Gaf Grund aldagamla bók

Ásgeir Jóhannesson forystumaður í Sunnuhlíð  færði Grund á dögunum bók að gjöf en hann er einn af upphafs- og ábyrgðarmönnum þess að Sunnuhlíð var reist og tekin í notkun árið 1982. Gísli Sigurbjörnsson, þáverandi forstjóri Grundar og sonur sr. Sigurbjörns Á Gíslasonar eins stofnenda Grundar,  studdi uppbyggingu Sunnuhlíðar með góðum ráðum og verulegum fjárframlögum. 

Bókin heitir „Góðar stundir, kvöldlestrar frá nýári til aprílloka.“ en  Sigurbjörn Á. Gíslason,  safnaði efni í bókina og bjó til prentunar.  Bókin er gefin út í Reykjavík af Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar árið 1913.  Segir meðal annars í formála sem Sigubjörn skrifar:  „Allmörg undanfarin ár hafa ýmsir kristindómsvinir vor á meðal talað um að nauðsyn bæri til að eignast nýa kvöldlestrarbók á íslensku, þar eð eldri hugvekjusöfn væru ýmist uppseld eða þá svo kunn orðin þeim, sem lesa kvöldlestra að staðaldri, að þeir kynnu þau nærri því utanbókar.  Hefir ýmislegt verið ráðgjört til að bæta úr því, en ekkert framkvæmt enn sem komið er.  Þess vegna hefi jeg ráðist í að bjóða löndum mínum þessa bók.“

Grund þakkar Ásgeiri þann hlýhug sem hann sýnir heimilinu með bókagjöfinni. Á myndinni er Ásgeir að afhenda Gísla Páli barnabarnabarni Sigurbjörns bókina góðu.