Í vetur sóttu Grundarheimilin um styrki frá framkvæmdasjóði aldraðra en það er sjóður sem er fjármagnaður af skattgreiðendum sérstaklega (kemur fram á skattframtali eins og útvarpsgjaldið). Sjóðurinn hefur það hlutverk að byggja upp öldrunarþjónustu á Íslandi. Sótt var um styrk fyrir 16 verkefnum sem hljóðuðu upp á 200 milljóna framlag frá sjóðnum. Samþykkt voru 14 verkefni að fullu, að upphæð 195 milljónir, einni umsókn var hafnað og ein var
samþykkt að hluta.
Heilbrigðisráðherra veitir styrki að fenginni tillögu frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra. Við (á Grundarheimilunum )erum gífurlega þakklát fyrir stuðninginn sem að við fáum með þessum hætti til að byggja upp húsnæði okkar og innviði þess til að bæta búsetu og starfsskilyrði þeirra sem að hjá okkur eru búa eða starfa (hverju sinni.)
Ég þakka heilbrigðisráðherra og stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra kærlega fyrir þetta framlag. Ljóst er að mikið þarf að vinna í húsnæði Grundar og Áss sérstaklega á næstu árum. Í Mörk er staðan betri húsnæðislega séð, enda eru þar allt einbýli með sér baðherbergi.
Samþykkt var núna að breyta deild A3 á Grund að mestu leyti á sama hátt og gert hefur verið á hæðinni fyrir neðan. Einnig var samþykkt klæðning á hjúkrunarheimilinu í Hveragerði, endurnýjun á brunakerfum, tæki til sjúkraþjálfunar á öllum heimilum og ýmislegt fleira stórt og smátt. Viðhaldi á þessum gömlu húsum okkar hefur alla tíð verið almennt vel sinnt og þvi búum við ágætlega að því þegar að kemur að endurnýjun.
Haldið er áfram að vinna í þessum breytingum en til þess að geta gert þetta hraðar þá þurfum við klárlega að fá greidda húsaleigu fyrir það húnsæði sem að við notum í þjónustu við okkar heimilisfólk.
Gísli Páll Pálsson, stjórnarformaður Grundar, hefur ritað marga pistla um það mál og ætla ég ekki að fara út í smáatriði hér en ítreka mikilvægið. Grundarheimilin saman standa af félögum sem að eru óhagnaðardrifin og allt fé heimilanna fer í starfsemi þeirra. Það er því ljóst að húsaleiga til okkar heimila færi ekki í neitt annað en í uppbyggingu og endurbætur hjá okkur. Sem er eitthvað sem allir sjá að er löngu tímabær og þörf ráðstöfun.
Ég treysti því og trúi að stjórnvöld séu að vinna að því hörðum höndum að leysa þessi mál þannig að við getum haldið áfram uppbyggingunni og nauðsynlegum endurbótum og skipuleggja það til framtíðar, vitandi af tryggum greiðslum.
Karl Óttar Einarsson
forstjóri Grundarheimilanna
p.s. mun halda pólitík í lágmarki í mínum skrifum, en komst ekki hjá því í þetta skiptið að koma aðeins inn á hana.