Á Grundarheimilunum þremur vinna margir erlendir starfsmenn. Og standa sig mjög vel. Án þeirra værum við í miklum vandræðum með að sinna þeim fjögur hundruð heimilismönnum sem hjá okkur búa. Langflestir tala íslensku, eðlilega mis góða. Allt eftir því hversu lengi hver og einn hefur búið á Íslandi en einnig eftir því hversu mikill áhugi er hjá viðkomandi að tala tungumálið.
Ég hef alltaf hvatt alla þá erlendu starfsmenn sem ég hitti og vinna hjá okkur að læra og nota íslenskuna eins fljótt og vel og kostur er. Til að geta átt samskipti og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi er að mínu mati lífsnauðsynlegt að geta talað þokkalega íslensku. Ég er ekki að tala um óaðfinnanlega íslensku með öllum beygingum réttum, nei, bara þannig að hægt sé að eiga samskipti um daglega hluti við heimilisfólkið og annað starfsfólk.
Við á Grundarheimilunum höfum í gegnum árin haldið íslenskunámskeið og þá oft í samvinnu við stéttarfélögin. Stéttarfélögin styðja einnig sína félagsmenn til að sækja íslenskunámskeið og greiða allt að 90% af námskeiðsgjaldinu. Við í framkvæmdastjórninni erum að skoða hvaða leiðir eru færar til að efla enn frekar íslenskunám fyrir okkar erlendu starfsmenn.
Við sem vinnum með erlendum starfsmönnum dettum eflaust oft í þann þægindagír að tala bara ensku við viðkomandi starfsmann, ef íslenskan er erfið. Það er eitthvað sem mér finnst að við eigum að forðast eins mikið og hægt er. Ef við tölum ekki íslensku, eða í það minnsta bjóðum upp á slíkt, við erlenda samstarfsmenn, þá æfast þeir ekki í íslenskunni. Og það er eitthvað sem er svo mikilvægt fyrir okkur öll, að allir þeir sem vinna á Grundarheimilunum geti og vilji tala íslensku, allra vegna.
Gerum okkur öllum stóran greiða, tölum meiri íslensku 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna