Heimsóknarbannið á hjúkrunarheimilin borgaði sig

Í lok febrúar 2020 barst Covid 19 veiran til landsins.  Afar lítið var vitað um veiruna, áhrif hennar á sjúklinga og lækning var ekki til.  Eingöngu var hægt að notast við verkjalyf og súrefnisgjöf til að bregðast við mjög alvarlegum og lífshættulegum veikindum sjúklinga.  Rekstraraðilar hjúkrunarheimila hér á landi stóðu frammi fyrir mjög alvarlegum vanda.  Fréttir utan úr heimi bentu til þess að dánartíðni sjúkdómsins væri há, allt að 10% þeirra sem veiktust dóu, sums staðar 20%.  Í ljósi þessa var gripið til algjörs heimsóknarbanns á hjúkrunarheimili landsins fyrri hluta mars mánaðar í fyrra. 

Mjög íþyngjandi ráðstöfun

Ákvörðun sem þessi var ekki tekin af neinni léttúð.  En svo gripið sé til frasa ársins 2020, þá voru þetta fordæmalausar aðstæður.  Aðstæður sem ekkert okkar hafði horfst í augu við áður, engir læknar eða vísindamenn vissu almennilega hvað var á ferðinni, annað en að hér var um að ræða mjög hættulega og banvæna veiru sem barst tiltölulega auðveldlega á milli manna.  Það að banna heimsóknir á hjúkrunarheimilin þýddi eðli máls samkvæmt afar dapra tíma fyrir heimilismenn hjúkrunarheimilanna og aðstandendur þeirra.  Fyrir langflesta heimilismenn var þetta hræðilegur tími, skiljanlega.  Einnig kom þetta heimsóknarbann verulega niður á starfsfólki hjúkrunarheimilanna.

Fórna minni hagsmunum fyrir meiri?

En kalt mat stjórnenda hjúkrunarheimilanna, þar á meðal mitt, var að við værum með heimsóknarbanninu að fórna minni hagsmunum, heimsóknum aðstandenda, fyrir meiri hagsmuni, líf og heilsu heimilismannanna.  Það sat í mér frá upphafi smá efi um hvort þetta hefði verið skynsamleg og rétt ákvörðun, enda var mjög hún umdeild.  Og verandi heilsuhagfræðingur datt mér í hug að láta rannsaka hvort framangreint hagsmunamat væri rétt.  Þetta var í lok apríl 2020.  Í vikupistli mínum til heimilismanna, starfsmanna og aðstandenda þann 17. apríl 2020 skrifaði ég meðal annars:  Ég hef þó mikinn áhuga á því að gera heilsuhagfræðilega úttekt á áhrifum heimsóknarbannsins.  Það er að reyna að meta ávinning af banninu og bera þann ávinning saman við þann skaða sem bannið kann að hafa valdið framangreindum hópum.  Þetta er hægt að meta út frá heilsufari og líðan heimilismanna, aðstandenda þeirra og starfsmanna og sjá hvort við komum út í plús eða mínus.”  Og með þetta fór ég til hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Þáttur HÍ

Þar tók við erindi mínu Tinna Laufey Ásgeirsdóttir prófessor við hagfræðideild HÍ og í samráði við Þórólf Matthíasson, einnig prófessor við hagfræðideild HÍ, voru ráðnir tveir nýútskrifaðir hagfræðingar, þær Bergþóra Þorvaldsdóttir og Guðný Halldórsdóttir í verkið.  Þær tvær gerðu yfirgripsmikla rannsókn á Grundarheimilunum þremur, Grund, Ás og Mörk sem fjallar nákvæmlega um það sem ég vildi láta skoða, hvort að heimsóknarbannið hefði verið hagkvæmt.  Unnu þær rannsóknina í samráði við prófessorana tvo auk þess sem ég kom lítillega að málum.  Vil ég þakka þeim fjórum kærlega fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Rannsóknin – hvers virði er mannslífið?

Án þess að fara út í smáatriði þá byggðist rannsóknin á því að meta til fjár þann skaða sem heimsóknarbannið olli og bera þá fjárhæð saman við það tjón sem hlytist af ótímabærum dauðsföllum heimilismanna hjúkrunarheimila.  Nú spyrja eflaust sumir, og réttilega upp að vissu marki, er viðeigandi að meta líf fólks til fjár?  Mitt svar er já, engin spurning.  Því þó að hvert og eitt mannslíf sé ómetanlegt og ekki myndi ég vilja setja verðmiða á börnin mín til dæmis, þá er engu að síður nauðsynlegt að geta metið líf fólks til fjár.  Í þeim góða tilgangi að finna út hvort hinar og þessar ráðstafanir, til dæmis umrætt heimsóknarbann, sé fjárhagslega hagkvæmt og skynsamlegt.  Að mínu mati er afar erfitt að byggja mat á skynsemi og hagkvæmni heimsóknarbannsins á tilfinningum eða skoðunum einstaklinga.  Þá fengjum við eflaust jafn margar niðurstöður og einstaklingarnir eru margir, og þær yrðu allar, í það minnsta flestar órökstuddar.  Eitthvað sem að mér finnst ekki nógu markvisst og gott.

Forsendur

Í öllum rannsóknum þarf að gefa sér forsendur og velja aðferðir við útreikninga.  Í stuttu máli var beitt viðurkenndum hagfræðilegum aðferðum, skilyrt verðmætamat (e. contingent valuation method), tekjuuppbótaraðferð (e. compensating income variation method) og fórnarskiptaaðferð tíma (e. time trade-off method)  til að meta kostnað vegna heimsóknarbannsins, kostnað heimilismanna, aðstandenda og starfsmanna.  Tímabilið sem um ræðir er frá mars til og með ágúst 2020.  Virði lífs var síðan metið miðað við forsendur OECD leiðrétt miðað við QALY (Quality Adjusted Life Years) stuðulinn, en hann metur gæði þess lífs sem lifað er. 

Niðurstaða

Grein sem þessi býður ekki upp á að fara út í útreikningana en í stuttu máli þá er niðurstaðan sú að ef sjö mannslátum eða fleiri á Grundarheimilunum þremur hefði verið forðað, vegna tilkomu heimsóknarbannsins, þá var sú ákvörðun að banna alfarið heimsóknir á heimilin þrjú hagkvæm.  Miðað við vænta dánartíðni upp á 10%, athugið þetta var í upphafi faraldurs, þá hefðu um það bil 40 manns látist á heimilunum þremur.  Enginn lést úr Covid 19 á Grundarheimilunum á meðan heimsóknarbannið var í gildi árið 2020.  Það er því óyggjandi niðurstaða að heimsóknarbannið var hagkvæmt.  Þetta eru staðreyndir miðað við ákveðnar forsendur.  En auðvitað getur hver og einn haft sína skoðun, og í einhverjum tilfellum allt aðra en niðurstöður gefa til kynna, hvort að heimsóknarbannið hafi verið hagkvæmt.  Einnig eru eflaust einhverjir sem koma til með að fordæma útreikninga á virði mannslífa, en það er eitthvað sem ég ræð ekki við, það er bara svoleiðis.  Með útreikningunum er ég ekki að fullyrða að mannslíf sé svona og svona margra króna virði, eða ómetanlegt.  Í rannsókninni notum við eingöngu opinberar tölur um virði mannslífa til að fá niðurstöðu í málið.  Vona að þetta skiljist með þessum hætti.

Framtíðin

Tilgangur rannsóknarinnar var jú eins og upphaflega var getið að meta hagkvæmni heimsóknarbannsins.  En ekki síður að geta hjálpað til við ákvörðunartöku síðar meir, þegar næsti heimsfaraldur skellur á, hvenær svo sem það verður.  Þá geta ráðamenn landsins, stjórnendur í heilbrigðiskerfinu og aðrir þeir sem koma að málum þá, skoðað forsendur rannsóknar, eftir atvikum breyta einhverjum forsendum sem breyta þarf, til dæmis dánartíðni, og meta og rökstyðja þær aðgerðir sem gripið verður væntanlega til á hjúkrunarheimilum og öðrum heilbrigðisstofnunum landsins.  Tel líklegt að það verði með þeim hætti hægt að grípa til markvissra aðgerða, byggðar á rannsókn og rökum, ekki bara tilfinningum.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

 

P.s. Til þeirra sem nenntu að lesa alla leið.  Efnið var það umfangsmikið og mikilvægt að mínu mati að það „kostaði“ langan pistil.  Yfirleitt eru þeir þriðjungur af þessu.