Ás

Gleðileg jól

Öðruvísi jólatré í sjúkraþjálfun Áss

Fallega tréð sem prýðir sjúkraþjálfunina í Ási hefur tekið á sig jólalegan blæ

Samkeppni um flottasta piparkökuhúsið

Undanfarin ár hefur verið efnt til skemmtilegrar samkeppni á Grundarheimilunum um flottasta piparkökuhúsið. Ekki endilega bara það hús sem er fallegast heldur tekið mið af allskonar þáttum eins og samvinnu heimilisfólks og starfsfólks, móttökum þegar dómnefnd mætti, veitingum og frumleika. Það ríkti eftirvænting þegar dómnefndin fór um Grundarheimilin og á öllum heimilum var henni tekið fagnandi. Peningaverðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin á öllum heimilunum þremur. Sjá fleiri myndir af húsunum á facebook síðum heimilanna.

Kosið á Ási í dag

Minnum á að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna kosninga til alþingis fer fram hér á hjúkrunarheimilinu á Ási í dag, miðvikudaginn 20. nóvember frá klukkan 13:00 til 15:00. Atkvæðagreiðslan er einungis ætluð heimilismönnum. Aðstandendur eru beðnir um að fylgja þeim heimilismönnum sem fylgd þurfa.

Öll Grundarheimilin eru nú Eden heimili

Í gær var Eden hringnum okkar lokað á Grund en þá fékk heimilið formlega viðurkenningu sem Eden heimili. Þar með eru öll Grundarheimilin þrjú orðin Eden heimili. 👏👏 Á sama tíma var endurnýjuð vottunin fyrir Mörk og Ás. Af þessu tilefni var boðið upp á marsípantertu með kaffinu á öllum heimilunum. Það var Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem tók formlega við viðurkenningunni fyrir Grund frá Rannveigu Guðnadóttur forsvarsmanni Eden á Íslandi, https://edenalticeland.org/

Færðu okkur falleg skilaboð

Við fengum svo frábæra heimsókn til okkar í morgun. Þrjár flottar stelpur úr Grunnskólanum í Hveragerði komu til okkar með svo falleg skilaboð í tilefni af Baráttudegi gegn einelti sem er í dag 8.nóvember. Við settum myndina þeirra uppá tréð okkar því skilaboðin passa svo vel með öllum þeim jákvæðu orðum sem við erum að safna saman þar. „Hlustaðu á aðra á sama hátt og þú vilt að aðrir hlusti á þig“

Grundheimilin fengu þrjá kúlustóla að gjöf

Thorvaldsensfélagið gaf Grundarheimilunum nýlega frábæra gjöf, þrjá svokallaða kúlustóla sem koma með skammelum og fer einn stóll á hvert heimili, á Grund, í Mörk og í Ás. Vængir leggjast yfir herð og bringu og lítil grjón eru í hálsstuðningi. Stólarnir umvefja og bæta líkamsvitund, auka vellíðan og öryggiskennd. Þyngdin, þrýstingur og hreyfing frá kúlum örvar vöðvaskyn. Grundarheimilin þakka af alhug þessa rausnarlegu gjöf og þann hlýhug sem Thorvaldsensfélagið hefur sýnt Grundarheimilunum um árin. Á myndinni er Karl Óttar Einarsson, forstjóri Grundarheimilanna, að taka við stólunum frá fulltrúum Thorvaldsensfélagsins, Kristínu Fjólmundsdóttur og Dóru Garðarsdóttur. Sigrún Faulk, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Grund, situr í stólnum góða og sýnir hvernig hann virkar..... og gerir tilraun til að slaka á

Pongó er í hálfu starfi í Ási

Border Collie/labrador blendingurinn Pongó er í hálfu starfi í sjúkraþjálfuninni í Ási. Hann mætir galvaskur snemma á morgnana og fer svo heim í hádeginu til að safna kröftum og hvíla lúin bein. Eigandi hans Christina Finke er sjúkraþjálfari í Ási og segir að allir elski Pongó og hann laði að sér fólk bæði unga sem aldna.

Dásamlegt tré í sjúkraþjálfuninni í Ási

Þær leyna á sér Christina Finke og Ása Sóley Svavarsdóttir sem vinna í sjúkraþjálfuninni í Ási. Þar er stór veggur sem var svo tómlegur fannst Christinu og hún sá fyrir sér að skreyta hann með einhverju hlýlegu og fallegu. Hún rakst á þetta dásamlega tré á netinu og hún og Ása notuðu skjávarpa til að koma því á vegginn. Þær teiknuðu útlínurnar á vegginn. Síðan kom Christina eitt kvöldið í vinnuna og málaði. Í gær var opið hús hjá sjúkraþjálfuninni og þá var heimilisfólkið hvatt til að skreyta tréð með fallegum orðum. Frábær hugmynd og enn betra að koma henni í framkvæmd. Ekkert smá flott.

Blómstrandi dagar

Það lögðu allir sitt af mörkum dagana fyrir Blómstrandi daga hér í Ási og föndruðu og skreyttu. Útkoman var skemmtileg og litrík. Kærar þakkir til allra sem lögðu leið sína í Ás á Blómstrandi dögum.