Til eftirbreytni

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir auglýstu nýlega fyrir hönd ríkissjóðs eftir 4 til 8 þúsund fermetra húsnæði. Sem ráðgert er að nota fyrir 60 – 120 hjúkrunarsjúklinga á höfuðborgarsvæðinu í sólarhringsþjónustu. Sem sagt dæmigert hjúkrunarheimili. Og augljóst er að nú skal greiða leigu fyrir húsnæðið þar sem talað er um undirritun leigusamnings. Samnings sem verður til allt að 20 ára með möguleika á 10 ára framlengingu. Athygli mína vakti afar stuttur frestur til að skila inn tilboði, oft á hinn veginn hjá hinu opinbera, en þörfin er brýn og því nauðsynlegt að bregðast skjótt við.

Með þessari auglýsingu hefur orðið feikn mikil og jákvæð breyting á afstöðu ríkissjóðs/ríkisvaldsins til þess að greiða leigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir hjúkrunarþjónustu og umönnun þeirra sem eldri eru og þurfa á slíku skjóli að halda.

Fyrir rétt rúmlega tveimur árum töpuðu Grundar- og Hrafnistuheimilin í Hæstarétti máli sínu á hendur sama framangreinda ríkisvaldi, þess efnis að fá greidda sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem félögin útvega til reksturs hjúkrunarrýma. Þessi auglýsing er því algjör himnasending og staðfestir hér með ríkan vilja ríkisvaldsins til að greiða, og þá væntanlega öllum, ekki bara sumum, sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem nýtt er undir öldrunarþjónustu hér á landi.

Það eru greinilega bjartari tímar framundan enda batnandi mönnum best að lifa.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna