnumarkaði o.s.frv. Að fara á hjúkrunarheimili getur reynst mörgum erfitt sem að áður höfðu margvísleg hlutverk í sínu heimilislífi. Við sem störfum á þessum heimilum verðum að gæta þess að fólkið okkar upplifi sig ekki aðeins sem þiggjendur þjónustu heldur hafi ákveðin hlutverk. Það er okkar að koma auga á möguleika til þess að skapa þessi hlutverk. Það vill enginn upplifa að hann sé óþarfur eða byrði. Dæmi um hlutverk sem við getum fundið á heimilunum okkar eru að leggja á borð, að taka af borðum, setja í eða taka úr uppþvotta/þvottavél, að brjóta saman þvott/tuskur, að brjóta saman servíettur, vökva blóm, raða einhverjum vörum í hillur og ótal margt fleira. Fólkið okkar er með mismunandi færni og hefur mismikla getu til að sinna þessum verkum komin á nýtt heimili, en útkoman og hvernig það er gert ætti að vera aukaatriði. Tuskurnar mega vera allskonar brotnar saman, servíetturnar mega vera allskonar, við erum heimili og allt má vera allskonar. Hjálpumst að við að finna verkefni við hæfi, þau þurfa ekki að vera stór eða flókin en geta skipt þann sem að fær verkefnið gríðarlega miklu máli. ​ ​ Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna ​... lesa meira


Takk Framkvæmdasjóður aldraðra

Í vetur sóttu Grundarheimilin um styrki frá framkvæmdasjóði aldraðra en það er sjóður sem er fjármagnaður af skattgreiðendum sérstaklega (kemur fram á skattframtali eins og útvarpsgjaldið). Sjóðurinn hefur það hlutverk að byggja upp öldrunarþjónustu á Íslandi. Sótt var um styrk fyrir 16 verkefnum sem hljóðuðu upp á 200 milljóna framlag frá sjóðnum. Samþykkt voru 14 verkefni að fullu, að upphæð 195 milljónir, einni umsókn var hafnað og ein var samþykkt að hluta. Heilbrigðisráðherra veitir styrki að fenginni tillögu frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Við (á Grundarheimilunum )erum gífurlega þakklát fyrir stuðninginn sem að við fáum með þessum hætti til að byggja upp húsnæði okkar og innviði þess til að bæta búsetu og starfsskilyrði þeirra sem að hjá okkur eru búa eða starfa (hverju sinni.) Ég þakka heilbrigðisráðherra og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra kærlega fyrir þetta framlag. Ljóst er að mikið þarf að vinna í húsnæði Grundar og Áss sérstaklega á næstu árum. Í Mörk er staðan betri húsnæðislega séð, enda eru þar allt einbýli með sér baðherbergi. Samþykkt var núna að breyta deild A3 á Grund að mestu leyti á sama hátt og gert hefur verið á hæðinni fyrir neðan. Einnig var samþykkt klæðning á hjúkrunarheimilinu í Hveragerði, endurnýjun á brunakerfum, tæki til sjúkraþjálfunar á öllum heimilum og ýmislegt fleira stórt og smátt. Viðhaldi á þessum gömlu húsum okkar hefur alla tíð verið almennt vel sinnt og þvi búum við ágætlega að því þegar að kemur að endurnýjun. Haldið er áfram að vinna í þessum breytingum en til þess að geta gert þetta hraðar þá þurfum við klárlega að fá greidda húsaleigu fyrir það húnsæði sem að við notum í þjónustu við okkar heimilisfólk. Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundar, hefur ritað marga pistla um það mál og ætla ég ekki að fara út í smáatriði hér en ítreka mikilvægið. Grundarheimilin saman standa af félögum sem að eru óhagnaðardrifin og allt fé heimilanna fer í starfsemi þeirra. Það er því ljóst að húsaleiga til okkar heimila færi ekki í neitt annað en í uppbyggingu og endurbætur hjá okkur. Sem er eitthvað sem allir sjá að er löngu tímabær og þörf ráðstöfun. Ég treysti því og trúi að stjórnvöld séu að vinna að því hörðum höndum að leysa þessi mál þannig að við getum haldið áfram uppbyggingunni og nauðsynlegum endurbótum og skipuleggja það til framtíðar, vitandi af tryggum greiðslum. Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna p.s. mun halda pólitík í lágmarki í mínum skrifum, en komst ekki hjá því í þetta skiptið að koma aðeins inn á hana. 😊... lesa meira


Kjarasamningar og sautjándi júní

Nýlega var gengið frá kjarasamningum allra starfsmanna Grundarheimilanna en Grundarheimilin eru aðilar að SFV (Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem sér um að semja fyrir okkar hönd. Samningarnir eru í einhverjum tilfellum komnir til framkvæmda en aðrir eru í atkvæðagreiðslu. Verði þeir samþykkir verður greitt eftir þeim næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl. Það er ákaflega ánægjulegt að þetta sé klárt og gott að þessari óvissu sé eytt og mikilvægum kjarabótum komið til minna samstarfsmanna. Samningarnir eru stuttir og því stutt í að taka þurfi upp þráðinn og semja að nýju. Eitt af þvi sem við fáum mestar ábendingar um í starfsánægjukönnunum sem að við framkvæmum með reglulegu millibili er að laun séu of lág miðað við verkefni og ábyrgð. Í mörgum tilfellum er hægt að taka undir það að laun þyrftu að vera hærri til að standast samanburð við önnur störf í þjóðfélaginu og umönnunarstörf hafa lengi verið vanmetin. Á vettvangi stjórnvalda og heildarsamtaka launþega er verkefni sem að snýr að jöfnun launa milli markaða, einmitt með það í huga að lyfta launum í umönnunarstörfum (heilbrigðisþjónusta og kennsla). Vona ég að hjúkrunarheimilin verði höfð í huga í þeirri vinnu og allar okkar stéttir. Sautjándi júní er um helgina og óska ég öllum heimilismönnum, starfsmönnum og aðstandendum (heimilis- og starfsmanna) til hamingju með daginn. Á Grundarheimilunum reynum við að gera deginum hátt undir höfði með tilbreytingu í mat og dúkuðum borðum. Við berum virðingu fyrir því að sú kynslóð sem við erum að þjónusta núna stendur nær tímamótunum árið 1944 en við sem störfum á heimilunum. Þessi dagur skiptir heimilisfólk máli. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og berum virðingu fyrir hefðunum og höldum daginn hátíðlegan. Kveðja og góða helgi, Karl Óttar Einarsson Forstjóri Grundarheimilanna p.s. hef fengið einhverjar ábendingar um að póstarnir séu of langir, hef því einn stuttan í dag og mun reyna að stytta þá sem að á eftir koma. Þó að ég lofi ekki að þeir verði eins stuttir og þessi.... lesa meira