Eitt af því sem að við þurfum stöðugt að vera með í huga á heimilunum okkar er sóun. Manneskjan virðist eiga það sameiginlegt nánast hvar sem er í heiminum að ganga illa um og ekki vera sérlega nýtin. Öll þessi sóun kostar fjármuni sem að gaman væri að nýta í að gera eitthvað skemmtilegt. Við þekkjum öll þetta orð, sóun, en hugsum kannski minna um hvað það nákvæmlega er.
Að hafa skrúfað frá öllum ofnum og opna glugga er sóun. Að hafa kveikt ljós í björtu er sóun.
Við getum líka sóað tíma. Tíma einhvers getur verið betur varið í önnur verk og verkefni en hann er akkúrat að sinna. Við getum líka sóað tíma með því að vera föst í ákveðnu verklagi sem að væri hægt að eindfalda. Þetta eru dæmi um sóun sem að við sjáum ekki endilega lenda í ruslinu. Úrgangur og sorp er svo önnur tegund sóunar.
Magn sorps frá heimilunum okkar er um 3 kíló fyrir hvern heimilismann á dag, alla daga ársins. Það eru tæplega 400 þúsund kíló á ári sem að samsvarar um það bil 350 stykkjum af Toyota Aygo bílum, næstum því einn á dag.
Því miður þá er það þannig að sorpið sem að kemur úr okkar starfsemi er að miklu leyti óhjákvæmlilegt vegna eðlis starfseminnar. Við þurfum þó að skoða ýmislegt sem að endar í ruslinu.
Við hendum t.d. of miklum mat á Grundarheimilunum sem er eitthvað sem að við þurfum að skoða og ég kalla eftir aðstoð samstarfsfólksins míns við að finna hvar við getum gert betur þar.
Sérfræðingarnir í dags daglegum störfum innan heimilanna sjá þetta lang best. Sýnum samfélagslega ábyrgð og tökum þátt, ég held að það gæti bara verið skemmtilegt líka ef að við fáum einhverjar góðar hugmyndir.
Kveðja og góða helgi
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna