Eitt af því sem er jákvætt í vinnustaðamenningu Grundarheimilanna er að við virðum störf hvors annars og áttum okkur á að vinnan okkar er mikilvæg og við hjálpumst að þegar á þarf að halda.
Auðvitað kemur fyrir að einhver gleymir sér og finnst sitt starf mikilvægara en annarra en það er mikilvægt að hafa í huga að við finnum fyrir því öll þegar vantar einhverja hlekki í keðjuna. Við höfum okkar styrkleika og veljumst til starfa sem henta okkar styrkleikum.
Í
svona umfangsmikilli starfsemi er fjöldinn allur af fjölbreyttum störfum, alveg eins og á öllum heimilum. Það er eldhús, það er þvottahús, það þarf að þrífa, það þarf að skipta um perur, það þarf að sinna heilsurækt og heilsueflingu, hafa eitthvað fyrir stafni, það þarf að sinna fjölbreyttum líkamlegum þörfum og svo framvegis.
Við erum góð í því sem að við gerum og ekkert gengi upp ef það væri ekki farið út með ruslið eða skipt um ljósaperur. Hvert verkefni hjá okkur getur, ef því er ekki sinnt, komið í veg fyrir að við hin getum sinnt okkar hlutverkum.
Við reynum líka að horfa út fyrir hlutverk okkar og aðstoðum samstarfsfólkið í öðrum verkefnum ef á þarf að halda.
Það er mikilvægt að við höldum í þennan góða anda, berum virðingu hvert fyrir öðru og störfum hvers annars og léttum undir með vinnufélögunum þegar þarf þannig að allir hlutir gangi sem best.
Þannig búum við til jákvætt starfsumhverfi og getum hlakkað til að mæta í vinnuna á hverjum degi.
Kveðja og góða helgi
Karl Óttar Einarsson
Forstjóri Grundarheimilanna