Hagstæður samningur hjúkrunarheimila við SÍ

Í byrjun þessarar viku var gengið frá samningi við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila landsins til næstu þriggja ára.  Óvenjulangur gildistími en tiltölulega stuttur uppsagnarfrestur getur þó alltaf komið hvorum samningsaðila fyrir sig út úr samningnum breytist forsendur á þann veg að annar hvor kjósi slíkt.

Nokkur mikilvæg atriði náðust í gegn og má þar meðal annars nefna að svo kallað 2% þak á hækkun daggjalda, vegna aukinnar hjúkrunarþyngdar, er tekið út úr samningnum.  Sem þýðir að ef hjúkrunarþyngd eykst um 3 % til dæmis, þá hækkar umönnunarþáttur daggjaldsins um 3% í stað 2% áður.  Þá er daggjaldagrunnurinn styrktur um þann milljarð sem kom inn sem aukafjárveiting á síðasta ári, sem er mikilvæg viðurkenning á því að grunnurinn var einfaldlega of lágur.  Þá er útlagasjóðurinn hækkaður all verulega og undir hann felldar enn fleiri tilvik kostnaðarauka en áður var, sem er hið best mál.  Enn frekara fjármagn á að koma inn í þann sjóð á næsta ári.  Einnig má nefna að það kemur aukið fjármagn inn til greiðslu smæðarálags, það er auknar greiðslur til smærri hjúkrunarheimila.  Fleira gott mætti nefna en læt duga í bili.

Það er nú þannig að þegar farið er í samningaviðræður næst aldrei allt það fram sem lagt er upp með.  Og það gildir einnig í þessu tilviki.  Húsnæðismálin eru enn og aftur sett til úrvinnslu í nefnd sem á að skila lokaáliti seinni hluta næsta árs.  Þetta er í raun óþolandi en þegar viðsemjandinn er bara einn þá getur maður því miður ekki annað en kyngt þessu svona.  Það er eitthvað bogið við það, að það þurfi að ræða sérstaklega í nefnd hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir notkun á húsnæði hjúkrunarheimila landsins, sem við leggjum ríkinu til við rekstur öldrunarþjónustunnar.  Af hverju ræðum við ekki þá sérstaklega hvort og þá hversu mikið eigi að greiða fyrir þann mat sem við veitum okkar heimilismönnum?  Eða lyf?  Maður spyr sig.  En ég ætla ekki að vera í fýlu út af þessu, heldur safna liði (í nefndina góðu, hvað annað) og vinna því brautargengi að sú sjálfsagða krafa fáist viðurkennd og samþykkt, að greiða sanngjarna húsaleigu fyrir allt það húsnæði sem til dæmis Grundarheimilin leggja til við veitingu öldrunarþjónustu á Hringbrautinni og Hveragerði.  Svona eins og að við munum áfram útvega okkar heimilismönnum mat og lyf og fá það greitt af hálfu ríkisins að fullu.

Það var Sigurjón Norberg Kjærnested framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem leiddi þessa samningalotu fyrir hönd samtakanna og Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Sem gerði hann það afskaplega vel og ég þakka honum kærlega og ásamt öðrum nefndarmönnum og starfsmönnum framangreindra aðila.  Starfsmönnum Sjúkratrygginga Íslands og heilbrigðisráðuneytis er einnig þakkað þeirra framlag að ógleymdum heilbrigðisráðherranum, Willum Þór Þórssyni sem lagði sitt af mörkum til að þessi hagstæði samningur yrði að veruleika.  Það er ánægjulegt að skynja jákvæðan hug ráðherra til málaflokksins.

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna