Íbúðir 60+

Heilsuvika í Mörk 60+

Síðasta vika var Heilsuvika í Mörk. Í tilefni af því var boðið upp á heilsusamlegar súpur í Kaffi Mörk, heilsukökur og chia graut, og Boggubúð var með heilsutilboð af ýmsum vörum. Á mánudeginum fengum við í 60+ til okkar sálfræðinginn Harald S. Þorsteinsson frá Heilsubrú og var hann með fyrirlestur um mikilvægi svefns, á fimmtudeginum var boðið upp á heita bakstra, vax og handanudd í iðju og í Heilsulind var boðið upp á samflot.

Fatamarkaður í Mörk

Síðastliðinn fimmtudag vorum við með fatamarkað í anddyri hjúkrunarheimilisins. Þar var fatnaður og annar varningur úr verslunum Grundarheimilanna til sölu á góðu verði. Margir gerðu sér ferð til að skoða, versla og spjalla og úr varð skemmtilegur dagur.

Gleðileg jól

Jólaball Markar

Jólaball Markar var haldið í gær fyrir heimilisfólk, íbúa 60+, starfsfólk, börn, barnabörn og barnabarnabörn. Skjóða kom og sagði jólasögu ásamt jólasveinum og það var svo dansað og sungið í kringum jólatréð. Allir krakkar fengu í lokin jólanammi frá jólasveinunum. Takk allir fyrir komuna og skemmtilega jólastund.

Jólagleði 60+

Í síðustu viku breyttum við til og höfðum jólastund með jólaglöggi í staðinn fyrir hið hefðbundna vöfflukaffi. Söng- og leikkonan Sigríður Eyrún ásamt píanóleikaranum Vigni Þór komu og fluttu falleg sönglög og nokkur jólalög. Það var vel mætt og þökkum við fyrir samveruna. Dásamlegt að byrja desember svona.

Tónleikar á vegum Óperudaga

Síðasta föstudag fengum við að njóta yndislegra tónleika á vegum Óperudaga í Reykjavík. Þær Bryndís Guðjónsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari komu til okkar fluttu lög og ljóð eftir íslenskar konur. Dásamlegir tónleikar og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.

Karlakvöld 60+

Í síðustu viku héldum við í fyrsta skipti karlakvöld fyrir karla í 60+. Gísli Páll stjórnarformaður og Karl Óttar forstjóri héldu utan um kvöldið og voru með spurningakeppni. Boðið var upp á bjór og pretzel og einhverjir mættu í októberfest dressi. Mikil gleði og gaman. Viljum við þakka þeim sem mættu kærlega fyrir komuna. Á myndunum má sjá sigurlið spurningakeppninnar og spyrilinn.

60+ Púttmótaröð sumarsins lokið

Í síðustu viku lauk púttmótaröð sumarsins hjá pútthóp 60+. Mótið var í umsjón Júlíusar G. Rafnssonar fyrrum forseta Golfsambands Íslands. Spilaðir voru 2x18 holu hringir og þurfti að vera með í minnst þrjú skipti til að vera með í úrslitum. Verðlaun voru veitt fyrir vinningshafa í kvenna- og karlaflokki. Verðlaunin gáfu íbúarnir og hjónin Edda Svavarsdóttir og Birgir Björgvinsson, þökkum við þeim kærlega fyrir. Allir þátttakendur fengu golfkúlu með logo-i Grundarheimilanna fyrir þátttöku. Sigurvegari í kvennaflokki var Bára Sólveig Ragnarsdóttir, í öðru sæti var Hjördís Magnúsdóttir og í þriðja sæti var Edda Svavarsdóttir. Sigurvegari í karlaflokki var Guðmundur Davíðsson, í öðru sæti var Sturlaugur Grétar Filippusson og í þriðja var Sveinn Viðar Jónsson.

Ljósmyndasýning í tengigangi

Í tengibyggingu milli hjúkrunarheimilis og vesturhúsa hanga gjarnan ljósmyndir eða málverk eftir íbúa. Núna á tengiganginum er ljósmyndasýning eftir Hafliða Hjartarson sem heitir Skammdegi.

Konukvöld

Í síðustu viku héldum við í fyrsta skipti konukvöld. Boðið var upp á konfekt og skálað í gleðidrykk. Þær Lilja, Súsanna, Edda, Bára og Sjöfn íbúar í 60+ ásamt Ástu á hárgreiðslustofunni voru með tískusýningu fyrir gesti með fötum úr verslunum Grundarheimilanna. Karl Óttar forstjóri kom og skenkti í glös hjá dömunum og Fanney iðjuþjálfi var kynnir kvöldsins. Mikil gleði og stuð og þökkum við fyrir skemmtilega kvöldstund.