Fréttir

Reynt að draga úr áhrifum verkfallsins á Grundarheimilin

Á morgun, miðvikudaginn 15. febrúar, hefst að öllu óbreyttu verkfall hjá vörubílstjórum og bílstjórum olíudreifingar. Það mun að öllum líkindum hafa einhver áhrif á starfsemi Grundarheimilanna og því miður má gera ráð fyrir skerðingu á þjónustu og starfsemi. Við höfum tryggt eldsneyti í nokkrar vikur til að tryggja flutning á matvælum og þvotti milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Ennfremur er birgðastaða nokkuð góð hjá okkur bæði hvað varðar mat og hjúkrunarvörur og sumir birgjar eru með rafmagnsbíla. Þá höfum við aðgang að nokkrum rafmagnsbílum og strætó hefur gefið út að þeir hafi eldsneytisbirgðir í tíu til fjórtán daga. Grundarheimilin eru aðili að Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og hafa þau sótt um undanþágur fyrir starfsfólk aðildarfélaga að eldsneyti og lagt áherslu á að samgöngutæki fái að ganga. Binda samtökin vonir við að þær undanþágur verði veittar. Að sjálfsögðu munum við eftir bestu getu reyna að draga úr áhrifum verkfallsins á starfsemi Grundarheimilanna.

Qigong - íbúðir 60+

Boðið er upp á Qigong æfingar fyrir íbúa í íbúðum 60+ í Mörk tvisvar í viku. Æfingarnar eru í kaffihúsinu Kaffi Mörk á mánudögum og miðvikudögum kl.10. Qigong eru áraþúsunda gamlar kínverskar lífsorkuæfingar og hafa tímarnir notið mikilla vinsældar hjá okkur í Mörk. Fjórir félagar í Aflinum, félagi Qigong iðkenda, skiptast á að leiða hópinn. Æfingakerfi Aflsins er kennt við Gunnar heitinn Eyjólfsson leikara og nefnist Gunnarsæfingarnar.

Einn einn tveir dagurinn

Þann ellefta febrúar ár hvert er haldinn hátíðlegur einn einn tveir dagurinn. Símanúmer Neyðarlínunnar sem allir landsmenn ættu að þekkja og nota eftir því sem við á, ellefti annar. Við í björgunarsveitunum fáum smáskilaboð frá Neyðarlínunni þegar einhver þarfnast aðstoðar og lögreglu- og sjúkraflutningamenn komast ekki á staðinn. Einnig ef einhver er týndur, fastir bílar á Hellisheiðinni eða við þurfum að loka henni í vondum veðrum. Í fyrra fengum við í Hjálparsveit skáta Hveragerði yfir 50 slík skilaboð. Mikið af óveðursútköllum, föstum bílum, fólki í vandræðum í vondu veðri og svo framvegis. Það er tilvalið að nota þennan dag til að minna okkur öll, sérstaklega ungu börnin, á að þetta númer er það mikilvægasta sem við eigum til. Í allri neyð er afar brýnt að hringja strax. Neyðarverðir Neyðarlínunnar eru fljótir að meta hættustigið og kalla eftir viðeigandi björgum. Þeir sem hringja inn þurfa helst að vera rólegir (veit að það er ekki alltaf hægt í erfiðum aðstæðum), gefa upp nafn, staðsetningu og hvað kom fyrir. Lýsa aðstæðum, veðri ef við á og svo framvegis. Neyðarvörðurinn leiðir síðan símtalið og kemur viðeigandi björgum á staðinn. Notum einn einn tveir, ekki hundraðogtólf, því þau sem yngri eru bera frekar skynbragð á fyrri tölurnar. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Jákvæðar fréttir úr Ási

Í janúarbyrjun fékk ég gleðitíðindi af væntanlegri byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Ási. Tölvupóst frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum, þar sem fram kemur að fjórir aðilar hafa áhuga á að hanna og byggja nýtt 22 rúma hjúkrunarheimili gegnt því gamla, norðan megin við Hverahlíðina. Fyrri hluta síðasta árs fékkst enginn til verksins þannig að umskiptin eru mikil og því ber að fagna. Þessir aðilar fá til ráðstöfunar, ef þannig má að orði komast, ákveðna fjárhæð til að hanna, byggja og skila fullbúnu framangreindu heimili í takt við þá skilalýsingu sem fyrir liggur. Þær hugmyndir sem þessir fjórir skila, verða síðan rýndar af dómnefnd sem velur þá tillögu sem þykir vera best. Tímaáætlunin hljóðar upp á skil á þessu nýja fína húsi þann 11. mars árið 2025. Finnst það heldur bjartsýnt en á sama tíma vona ég svo sannanlega að þetta gangi eftir. Við höfum beðið heldur lengi eftir þessu nýja húsi og það er löngu tímabært að það rísi. Í beinu framhaldi af byggingu nýja heimilisins munum við taka það gamla í gegn. Tveggja manna herbergin verða aflögð og úr þeim útbúið eins manns herbergi með sér baðherbergi. Með þessum breytingum fækkar rýmum á móti þeim nýju og þegar upp verður staðið vænti ég þess að fjöldi hjúkrunarrýma í Ási verði á pari við það sem verið hefur undanfarin ár. Með þessum línum þakka ég hinu opinbera, ríki og Hveragerðisbæ, kærlega fyrir að standa að þessari framkvæmd með þessum hætti. Ríkið greiðir 85% og Hveragerðisbær 15%. Sú mikla bót á húsnæðismálum hjúkrunarheimilisins í Ási er löngu tímabær og verður fagnað með bros á vör og sól í hjarta. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Kaffihús í suðurgarði Grundar

Stefnt er að því að hefja í vor framkvæmdir við laufskála/kaffihús við Grund á Hringbraut. „Vonandi tekst okkur að opna kaffihúsið öðrum hvorum megin við áramótin næstu,“ segir Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna í samtali við Morgunblaðið í gær, mánudag. Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk Grundar að fá að reisa laufskála sunnan aðalbyggingar heimilisins við Hringbraut. Um er að ræða 112 fermetra hús og 520 fermetra lóðarfrágang. Kostnaðaráætlun er rúmlega 150 milljónir króna. Laufskálinn verður sjálfstæð bygging sem tengist aðalbyggingunni með yfirbyggðum gangi. Þarna verður kaffihús fyrir heimilisfólk og aðstandendur, leiksvæði fyrir börnin og hægt að opna út á verönd og sitja þar í sólinni. Í umsókn ASK-arkitekta til borgarinnar kemur fram að laufskálinn/ garðskálinn og útivistarsvæði séu hugsuð sem dvalarsvæði fyrir íbúa Grundar, þar sem þeir geti tekið á móti gestum í skjólsælu og sólríku umhverfi. Leiksvæði, gönguleiðir og dvalarsvæði uppfylli skilyrði um aðgengi fyrir alla. Þá geti viðburðir farið þarna fram, eins og tónleikar. Hönnun lóðarinnar er unnin af Landslagi ehf.