Nágrannar okkar í vesturbænum taka eftir því að það er mikið um að vera í miðjum suðurgarði Grundar. Heimilismenn og aðstandendur hafa heldur ekki komist hjá því að sjá og heyra í framkvæmdunum sem nú eiga sér þar stað.
Í garðinum á nú að rísa 100 fermetra kaffihús með skemmtilegu útisvæði, leiktækjum, göngustígum og fallegum gróðri.
Hlynur Rúnarsson sviðsstjóri fasteigna Grundarheimilanna segir að uppgreftri sé nú að verða lokið og verið að klára lagnaskurð fyrir þær lagnir
sem koma til og frá húsinu. Næst á að slá upp sökklum fyrir stoðveggi í kringum svæðið sem skilur að leiksvæði, rampa og gangstétt.
Í næstu viku er áformað að moka ofan í sökklana og vinna í grunnlögnum. Kjartan Örn Júlíusson og Sigurlaug Bragadóttir hafa verið með myndavél á lofti í vinnunni og myndað framkvæmdirnar.