Nýlega var gengið frá kjarasamningum allra starfsmanna Grundarheimilanna en Grundarheimilin eru aðilar að SFV (Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu) sem sér um að semja fyrir okkar hönd. Samningarnir eru í einhverjum tilfellum komnir til framkvæmda en aðrir eru í atkvæðagreiðslu. Verði þeir samþykkir verður greitt eftir þeim næstu mánaðarmót, afturvirkt frá 1. apríl.
Það er ákaflega ánægjulegt að þetta sé klárt og gott að þessari óvissu sé
eytt og mikilvægum kjarabótum komið til minna samstarfsmanna. Samningarnir eru stuttir og því stutt í að taka þurfi upp þráðinn og semja að nýju.
Eitt af þvi sem við fáum mestar ábendingar um í starfsánægjukönnunum sem að við framkvæmum með reglulegu millibili er að laun séu of lág miðað við verkefni og ábyrgð. Í mörgum tilfellum er hægt að taka undir það að laun þyrftu að vera hærri til að standast samanburð við önnur störf í þjóðfélaginu og umönnunarstörf hafa lengi verið vanmetin.
Á vettvangi stjórnvalda og heildarsamtaka launþega er verkefni sem að snýr að jöfnun launa milli markaða, einmitt með það í huga að lyfta launum í umönnunarstörfum (heilbrigðisþjónusta og kennsla). Vona ég að hjúkrunarheimilin verði höfð í huga í þeirri vinnu og allar okkar stéttir.
Sautjándi júní er um helgina og óska ég öllum heimilismönnum, starfsmönnum og aðstandendum (heimilis- og starfsmanna) til hamingju með daginn. Á Grundarheimilunum reynum við að gera deginum hátt undir höfði með tilbreytingu í mat og dúkuðum borðum. Við berum virðingu fyrir því að sú kynslóð sem við erum að þjónusta núna stendur nær tímamótunum árið 1944 en við sem störfum á heimilunum. Þessi dagur skiptir heimilisfólk máli. Við megum ekki gleyma því hvaðan við komum og berum virðingu fyrir hefðunum og höldum daginn hátíðlegan.
Kveðja og góða helgi,
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna
p.s. hef fengið einhverjar ábendingar um að póstarnir séu of langir, hef því einn stuttan í dag og mun reyna að stytta þá sem að á eftir koma. Þó að ég lofi ekki að þeir verði eins stuttir og þessi.