Gleðilegt sumar

Viðburðaríkum vetri er lokið.  Tvennt stendur upp úr.  Heldur leiðinlegt veður og lok Covid 19.  Daglegt líf og heimilishald hjúkrunarheimilanna er meira og minna komið í fastar skorður eins og áður var fyrir Covid.  Nú bætist inn í tímatalið okkar, fyrir Covid og eftir covid, og við munum eflaust í mörg ár vitna til þessara tveggja ára sem tóku svo hressilega á okkar fallega mannlífi.  Kenndi okkur margt, tók margt frá okkur, reynsla sem flestir myndu eðlilega viljað hafa komist hjá en skilur ýmislegt eftir.

Að mínu mati fórum við Íslendingar og þau okkar sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi nokkuð vel í gegnum þennan andstyggðar faraldur.  Heimsóknarbannið, eins og var rakið í síðasta pistli, var lykillinn að því að ekki fór verr samhliða því að við lærðum allskonar ný samskipti og leiðir til að tækla daglegt líf með öðrum og á stundum betri hætti en áður.  Fjarfundaframfarir urðu gífurlegar, eitthvað sem við komum örugglega til með að notfæra okkur áfram um ókomna tíð.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka enn og aftur öllum heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og okkar framúrskarandi starfsmönnum fyrir það hvernig þið tækluðuð þetta ástand sem varið hefur í rúm tvö ár.  Þið eruð algjörlega frábær.

Hitt sem stendur upp úr nýliðnum vetri er veðrið.  Hefur ekki verið jafn vont veður og mikill snjór frá árinu 1990, að því er mér finnst og minnir.  Á mínu fyrsta formannsári í björgunarsveitinni í Hveragerði var þetta reynslumikill og á köflum annasamur tími.  Lokanir á Hellisheiði og ansi margir dagar og nætur við björgun á fólki úr ófærð og óveðri er eftirminnilegt.  Að gefa er betra en að þiggja, og við sem störfum í björgunarsveitum landsins náðum svo sannarlega að gefa af okkur í vetur og fyrir það er ég afar þakklátur.  Okkur finnst gaman að vera úti í vondu veðri, keyra stóru jeppana okkar í mikilli ófærð og bjarga fólki.  En svona seinni part vetrar var þetta orðið nokkuð gott og spennan við framangreint farin að minnka all verulega.  En þetta hafðist allt saman og við í björgunarsveitinni fengum all nokkrar krónur í kassann fyrir allar þessar lokanir.  Eitthvað sem við komum til með að nýta á skynsamlegan hátt.

Gleðilegt sumar og takk kærlega fyrir eftirminnilegan vetur 😊

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna