Vellíðan - Virðing - Vinátta

Hvað er að frétta

Fréttir og tilkynningar

25.11.2025  |  Mörk

Frábær heimsókn í Mörk

Það var svo sannarlega stuð í Mörk í dag þegar félagarnir Gunnar og Þórður í hljómsveitinni Tvíund komu og héldu uppi fjöri. Þeir fóru um víðan völl í tónlistinni, sungu mörg lög sem allir þekktu og gátu raulað með. 😍 Það var fullur salurinn á fyrstu hæð og mikil gleði í húsinu með þessa fjörugu og góðu heimsókn.
25.11.2025  |  Grund, Mörk

Starfsfólki boðið á íslenskunámskeið

Íslenskuáfanga þrjú lauk nýlega á Grund en það eru þrír áfangar í boði fyrir starfsfólk Grundarheimilanna ár hvert, áfangi 1,2 og 3. Það verður að segjast að nemendur eru fróðleiksfúsir og gaman að fylgjast með og upplifa hvernig erlenda starfsfólkinu okkar fer fram í málinu. Á næsta ári byrjum við aftur á áfanga eitt og svo koll af kolli. Grundarheimilin leggja áherslu á að allir erlendir starfsmenn sæki alla íslenskuáfangana þrjá sem boðið er upp á. Það er Mímir sem stendur að baki námskeiðshaldinu en Hrefna Clausen sem skipuleggur og kennir áfangana.
20.11.2025  |  Grund

Buðu upp á nýbakaðar smákökur

Í tilefni af degi mannréttinda barna þann 20.nóvember voru nemendur í Álfhólsskóla með góðgerðarviku núna 17.-21.nóvember. Og við nutum góðs af því hér á Grund því hingað komu fjallhressir strákar úr 10. bekk stormandi með fimm sortir af nýbökuðum smákökum sem þeir höfðu bakað. Allar nema piparkökurnar sögðu þeir. Heimilismenn voru himinlifandi með þessa skemmtilegu heimsókn og gerðu kökunum góð skil. Takk strákar fyrir frábæra heimsókn
20.11.2025  |  Grund

Samverustundir fyrir líkama og sál

Jónasarstofa var opnuð á Vegamótum á Grund í vikunni. Peningagjöf barst til heimilisins frá heimilismanni og aðstandendum hans. Henni var varið til að útbúa stofu þar sem hægt væri að hlusta á tónlist, slaka á og eiga samverustundir sem örva líkama og sál. Stofan verður kölluð Jónasarstofa, í höfuðið á heimilismanninum. Fjölskylda Jónasar og starfsfólk unnu sameiginlega að þessu verkefni sem gefur gjöfinni enn meira gildi. Fjölskyldunni er innilega þakkað fyrir þessa rausnarlegu gjöf
05.11.2025  |  Grund

Iceland Airwaves hátíðin sett á Grund

Í morgun var tónlistarhátíðin Iceland Airwaves að venju sett hér á Grund. Það er alltaf tilhlökkunarefni þegar líður að þessum degi enda ávallt frábærir listamenn sem koma fram. Heimilisfólk mætti á viðburðinn, leikskólabörn frá Tjarnarborg komu í heimsokn og svo komu gestir hátíðarinnar einnig í hátíðasalinn. Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu, bauð gesti velkomna og bað forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur að setja hátíðina. Eftir að hún hafði flutt ávarp stigu listamenn á stokk, m.a. GDRN og Bríet og flutningur þeirra dásamlegur á þessum ljúfu lögum sem þær sungu. Hafið kæra þökk fyrir eftirminnilegan morgun og velkomin að ári Iceland Airwaves
31.10.2025  |  Grund

Málað á grasker

Það er frábært að sjá hvernig starfsfólkið í vinnustofunni hugsar út fyrir rammann hér á Grund. Það er næstum ógjörningur fyrir heimilisfólk að skera út grasker, erfiðisvinna fyrir lúnar hendur sem oft eru þjakaðar af gigt og kvillum. Starfsfólkið leggur sig í líma við að finna út hvernig hægt er að virkja heimilisfólkið með og skapa notalegt og skemmtilegt andrúmsloft. Þetta árið datt því í hug að það væri bara heillaráð að mála graskerin, spjalla og fræðast um hrekkjavöku og lita grasker ef fólk vildi. Gefandi stund, gleði og kátína
Grundarheimilin

Kynningarmyndband