29.10.2024
Síðasta föstudag fengum við að njóta yndislegra tónleika á vegum Óperudaga í Reykjavík. Þær Bryndís Guðjónsdóttir sópran og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari komu til okkar fluttu lög og ljóð eftir íslenskar konur. Dásamlegir tónleikar og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.
25.10.2024
Í síðustu viku héldum við í fyrsta skipti karlakvöld fyrir karla í 60+. Gísli Páll stjórnarformaður og Karl Óttar forstjóri héldu utan um kvöldið og voru með spurningakeppni. Boðið var upp á bjór og pretzel og einhverjir mættu í októberfest dressi. Mikil gleði og gaman. Viljum við þakka þeim sem mættu kærlega fyrir komuna.
Á myndunum má sjá sigurlið spurningakeppninnar og spyrilinn.
18.10.2024
Í síðustu viku lauk púttmótaröð sumarsins hjá pútthóp 60+. Mótið var í umsjón Júlíusar G. Rafnssonar fyrrum forseta Golfsambands Íslands. Spilaðir voru 2x18 holu hringir og þurfti að vera með í minnst þrjú skipti til að vera með í úrslitum. Verðlaun voru veitt fyrir vinningshafa í kvenna- og karlaflokki. Verðlaunin gáfu íbúarnir og hjónin Edda Svavarsdóttir og Birgir Björgvinsson, þökkum við þeim kærlega fyrir. Allir þátttakendur fengu golfkúlu með logo-i Grundarheimilanna fyrir þátttöku.
Sigurvegari í kvennaflokki var Bára Sólveig Ragnarsdóttir, í öðru sæti var Hjördís Magnúsdóttir og í þriðja sæti var Edda Svavarsdóttir.
Sigurvegari í karlaflokki var Guðmundur Davíðsson, í öðru sæti var Sturlaugur Grétar Filippusson og í þriðja var Sveinn Viðar Jónsson.
14.10.2024
Í tengibyggingu milli hjúkrunarheimilis og vesturhúsa hanga gjarnan ljósmyndir eða málverk eftir íbúa. Núna á tengiganginum er ljósmyndasýning eftir Hafliða Hjartarson sem heitir Skammdegi.
25.09.2024
Í síðustu viku héldum við í fyrsta skipti konukvöld. Boðið var upp á konfekt og skálað í gleðidrykk. Þær Lilja, Súsanna, Edda, Bára og Sjöfn íbúar í 60+ ásamt Ástu á hárgreiðslustofunni voru með tískusýningu fyrir gesti með fötum úr verslunum Grundarheimilanna. Karl Óttar forstjóri kom og skenkti í glös hjá dömunum og Fanney iðjuþjálfi var kynnir kvöldsins.
Mikil gleði og stuð og þökkum við fyrir skemmtilega kvöldstund.
23.09.2024
Síðastliðinn fimmtudag var réttardagur Markar. Íbúar 60+ fengu dýrindis kjötsúpu og bessastaðatertu í eftirrétt í hádeginu. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir og eiginmaðurinn hennar Björn Skúlason komu í heimsókn og nutu dagskránnar sem var í boði með íbúum. Gísli Páll stjórnarformaður Grundarheimilanna sagði frá smölun norðan og austan heiða, Halla Tómasdóttir ávarpaði gesti og í lokin var tekinn fjöldasöngur undir leiðsögn Rebekku Magnúsdóttur.
Við erum þakklát Höllu og Birni fyrir yndislega heimsókn. Takk allir sem komu og nutu réttardagarins með okkur.
17.09.2024
Bókavinir í Mörk koma saman vikulega frá því snemma að hausti til vors. Nú er hafið fjórtánda starfsár hópsins og er lesefnið fyrra hluta vetrar Brekkukotsannáll eftir Halldór Laxness. Hlustað er á lestur höfundar sjálfs og í kjölfarið umræður um efnið, Ólafur Pálmason íbúi leiðir hópinn. Bókavinir í Mörk eru alla miðvikudaga kl.13 í Mýrinni og eru allir íbúar 60+ velkomnir.
29.08.2024
Þá er vöfflukaffið byrjað aftur eftir sumarfrí. Á mánudögum kl. 14:30 er vöfflukaffi í Kaffi Mörk fyrir íbúa í íbúðum 60+, en þá stendur íbúum til boða að kaupa vöfflu og kaffi. Notaleg samvera og er öllum íbúum 60+ velkomið að koma.
15.08.2024
Það var mikil gleði og mikið stuð síðasta þriðjudag en þá héldum við upp á Fiskidaginn litla. Er þetta í sjöunda sinn sem við í Mörk 60+ höldum upp á daginn og þökkum við forsvarsfólki Fiskidagsins mikla á Dalvík fyrir stuðninginn og áhugann. Boðið var upp á fiskrétt, fiskisúpu, fiskiklatta og meðlæti. Gísli Páll stjórnarformaður Grundarheimilanna setti hátíðina og Friðrik Ómar söngvari tók nokkur vel valin lög. Viljum við þakka öllum kærlega fyrir komuna.
16.06.2024
Bara svo þið séuð með það alveg á hreinu þá eru það þessi fjögur fræknu sem pakka inn grænmetinu okkar í Ási og passa að það komist í eldhús Grundarheimilanna og í sölu í verslanirnar okkar þrjár. Frá vinstri Alyssa Rós, Rakel Rós, Siggi sæti og Viktor Berg.