Vellíðan - Virðing - Vinátta

Hvað er að frétta

Fréttir og tilkynningar

10.12.2025  |  Grund, Ás, Mörk, Mörkin

Tölvuárás á Grundarheimilin

Takmarkað netaðgengi er á Grundarheimilunum í varúðarskyni vegna tölvuárásar sem uppgötvaðist síðdegis í gær. Áhrifa þessa gætir einnig á símkerfi og tölvupóst. Unnið er að því með færustu sérfræðingum að leita að uppruna árásarinnar og koma kerfunum upp að nýju í forgangsröð út frá mikilvægi. Reikna má með að áhrifin verði a.m.k. einhver næstu daga. Þá er unnið að því að tilkynna málið til opinberra aðila, s.s. Persónuverndar, Cert-IS og Embætti landlæknis. Við höfum sent aðstandendum upplýsingar á sms eins og við höfum getað, það kann að vera að einhverjir hafi fengið skilaboð sem að ekki eru lengur aðstandendur hjá okkur. Við biðjumst velvirðingar á því. Við munum halda aðstandendum upplýstum eftir því sem málið þróast.
08.12.2025  |  Mörk

Dásamlegur bökunarilmurinn í Mörk

Það var yndislegur bökunarilmur í húsinu í dag enda heimilisfólk í óðaönn að baka smákökur með kaffinu. Hvað er yndislegra á aðventunni en að sitja saman, fletja út og forma smákökur og segja allskonar sögur sem koma upp í hugann þegar hugsað er til bernskujóla
03.12.2025  |  Mörk, Mörkin

Karlakór Kjalnesinga söng jólalögin

Það var troðfullur salur af fólki sem beið með eftirvæntingu eftir Karlakór Kjalnesinga sem kom og söng fyrir heimilisfólk og íbúa Íbúða 60+ síðasta mánudagskvöld. Einn íbúanna, Hafliði Hjartarson, tók meðfylgjandi mynd fyrir okkur. Kórinn undir stjórn Láru Hrannar Pétursdóttur söng jólalög í bland við hefðbundin lög karlakórsins. Frábærir tónleikar. Þakka ykkur hjartanlega fyrir komuna Karlakór Kjalnesinga. Hlökkum til að fá ykkur aftur í heimsókn á næsta ári.
03.12.2025  |  Ás

Jólakransar á aðventu

Það er hefð fyrir þvi að útbúa fallega jólakransa á aðventunni hér í Ási. Heimilismenn hittust nýlega til að útbúa kransa og ýmiskonar jólaskraut til að skreyta með hér í Ási. Eins og alltaf var andrúmsloftið létt og kátt
28.11.2025  |  Mörkin

Konurnar perluðu armbönd fyrir Kraft

Í gær hittust konur sem búa hjá Íbúðum 60+ í Mörk og perluðu saman armbönd til styrktar Krafti, sem er félag ungs fólks sem hefur greinst með krabbamein. Það er ekki leiðinlegt að segja frá því en þessar duglegu konur náðu að perla 114 armbönd, hvorki meira né minna. Söluandvirðið nemur 330.600 krónum Ekki amalegt það. Þær voru svo áhugasamar og skemmtu sér konunglega og tilkynntu að þær væru alveg til í að endurtaka þessa ljúfu stund.
25.11.2025  |  Mörk

Frábær heimsókn í Mörk

Það var svo sannarlega stuð í Mörk í dag þegar félagarnir Gunnar og Þórður í hljómsveitinni Tvíund komu og héldu uppi fjöri. Þeir fóru um víðan völl í tónlistinni, sungu mörg lög sem allir þekktu og gátu raulað með. 😍 Það var fullur salurinn á fyrstu hæð og mikil gleði í húsinu með þessa fjörugu og góðu heimsókn.
Grundarheimilin

Kynningarmyndband