Gleðilegt sumar

Lengsti og erfiðasti vetur á minni starfsævi er lokið.  Vetur kvíða, vetur álags, vetur áhyggna, vetur andvöku en einnig vetur sigurs.  Sigurs öldrunarþjónustunnar yfir Covid 19 veirunni.  Allt það frábæra starfsfólk öldrunarþjónustu landsins, Grundarheimilanna þar á meðal, lagði á sig feikn mikið og fórnaði sínu hversdagslega lífi til að geta sinnt þeim sem hjá okkur búa.  Voru meira og minna í sjálfskipaðri sóttkví síðastliðið ár.  Og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.  Einnig er ég þakklátur því mikla æðruleysi sem heimilisfólkið sýndi í vetur.  Auðvitað áttu margir þeirra erfitt og ekki síður aðstandendur þeirra.  En með þrautseigju, góðu skipulagi og öllu þessu frábæra starfsfólki tókst okkur að komast í gegnum þessar hörmungar og getum borið höfuðið hátt.  Þá sýndu aðstandendur þessum erfiðu aðstæðum skilning og nú er gaman að sjá hversu margir heimsækja sína nánustu.  Takmarkanir á heimsóknum á Grundarheimilin eru í lágmarki og hverfa alveg á næstunni.

Framundan er sumar og sól.  Hlýja, notalegheit, heimsóknir, lífsgleði, ferðir út í bæ, ferðir á kaffihús, sólbekkjaseta í görðunum okkar og svo mætti lengi telja.  Ekki förum við til útlanda á næstunni, í það minnsta ekki fyrri part sumars.  Njótum íslenska sumarsins saman og gerum eitthvað skemmtilegt.  Bæði í vinnunni og í sumarfríinu langþráða.  Að vakna snemma á morgnana, eins og í morgun, og sjá daginn verða til, fuglana vakna og vita og hlakka til þess að þessi dagur verði fallegur og góður.  Þvílík tilfinning.

Njótum lífsins saman í sumar 

 

Kveðja og gleðilegt sumar,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna