Grund fagnaði aldar afmæli þann 29. október árið 2022. Grund er sjálfseignarstofnun og elsta starfandi heimili fyrir aldraða hér á landi. Það þekkja ekki allir sögu Grundar, og til að gera sér betur grein fyrir stöðu heimilisins, þá verður stiklað hér á stóru í sögu þess.
Á þeim tíma sem Grund var stofnuð voru aðstæður í þjóðfélaginu að mörgu leyti öðruvísi en við þekkjum í dag. Reykvíkingar voru um 11 þúsund og fátækt var mikil í bænum. Aðalhvatamenn að stofnun Grundar voru menn í stjórn líknarfélagsins Samverjans. Það voru Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason guðfræðingur, Flosi Sigurðsson trésmíðameistari, Páll Jónsson skrifstofumaður, Haraldur Sigurðsson verslunarmaður og Júlíus Árnason kaupmaður. Sumrin 1921 og 1922 héldu þeir Samverjamenn nokkrar skemmtanir í þeim tilgangi að safna fé til stofnunar elliheimilis. Gáfu gestir þessara skemmtana og aðrir aðilar svo rausnarlega, að alls söfnuðust 541 kr., enda voru skemmtanirnar mjög vel sóttar. Það var síðan í kjölfar þessa, að Sigurbjörn Á. Gíslason skrifaði grein í dagblaðið Vísi og kom fram að ánægjulegt væri, ef hægt yrði að flýta fyrir stofnun elliheimilis með þessari upphæð.
"Ef stjórn Samverjans lofar að stofna elliheimili í haust skal ég gefa 1500 kr. í stofnsjóðinn og safna fé hér í bænum." Þannig mælti gamall maður við Sigurbjörn Á. Gíslason þann 22. júlí árið 1922. Maðurinn var Jón Jónsson beykir í Reykjavík, og var hann að svara grein, sem Sigurbjörn hafði skrifað daginn áður í Vísi um nauðsyn þess að stofna elliheimili í Reykjavík. Þetta samtal Jóns varð því einn helsti hvati þess, að nokkrir bæjarbúar létu til skrar skríða og stofnuðu það ár Grund.
Í framhaldi af samtali því, sem Sigurbjörn fékk eftir að greinin birtist, og getið er um hér að framan, var hafin fjársöfnun meðal bæjarbúa og söfnuðust alls 7.286 kr. á einum mánuði. Í byrjun september 1922 keypti stjórn Samverjans steinhúsið Grund, sem stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg, eins og við þekkjum í dag. Húsið var vígt 29. október sama ár. Í upphafi voru heimilismenn 21. Það sýndi sig fljótt, að þörf var á fleiri rýmum þar sem aðsóknin óx stöðugt. Þetta leiddi til þess, að sumarið 1927 úthlutaði bæjarstjórn Reykjavíkur heimilinu lóð milli Hringbrautar og Brávallagötu og vinna við nýtt hús hófst strax. Það var vígt 28. september 1930 og nefnt Grund, eins og gamla húsið við Kaplaskjólsveg. Fjöldi heimilismanna á þeim tíma var 56. Árið 1934 voru þeir orðnir 115, en á þessum tíma bjó einnig starfsfólk á heimilinu, og hluti hússins var í útleigu.
Heilsugæsludeild var snemma opnuð á heimilinu og hjúkrunardeildir voru teknar í notkun samkvæmt nýjum heilbrigðislögum árið 1938. Þá mun Gund fyrst stofnana hafa boðið upp á sjúkraþjálfun og sundlaug var opnuð á heimilinu á sjötta áratugnum.
Fyrsti framkvæmdastjóri Grundar var Haraldur Sigurðsson. Eftir andlát hans árið 1934 var Gísli Sigurbjörnsson ráðinn forstjóri heimilisins og er óhætt að segja, að undir hans stjórn hafi heimilið tekið stórstígum breytingum. Auk þess átti hann stóran þátt í mótun öldrunarmála á Íslandi. Gísli Sigurbjörnsson var forstjóri Grundar þar til hann lést, þann 7. janúar 1994. Eftirmaður Gísla var Guðrún Birna Gísladóttir, en hún tók við af föður sínum, sem forstjóri Grundar, eftir hans dag og starfaði sem forstjóri til 1. júlí árið 2019. Þá tók við starfinu fjórði ættliðurinn, Gísli Páll Pálsson, sem var forstjóri Grundarheimilanna og veitti einnig forstöðu öðrum fyrirtækjum sem tengjast Grund eins og fasteignafélögunum ÍEB og GM sem og þvottahúsi heimilanna í Ási. Hann lét af störfum sem forstjóri vorið 2023 og við starfi hans tók Karl Óttar Einarsson. Gísli Páll tók á sama tíma við sem stjórnarformaður Grundarheimilanna.
Árið 1952 tók Grund að sér rekstur Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði fyrir elliheimilisnefnd Árnessýslu og voru húsin þar 2 og heimilismenn 13 fyrsta árið. Í dag er Ás í eigu Grundar og árið 1998 var tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili í Ási og eru heimilismenn í Ási nú um 100 talsins. Bæjarás er lítið heimili sem rekið er af Ási í Hveragerði. Það búa nú nokkrir heimilismenn og þangað koma íbúar úr Hveragerði í dagþjálfun.
Þá tók Grund að sér rekstur hjúkrunarheimilisins Markar á haustdögum árið 2010. Þar búa 113 heimilismenn á 11 heimiliseiningum. Heimilið í Mörk er einnig rekíð í anda Eden hugmyndafræðinnar.
Grund á og rekur 154 þjónustuíbúðir við Suðurlandsbraut 58 - 62 og 68 - 70 í fasteignafélögunum GM og ÍEB. Íbúðirnar eru hinar glæsilegustu og eru frá 79 fermetrum að stærð og upp í 140 fermetrar.
Í dag eru heimilismenn Grundar um 170 og hefur þeim fækkað á undanförnum árum. Markmið heimilisins er, til lengri tíma litið, að allir þeir, sem þess óska, geti búið í einbýlum og mun þá heimilisfólki fækka enn frekar. Húsakosti á Grund er skipt í fernt. Fyrst ber að telja aðalbygginguna sem snýr út að Hringbrautinni, og er Grund í hugum flestra. Í aðalbyggingunni eru 5 hjúkrunardeildir. Þar fer stærstur hluti starfseminnar fram. Fyrir norðan Grund eru Minni Grund, Litla Grund og einnig eru nokkrar hjónaíbúðir á Brávallagötu 42, en þar dvelja þeir, sem eru betur á sig komnir, en njóta sólarhringsvaktþjónustu. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á heimilinu. Viðbygging við austurálmu Grundar var tekin í notkun 29. október 2002 á 80 ára afmæli heimilisins og bætti hún til muna aðstöðu bæði heimilisfólks og starfsfólks. Ári síðar var viðbygging við vesturálmu tekin í notkun,eins og sú sem byggð var við austurálmuna. Fyrsta skóflustunga að byggingu glergangs sem tengir Litlu og Minni Grund var tekin 1. júlí árið 2004. Glergangurinn hefur breytt afskaplega miklu fyrir heimlisfólkið sem þarf nú aldrei að fara út til að ganga á milli húsanna. Þá er stöðugt verið að lagfæra og halda við húsnæði Grundar og nýjasta framkvæmdin er bygging kaffihúss í suðurgarði Grundar sem áformað er að opna í ársbyrjun 2024.
Um 300 manns eru starfandi á Grund, margir í hlutastörfum en á Grundarheimilunum þremur starfa nú nálægt 700 manns.