Fréttir

Páskaeggjabingóið í Mörk

Nokkrar myndir frá páskabingóinu okkar sem var haldið í Mörk fyrir nokkru. Mætingin var góð og það hefði mátt heyra saumnál detta, þvílík var einbeitingin. Heimilismenn voru ánægðir með vinningana eins og myndirnar bera með sér..

SFV 20 ára

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (þá heilbrigðisþjónustu) voru stofnuð þann 24. apríl 2002. Fyrir rétt rúmlega 20 árum. Þessara tímamóta var minnst síðastliðinn þriðjudag með stuttu málþingi um framtíð velferðarþjónustunnar þar sem heilbrigðisráðherra var með ávarp og í framhaldi þrjú erindi um málefnið frá mismunandi sjónarhornum. SFH, eins og það hét í upphafi, átti uppruna sinn í Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu en það félag var í upphafi félag æðstu stjórnenda í öldrunarþjónustu. Þegar leið nær aldamótum hafði bæst verulega mikið af millistjórnendum í FSÍÖ. Þannig var í raun búið að „þynna“ út félagið og forstjórar og framkvæmdastjórar heimilanna leituðu sér að nýjum samstarfsvettvangi. Sem endaði svo með stofnun hinna nýju samtaka og hafa eingöngu átt aðild að því æðstu stjórnendur hjúkrunarheimila og svo æðstu stjórnendur nokkurra annarra fyrirtækja og félaga sem veita velferðarþjónustu. Má þar meðal annars nefna SÁÁ, Krabbameinsfélagið og Reykjalund. Markmið samtakanna hefur alla tíð verið fyrst og fremst að sinna hagsmunagæslu og koma fram fyrir aðildarfélögin gagnvart hinu opinbera ásamt því að sjá um gerð kjarasamninga við stéttarfélög. Upphaflega var enginn starfsmaður hjá samtökunum en fyrir um það bil átta árum, minnir mig, var fyrsti starfsmaðurinn ráðinn, Eybjörg Helga Hauksdóttir lögfræðingur. Það var mikið gæfuspor fyrir samtökin og efldust þau jafnt og þétt undir styrkri stjórn hennar. Hún lét af störfum í fyrra og í hennar stað var ráðinn Sigurjón Norberg Kjærnested verkfræðingur. Annað gæfuspor. Auk hans starfa í dag hjá samtökunum tveir lögfræðingar, þær Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir og Heiða Vignisdóttir. Þær sinna margvíslegum verkefnum fyrir samtökin og gera það mjög vel. Eins og fyrr segir hafa samtökin eflst og dafnað þessa tvo áratugi. Til að byrja með vissu mjög fáir hver samtökin voru en í dag er tekið mark á því sem þau senda frá sér, leitað til þeirra af opinberum aðilum og þau taka virkan þátt í umræðunni um velferðarmál þjóðarinnar. Innilega til hamingju með árin 20 með ósk um áframhaldandi árangur fyrir hönd aðildarfélaganna í hverju því verkefni sem við er að glíma. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Gleðilegt sumar

Við óskum ykkur gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn sem er að líða.

Gleðilegt sumar

Viðburðaríkum vetri er lokið. Tvennt stendur upp úr. Heldur leiðinlegt veður og lok Covid 19. Daglegt líf og heimilishald hjúkrunarheimilanna er meira og minna komið í fastar skorður eins og áður var fyrir Covid. Nú bætist inn í tímatalið okkar, fyrir Covid og eftir covid, og við munum eflaust í mörg ár vitna til þessara tveggja ára sem tóku svo hressilega á okkar fallega mannlífi. Kenndi okkur margt, tók margt frá okkur, reynsla sem flestir myndu eðlilega viljað hafa komist hjá en skilur ýmislegt eftir. Að mínu mati fórum við Íslendingar og þau okkar sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi nokkuð vel í gegnum þennan andstyggðar faraldur. Heimsóknarbannið, eins og var rakið í síðasta pistli, var lykillinn að því að ekki fór verr samhliða því að við lærðum allskonar ný samskipti og leiðir til að tækla daglegt líf með öðrum og á stundum betri hætti en áður. Fjarfundaframfarir urðu gífurlegar, eitthvað sem við komum örugglega til með að notfæra okkur áfram um ókomna tíð. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka enn og aftur öllum heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og okkar framúrskarandi starfsmönnum fyrir það hvernig þið tækluðuð þetta ástand sem varið hefur í rúm tvö ár. Þið eruð algjörlega frábær. Hitt sem stendur upp úr nýliðnum vetri er veðrið. Hefur ekki verið jafn vont veður og mikill snjór frá árinu 1990, að því er mér finnst og minnir. Á mínu fyrsta formannsári í björgunarsveitinni í Hveragerði var þetta reynslumikill og á köflum annasamur tími. Lokanir á Hellisheiði og ansi margir dagar og nætur við björgun á fólki úr ófærð og óveðri er eftirminnilegt. Að gefa er betra en að þiggja, og við sem störfum í björgunarsveitum landsins náðum svo sannarlega að gefa af okkur í vetur og fyrir það er ég afar þakklátur. Okkur finnst gaman að vera úti í vondu veðri, keyra stóru jeppana okkar í mikilli ófærð og bjarga fólki. En svona seinni part vetrar var þetta orðið nokkuð gott og spennan við framangreint farin að minnka all verulega. En þetta hafðist allt saman og við í björgunarsveitinni fengum all nokkrar krónur í kassann fyrir allar þessar lokanir. Eitthvað sem við komum til með að nýta á skynsamlegan hátt. Gleðilegt sumar og takk kærlega fyrir eftirminnilegan vetur 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Páskaeggjabingó í Mörk

Það eru að koma páskar og í Mörk fer það ekkert á milli mála.

Heimsóknarbannið á hjúkrunarheimilin borgaði sig

Í lok febrúar 2020 barst Covid 19 veiran til landsins. Afar lítið var vitað um veiruna, áhrif hennar á sjúklinga og lækning var ekki til. Eingöngu var hægt að notast við verkjalyf og súrefnisgjöf til að bregðast við mjög alvarlegum og lífshættulegum veikindum sjúklinga. Rekstraraðilar hjúkrunarheimila hér á landi stóðu frammi fyrir mjög alvarlegum vanda. Fréttir utan úr heimi bentu til þess að dánartíðni sjúkdómsins væri há, allt að 10% þeirra sem veiktust dóu, sums staðar 20%. Í ljósi þessa var gripið til algjörs heimsóknarbanns á hjúkrunarheimili landsins fyrri hluta mars mánaðar í fyrra. Mjög íþyngjandi ráðstöfun Ákvörðun sem þessi var ekki tekin af neinni léttúð. En svo gripið sé til frasa ársins 2020, þá voru þetta fordæmalausar aðstæður. Aðstæður sem ekkert okkar hafði horfst í augu við áður, engir læknar eða vísindamenn vissu almennilega hvað var á ferðinni, annað en að hér var um að ræða mjög hættulega og banvæna veiru sem barst tiltölulega auðveldlega á milli manna. Það að banna heimsóknir á hjúkrunarheimilin þýddi eðli máls samkvæmt afar dapra tíma fyrir heimilismenn hjúkrunarheimilanna og aðstandendur þeirra. Fyrir langflesta heimilismenn var þetta hræðilegur tími, skiljanlega. Einnig kom þetta heimsóknarbann verulega niður á starfsfólki hjúkrunarheimilanna. Fórna minni hagsmunum fyrir meiri? En kalt mat stjórnenda hjúkrunarheimilanna, þar á meðal mitt, var að við værum með heimsóknarbanninu að fórna minni hagsmunum, heimsóknum aðstandenda, fyrir meiri hagsmuni, líf og heilsu heimilismannanna. Það sat í mér frá upphafi smá efi um hvort þetta hefði verið skynsamleg og rétt ákvörðun, enda var mjög hún umdeild. Og verandi heilsuhagfræðingur datt mér í hug að láta rannsaka hvort framangreint hagsmunamat væri rétt. Þetta var í lok apríl 2020. Í vikupistli mínum til heimilismanna, starfsmanna og aðstandenda þann 17. apríl 2020 skrifaði ég meðal annars: „Ég hef þó mikinn áhuga á því að gera heilsuhagfræðilega úttekt á áhrifum heimsóknarbannsins. Það er að reyna að meta ávinning af banninu og bera þann ávinning saman við þann skaða sem bannið kann að hafa valdið framangreindum hópum. Þetta er hægt að meta út frá heilsufari og líðan heimilismanna, aðstandenda þeirra og starfsmanna og sjá hvort við komum út í plús eða mínus.” Og með þetta fór ég til hagfræðideildar Háskóla Íslands. Þáttur HÍ Þar tók við erindi mínu Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor við hagfræðideild HÍ og í samráði við Þórólf Matthíasson, einnig prófessor við hagfræðideild HÍ, voru ráðnir tveir nýútskrifaðir hagfræðingar, þær Bergþóra Þorvaldsdóttir og Guðný Halldórsdóttir í verkið. Þær tvær gerðu yfirgripsmikla rannsókn á Grundarheimilunum þremur, Grund, Ás og Mörk sem fjallar nákvæmlega um það sem ég vildi láta skoða, hvort að heimsóknarbannið hefði verið hagkvæmt. Unnu þær rannsóknina í samráði við prófessorana tvo auk þess sem ég kom lítillega að málum. Vil ég þakka þeim fjórum kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag. Rannsóknin – hvers virði er mannslífið? Án þess að fara út í smáatriði þá byggðist rannsóknin á því að meta til fjár þann skaða sem heimsóknarbannið olli og bera þá fjárhæð saman við það tjón sem hlytist af ótímabærum dauðsföllum heimilismanna hjúkrunarheimila. Nú spyrja eflaust sumir, og réttilega upp að vissu marki, er viðeigandi að meta líf fólks til fjár? Mitt svar er já, engin spurning. Því þó að hvert og eitt mannslíf sé ómetanlegt og ekki myndi ég vilja setja verðmiða á börnin mín til dæmis, þá er engu að síður nauðsynlegt að geta metið líf fólks til fjár. Í þeim góða tilgangi að finna út hvort hinar og þessar ráðstafanir, til dæmis umrætt heimsóknarbann, sé fjárhagslega hagkvæmt og skynsamlegt. Að mínu mati er afar erfitt að byggja mat á skynsemi og hagkvæmni heimsóknarbannsins á tilfinningum eða skoðunum einstaklinga. Þá fengjum við eflaust jafn margar niðurstöður og einstaklingarnir eru margir, og þær yrðu allar, í það minnsta flestar órökstuddar. Eitthvað sem að mér finnst ekki nógu markvisst og gott. Forsendur Í öllum rannsóknum þarf að gefa sér forsendur og velja aðferðir við útreikninga. Í stuttu máli var beitt viðurkenndum hagfræðilegum aðferðum, skilyrt verðmætamat (e. contingent valuation method), tekjuuppbótaraðferð (e. compensating income variation method) og fórnarskiptaaðferð tíma (e. time trade-off method) til að meta kostnað vegna heimsóknarbannsins, kostnað heimilismanna, aðstandenda og starfsmanna. Tímabilið sem um ræðir er frá mars til og með ágúst 2020. Virði lífs var síðan metið miðað við forsendur OECD leiðrétt miðað við QALY (Quality Adjusted Life Years) stuðulinn, en hann metur gæði þess lífs sem lifað er. Niðurstaða Grein sem þessi býður ekki upp á að fara út í útreikningana en í stuttu máli þá er niðurstaðan sú að ef sjö mannslátum eða fleiri á Grundarheimilunum þremur hefði verið forðað, vegna tilkomu heimsóknarbannsins, þá var sú ákvörðun að banna alfarið heimsóknir á heimilin þrjú hagkvæm. Miðað við vænta dánartíðni upp á 10%, athugið þetta var í upphafi faraldurs, þá hefðu um það bil 40 manns látist á heimilunum þremur. Enginn lést úr Covid 19 á Grundarheimilunum á meðan heimsóknarbannið var í gildi árið 2020. Það er því óyggjandi niðurstaða að heimsóknarbannið var hagkvæmt. Þetta eru staðreyndir miðað við ákveðnar forsendur. En auðvitað getur hver og einn haft sína skoðun, og í einhverjum tilfellum allt aðra en niðurstöður gefa til kynna, hvort að heimsóknarbannið hafi verið hagkvæmt. Einnig eru eflaust einhverjir sem koma til með að fordæma útreikninga á virði mannslífa, en það er eitthvað sem ég ræð ekki við, það er bara svoleiðis. Með útreikningunum er ég ekki að fullyrða að mannslíf sé svona og svona margra króna virði, eða ómetanlegt. Í rannsókninni notum við eingöngu opinberar tölur um virði mannslífa til að fá niðurstöðu í málið. Vona að þetta skiljist með þessum hætti. Framtíðin Tilgangur rannsóknarinnar var jú eins og upphaflega var getið að meta hagkvæmni heimsóknarbannsins. En ekki síður að geta hjálpað til við ákvörðunartöku síðar meir, þegar næsti heimsfaraldur skellur á, hvenær svo sem það verður. Þá geta ráðamenn landsins, stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og aðrir þeir sem koma að málum þá, skoðað forsendur rannsóknar, eftir atvikum breyta einhverjum forsendum sem breyta þarf, til dæmis dánartíðni, og meta og rökstyðja þær aðgerðir sem gripið verður væntanlega til á hjúkrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum landsins. Tel líklegt að það verði með þeim hætti hægt að grípa til markvissra aðgerða, byggðar á rannsókn og rökum, ekki bara tilfinningum. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna P.s. Til þeirra sem nenntu að lesa alla leið. Efnið var það umfangsmikið og mikilvægt að mínu mati að það „kostaði“ langan pistil. Yfirleitt eru þeir þriðjungur af þessu.

Páskaeggjabingó á Litlu Grund

Í dag var spilað páskaeggjabingó hjá heimilisfólkinu á Litlu og Minni Grund.

Páskabingó á Grund

Páskarnir eru á næsta leyti og heimilisfólk byrjað að spila páskabingó

Hagstæður samningur hjúkrunarheimila við SÍ

Í byrjun þessarar viku var gengið frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila landsins til næstu þriggja ára. Óvenjulangur gildistími en tiltölulega stuttur uppsagnarfrestur getur þó alltaf komið hvorum samningsaðila fyrir sig út úr samningnum breytist forsendur á þann veg að annar hvor kjósi slíkt. Nokkur mikilvæg atriði náðust í gegn og má þar meðal annars nefna að svo kallað 2% þak á hækkun daggjalda, vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, er tekið út úr samningnum. Sem þýðir að ef hjúkrunarþyngd eykst um 3 % til dæmis, þá hækkar umönnunarþáttur daggjaldsins um 3% í stað 2% áður. Þá er daggjaldagrunnurinn styrktur um þann milljarð sem kom inn sem aukafjárveiting á síðasta ári, sem er mikilvæg viðurkenning á því að grunnurinn var einfaldlega of lágur. Þá er útlagasjóðurinn hækkaður all verulega og undir hann felldar enn fleiri tilvik kostnaðarauka en áður var, sem er hið best mál. Enn frekara fjármagn á að koma inn í þann sjóð á næsta ári. Einnig má nefna að það kemur aukið fjármagn inn til greiðslu smæðarálags, það er auknar greiðslur til smærri hjúkrunarheimila. Fleira gott mætti nefna en læt duga í bili. Það er nú þannig að þegar farið er í samningaviðræður næst aldrei allt það fram sem lagt er upp með. Og það gildir einnig í þessu tilviki. Húsnæðismálin eru enn og aftur sett til úrvinnslu í nefnd sem á að skila lokaáliti seinni hluta næsta árs. Þetta er í raun óþolandi en þegar viðsemjandinn er bara einn þá getur maður því miður ekki annað en kyngt þessu svona. Það er eitthvað bogið við það, að það þurfi að ræða sérstaklega í nefnd hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir notkun á húsnæði hjúkrunarheimila landsins, sem við leggjum ríkinu til við rekstur öldrunarþjónustunnar. Af hverju ræðum við ekki þá sérstaklega hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir þann mat sem við veitum okkar heimilismönnum? Eða lyf? Maður spyr sig. En ég ætla ekki að vera í fýlu út af þessu, heldur safna liði (í nefndina góðu, hvað annað) og vinna því brautargengi að sú sjálfsagða krafa fáist viðurkennd og samþykkt, að greiða sanngjarna húsaleigu fyrir allt það húsnæði sem til dæmis Grundarheimilin leggja til við veitingu öldrunarþjónustu á Hringbrautinni og Hveragerði. Svona eins og að við munum áfram útvega okkar heimilismönnum mat og lyf og fá það greitt af hálfu ríkisins að fullu. Það var Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem leiddi þessa samningalotu fyrir hönd samtakanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sem gerði hann það afskaplega vel og ég þakka honum kærlega og ásamt öðrum nefndarmönnum og starfsmönnum framangreindra aðila. Starfsmönnum Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytis er einnig þakkað þeirra framlag að ógleymdum heilbrigðisráðherranum, Willum Þór Þórssyni sem lagði sitt af mörkum til að þessi hagstæði samningur yrði að veruleika. Það er ánægjulegt að skynja jákvæðan hug ráðherra til málaflokksins. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna