Grund

Kosið á Grund í dag

Minnum á að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til alþingis fer fram á Grund í dag, mánudaginn 18. nóvember frá klukkan 15:00 til 18:00. Aðstandendur eru beðnir um að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa.

Öll Grundarheimilin eru nú Eden heimili

Í gær var Eden hringnum okkar lokað á Grund en þá fékk heimilið formlega viðurkenningu sem Eden heimili. Þar með eru öll Grundarheimilin þrjú orðin Eden heimili. 👏👏 Á sama tíma var endurnýjuð vottunin fyrir Mörk og Ás. Af þessu tilefni var boðið upp á marsípantertu með kaffinu á öllum heimilunum. Það var Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem tók formlega við viðurkenningunni fyrir Grund frá Rannveigu Guðnadóttur forsvarsmanni Eden á Íslandi, https://edenalticeland.org/

Setningarhátíð Iceland airwaves að venju á Grund

Það er komin hefð fyrir því að hafa setningarathöfn tónlistarhátíðarinnar Iceland airwaves á Grund. Í gær var komið að þeim árlega viðburði. Eftir að Lilja Alfreðsdóttir ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra hafði lýst því yfir að hátíðin væri hafin stigu á stokk Elín Hall söng- og leikkona og hljómsveitin Hjálmar. Það er alveg sérstakt andrúmsloft þegar þessi viðburður er á heimilinu. Heimilisfólk lætur sig ekki vanta en svo koma líka leikskólabörn sem og gestir sem hafa keypt sig inn á hátíðina. Allir sitja saman í sátt og samlyndi og hlýða á listamennina sem fram koma.

Leðurblökur og grasker á Grund

Starfsfólk og heimilisfólk hefur undanfarna daga sameinast í því að skera út grasker og skemmta sér við að skoða útkomuna í húsinu. Á sumum stöðum er metnaðurinn meiri en annarsstaðar og bæði köngulóarvefir komnir upp, leðurblökur og allskyns skraut sem minnir á hrekkjavökuna, sem er í dag. 🍑 Það er eitthvað um að bæði starfsfólk og heimilisfólk fussi og sveii yfir þessum nýja sið á meðan aðrir hafa mjög gaman af umstanginu og skrautinu. Það er bara svona eins og er í lífinu sjálfu og þannig á það að vera þegar fólk býr á heimili eins og Grund. Það skapast líflegar umræður og sitt sýnist hverjum. Skoðið endilega þessi skrautlegu grasker ef þið eigið leið um Grund næstu daga.

Grundheimilin fengu þrjá kúlustóla að gjöf

Thorvaldsensfélagið gaf Grundarheimilunum nýlega frábæra gjöf, þrjá svokallaða kúlustóla sem koma með skammelum og fer einn stóll á hvert heimili, á Grund, í Mörk og í Ás. Vængir leggjast yfir herð og bringu og lítil grjón eru í hálsstuðningi. Stólarnir umvefja og bæta líkamsvitund, auka vellíðan og öryggiskennd. Þyngdin, þrýstingur og hreyfing frá kúlum örvar vöðvaskyn. Grundarheimilin þakka af alhug þessa rausnarlegu gjöf og þann hlýhug sem Thorvaldsensfélagið hefur sýnt Grundarheimilunum um árin. Á myndinni er Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, að taka við stólunum frá fulltrúum Thorvaldsensfélagsins, Kristínu Fjólmundsdóttur og Dóru Garðarsdóttur. Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Grund, situr í stólnum góða og sýnir hvernig hann virkar..... og gerir tilraun til að slaka á

Kaffi Grund formlega vígt

Í vikunni var kaffihúsið Kaffi Grund formlega vígt Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundarheimilanna, segir að aðstaða til að hittast og spjalla á Grund hafi verið ágæt en verði með þessari viðbót framúrskarandi góð. Það að eiga samskipti við annað fólk er einn mikilvægasti þáttur í góðri heilsu hvers og eins. „Okkur á Grund finnst hafa tekist feikn vel til með þessa aðstöðu, bæði inni og úti og kemur hún til með að gagnast heimilisfólki, aðstandendum þeirra, starfsmönnum og öðrum gestum um ókomna tíð. Þó að við séum að vígja þessa fallegu aðstöðu í dag er þannig málum háttað að við getum ekki hafið rekstur kaffihússins strax. Að fá rekstrarleyfi fyrir svona tiltölulega hógværri starfsemi er meira en að segja það. Við höfum um all langt skeið unnið að því að afla viðeigandi leyfa en þau eru því miður ekki komin í hús. Til að byrja með verður því aðstaðan einungis opin heimilisfólki og aðstandendum þeirra og boðið verður upp á kaffi og kleinur. ☕Vonandi styttist í að við getum opnað kaffihúsið og selt veitingar og þá eru nágrannar okkar í Vesturbænum líka hjartanlega velkomnir.“ Fljótlega í undirbúningsferlinu var ákveðið að fá listaverk í garðinn sem gestir kaffihússins gætu notið. Helgi Gíslason myndhöggvari tók verkið að sér og tengist listaverkið vatni og stendur við kaffihúsið í lítilli tjörn. Minningarsjóður Grundar greiddi fyrir verkið og vill þannig minnast allra þeirra heimilismanna sem dvalið hafa á Grund í 102 ár. Hönnun var í höndum ASK arkitekta og hönnun garðsins og umhverfis í höndum Landslags. Kjartan Örn Júlíusson tók myndir við þetta tækifæri.

Afmælis- og foreldrakaffi á Grund

Grund fagnaði 102 ára afmæli þann 29. október og af því tilefni var haldið afmælis- og foreldrakaffi í hátíðasal heimilisins tvo daga í röð, í gær og í fyrradag. Reyndar er talað um afmælis- og foreldrakaffi. Ástæðan er sú að þegar Grund var í byggingu kom Sveinn Jónsson í Völundi á fund stjórnarinnar og gaf peninga í byggingarsjóð en bað um að ávallt yrði haldið upp á brúðkaupsdag foreldra hans. Það hefur verið gert æ síðan og er nú gert í tengslum við afmælið

Góður gestur í heimsókn

Stundum koma ferfætlingar í heimsókn á Grund og hún Fanney iðjuþjálfi tók tíkina sína Mýru með í vinnuna nýlega. Heimilisfólkið var yfir sig hrifið og móttökurnar eftir því. Það klappaði henni og knúsaði og svo fékk hún meira að segja volgan prjónapúða á mallakútinn sinn. 🐕 Næst þegar hún kemur í heimsókn og nálgast Grundina hér á Hringbraut hlýtur hún að dilla skottinu fáránlega hratt af gleð og tilhlökkun.

Hattadagur á Grund

Í síðustu viku var kominn galsi í fólk hér í húsinu og ákveðið að vera með hattadag á föstudag. Starfsfólk mætti með hattana sína til vinnu og heimilisfólk skartaði höfuðfötum sem það annaðhvort fékk lánað úr safni iðjuþjálfunar heimilisins eða bara átti sjálft. Það fylgdi deginum mikil kátína enda sumir hattarnir frekar skondnir og skemmtilegir. Það má líka geta þess að á Grund er núna búsett hattagerðarkonan Ásthildur Vilhjálmsdóttir sem vann lengi við hattagerð á Laugavegi. Henni fannst ekki leiðinlegt að skoða öll þessi höfuðföt sem fólk skartaði.

Deildi með heimilisfólki sögum af veru sinni á Grænlandi

Björg Sigurðardóttir ljósmóðir gladdi heimilisfólk með nærveru sinni í morgunstund í gær. Hún sagði frá störfum sínum og veru í Grænlandi. Það er stórkostlegt að upplifa hvað tónlistarfólk, rithöfundar, dansarar, fólk með áhugaverða sögu, fyrirlesarar og fræðimenn eru til í að koma í sjálfboðavinnu og deila með heimilisfólkinu okkar því sem það hefur fram að færa. Kærar þakkir öll sem gefið af tíma ykkar og veitið þannig tilbreytingu í líf fólksins okkar