Elliðaárósar

3.2 km. 43 mín. miðað við 4.5 km/klst meðalgönguhraða.

Farið er suður fyrir hjúkrunarheimilið og yfir Miklubrautina á göngubrúnni. Nú er beygt á göngustíginn til vinstri þegar komið er yfir og honum fylgt alla leið að undirgöngum undir Reykjanesbrautina sem eru við Atlantsolíu hjá Sprengisandi.

Farið er gegnum undirgöngin, sem eru til vinstri, undir Reykjanesbrautina og þegar komið er í gegn er beygt á göngustíginn til vinstri eins og sést á myndinni . Það er reyndar hægt að fara líka beint áfram og yfir brúna sem sést á myndinni og beygja þar til vinstri. Til hægri er foss sem getur verið gaman að ganga til á sumrin og skoða þar s.k. „skessukatla“ sem eru í hrauninu.

Við fylgjum þessum göngustíg þar til við komum að brú yfir Elliðaárnar sem er ofan á hitaveitustokkunum og förum yfir hana allt til enda. Þar beygjum við aftur til vinstri og stefnum nú undir umferðarbrýrnar yfir Elliðaár.

Þegar við komum undir umferðarbrýrnar komum við að gömlu Elliðaárbrúnum. Þar beygjum við aftur til vinstri og förum yfir þær, en þegar við komum yfir beygjum við strax inn á göngustíg sem liggur til hægri og stefnir á Súðarvoginn. „ Það eru ekki margir sem vita að þegar Bretar hernámu Ísland 1940 þá gerðu þeir ráð fyrir að Þjóðverjar gætu gert innrás í Ísland og settu sprengjuhleðslur undi gömlu Elliðaárbrýrnar til að geta sprengt þær í loft upp og tafið framrás Þjóðverja með því. Sagan segir að þessar hleðslur hafi uppgötvast löngu eftir að herinn var farinn úr Reykjavík.

Við fylgjum göngustígnum nú allt að Súðarvogi með Endurvinnsluna á vinstri hönd og Geirsnefið á hægri hönd. Þegar komið er að Súðarvog er beygt til vinstri upp gangstíginn að gatnamótunum við Sætún og farið yfir á umferðarljósunum þar, yfir að göngustíg sem er vestan megin við Sætúnið. Honum er nú fylgt meðfram girðingunni um Steinahlíð í átt að Mörkinni. Við innkeyrsluna í Steinahlíð er hægt að velja um að fylgja göngustíg sem liggur til vinstri og endar við brúarsporðinn við Mörkina, eða halda beint áfram upp að Langholtsveg og þar yfir að Mörk.