Vikupistill

Ekki sama peningar og fólk

Nýlega auglýsti fjármálaráðuneytið eftir að leigja húsnæði fyrir skattinn.  Um yrði að ræða 30 ára leigusamning og að greidd verði full leiga, eðlilega, sem myndi dekka byggingar- og viðhaldskostnað, vaxtakostnað af lánsfé og annan þann kostnað sem eðlilegt getur talist að greiða fyrir afnot af húsnæði, í siðuðu samfélagi.  Áætlaðar leigugreiðslur nema um það bil 36 milljónum króna á mánuði eða samtals um 13 milljörðum króna á 30 ára tímabili.  Líklega ekkert óeðlilegt endurgjald fyrir svo umfangsmikla starfsemi, safnast þegar saman kemur.

Á sama tíma neitar ríkið að greiða eðlilega húsaleigu fyrir húsnæði það sem notað er fyrir okkar viðkvæmasta aldurshóp, þá sem dvelja á hjúkrunarheimilum landsins.  Þó ekki alveg, til dæmis fær Sóltún greidda fulla húsaleigu fyrir það húsnæði sem félagið leggur til starfseminnar, sem er til mikillar fyrirmyndar.  Vel gert Sóltún.  En greinilega ekki til nægjanlega mikillar fyrirmyndar, því ríkið gerir upp á milli heimilanna.  Grund og Ás leggja ríkinu til um það bil 14 þúsund fermetra húsnæði fyrir tæplega 300 manns sem dvelja þar í hjúkrunarrýmum.  Ríkið greiðir hluta þess húsnæðiskostnaður sem til fellur við rekstur heimilanna, en alls ekki fyrir fjármagns/fjármögnunarhluta bygginganna.  Sem er um það bil tveir þriðju hlutar alls húsnæðiskostnaðarins.  Þessar fjárhæðir nema nokkur hundruð milljónum króna árlega sem yrðu, hver einasta króna, nýttar til endurbóta og eftir atvikum byggingu nýrra hjúkrunarrýma, enda veitir ekki af, mörg hundruð manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu þessi misserin.

En nei, meira að segja Hæstiréttur Íslands er sammála þessari afstöðu ríkisvaldsins og hefur dæmt ríkinu í vil, þannig að það fari nú ekki óþarflega margar krónur frá ríki til þeirra sem hafa sinnt öldrunarþjónustu hér á land í rétt tæp 100 ár.  Fer ekki út í röksemdir dómsins en samanburður við aðra sem fá greidda húsaleigu, til dæmis Sóltún og þá sem byggja fyrir skattinn, finnst mér einhvern veginn á þá leið að þetta gengur ekki upp.

Það er ekki sama hvort verið að byggja húsnæði fyrir peninga, eða fólk sem þarf umönnun og aðstoð í lok lífs.  Kannski finnst heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingum Íslands þetta vera bara alveg eðlilegt.  Og fjármálaráðherra.  Ásamt Hæstarétti Íslands.  Ekki mér.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna