Vikupistill

Verum í vinnunni, ekki símanum

Hef áður skrifað um snjallsímanotkun, og á eflaust eftir að gera það aftur.  Framkvæmdastjórn Grundarheimilanna hefur í all nokkurn tíma verið að fjalla um það böl sem fylgir þessum annars snjöllu tækjum.  Böl finnst kannski einhverjum of sterkt til orða tekið, en ég lít á á ofnotkun þessara tækja sem bölvað böl.  Margir verða hreinlega háðir notkun þeirra og hjá of mörgum starfsmönnum er þessi símanotkun farin að skerða vinnuframlag þeirra og skemma fyrir andrúmsloftinu á vinnustaðnum.  Ef einhver starfsmaður eyðir óhóflegum tíma í símanum, þá lendir aukin vinna á hinum sem eru ekki eins uppteknir af snjalltækinu sínu.  Þá fáum við talsvert af kvörtunum frá aðstandendum að starfsmenn séu uppteknir í símanum sínum þegar þeir ættu að vera að sinna heimilisfólkinu.

Við í framkvæmdastjórninni höfum verið að hugsa upp leiðir til að leysa þessi mál.  Tvennt kemur til greina að mínu mati.  Að takmarka og stýra notkuninni á þann veg að sem minnst truflun hljótist af og hin leiðin er algjört snjallsímabann.  Vonandi náum við að fara fyrri leiðina, okkar allra vegna.  Það er hundleiðinlegt að þurfa að banna alfarið snjallsímanotkun í vinnutímanum, það er svona það allra síðasta sem við komum til með að grípa til.  Í einstaka tilvikum getur það reynst starfsmanni nauðsynlegt að svara í (snjall)símann sinn.  Símtal frá lækni, vegna barna í leikskólum eða annarra mjög brýnna hluta.  En það er ekki oft og ekki allir sem þurfa á slíkri undanþágu að halda.  Og í langflestum tilfellum er vandamálið við ofnotkun tækjanna ekki símtölin, það er þessi takmarkalausa, og oft á tíðum algjörlega tilgangslausa, skoðun á heimasíðum og ónauðsynleg samskipti á samfélagsmiðlum.  Hef nýlega skrifað pistil um fíknina sem heltekur allt of marga í þeim efnum og mér sýnist sú fíkn heldur sækja á heldur en hitt.  Kannski væri hægt að bjóða upp á aðstoð við að hætta fyrir þá sem eru langt leiddir, og þeir eru fleiri en ykkur grunar.  Og líklegast mun enginn sem les þennan pistil taka þetta til sín, þannig er það nú bara.

Vonandi náum við árangri með góðri samvinnu okkar allra í að minnka snjallsímanotkunina hjá okkur öllum með reglum sem framkvæmdastjórnin mun kynna á næstunni og komumst þannig hjá því að banna starfsfólki alfarið að vera með slík tæki á sér í vinnunni. 

Verum í vinnunni, ekki símanum.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna