Fréttir

Vortónleikar Grundar og Markar kóranna

Kórar Grundar og Markar komu saman og héldu vortónleika í hátíðasal Grundar nýverið. Það er frábært að sjá hvað heimilisfólkið nýtur þess að syngja saman í kór og lagavalið endurspeglaði sumarið sem framundan er. Starfsfólk og velunnarar skipa einnig kóra heimilanna og aðstandendur eru hjartanlega velkomnir. Eftir tónleikana var kórunum boðið í kaffisamsæti. Kristín Waage er kórstjóri Grundar og Markar kóranna.

Aðstandendur

Mikilvægi aðstandenda fyrir heimilismenn er ótvírætt. Það tekur tíma að fóta sig í nýju hlutverki eftir komuna á hjúkrunarheimilið. Hlutverk þeirra breytist oft talsvert og umönnunarbyrði er að stórum hluta létt af aðstandendum sem oft á tíðum hefur verið mjög þung í langan tíma. Þó starfsfólkið sinni nú athöfnum daglegs lífs að miklu leyti þá er samt mikilvægt fyrir aðstandendur að halda áfram að sinna félagslegum þörfum heimilismanns að einhvejru leyti, en hafa meira val um að sinna skemmtilegri hlutum en beinni umönnun. Oft eru aðstandendur óöuggir um hvað má og hvað má ekki á hjúkrunarheimilinu. Það er gott að hafa hugfast að við sem að vinnum á heimilunum erum að vinna á heimilum fólksins, en það býr ekki á okkar vinnustað. Leitast er við að hafa andrúmsloftið heimilislegt. Ein algeng spurning við komuna á hjúkrunarheimili er hvenær er heimsóknartími? Svar við þvi er einfaldlega þegar og eins lengi eða stutt og heimilismaðurinn sjálfur kýs að hafa heimsókn. Setjist niður með heimilismanni og allt í lagi að það sé á matmálstímum. Það veitir tilbreytingu, spjallið yfir matnum, aðstoðið ef þarf og þið viljið. Það er upplagt að fara í gönguferðir, innandyra og utan, kíkja í bíltúr, á kaffihús, í heimsóknir út í bæ og hvað sem ykkur dettur í hug. (muna bara að láta starfsfólk vita af því). Hugmyndirnar eru margskonar, hægt er að lesa upp, spila tónlist eða á hljóðfæri, spila, spjalla, skoða myndir, baka vöffur, dansa og svo framvegis. Það er tilvalið að að koma einn daginn með ísveislu til að njóta saman, eða uppáhalds mat fólksins ykkar og hægt að biðja starfsfólk um skálar og diska eftir þörfum og svo hjálpast að við frágang, heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk. Um að gera að bjóða öðrum heimilismönnum líka, það er bara kærkomin tilbreyting fyrir alla. Það er gefandi fyrir heimilisfólk að fá að bjóða öðrum með sér. Við sem að vinnum á hjúkrunarheimilunum reynum eftir fremsta megni að koma með tilbreytingu í daglegt líf heimilisfólksins og margir starfsmenn hafa frumkvæði að allskonar skemmtilegum „uppákomum“. Sjúkra- og iðjuþjálfun býður líka upp á allskyns þjónustu og virkni, sem sumir vilja taka þátt í en aðrir alls ekki. Okkar hlutverk er að hvetja til slíkrar þáttöku en við neyðum aldrei neinn sem að gefur skýrt til kynna að hann vilji ekki. Heimilin standa ykkur opin. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarssoon forstjóri Grundarheimilanna Ps: Svæði sem að gaman er að ganga um og heimsækja á okkar heimilum: Grund: á 3. hæð í miðjunni er falleg stofa og þar er gaman að setjast niður og spjalla. Þar er einnig barnahorn og oft mikið næði. Í starfsmannaborðsal á 1. hæð er velkomið að setjast. Þar er kaffivél sem að stendur öllum til boða að nýta. Hægt er að ganga innandyra yfir tengiganginn á 2. hæð, eða ganga utandyra í porti milli húsa. Ég veit að Grund virkar flókin fyrir þá sem að ganga ekki mikið um þar og erfitt að rata. Endilega spyrjið til vegar, að villast smá getur líka bara verið smá spennandi og hluti af ævintýraferð innanhúss Ás: Á hjúkrunarheimilinu í kjallaranum er setustofa við hliðina á lyftunni. Einnig er bjart og notalegt að setjast í sófa sem að eru inni í kapellunni, en hún á að standa opin. Kapellann er innst á ganginum í kjallaranum. Í Ási er setustofa og salur í Ásbúð og á Ásbyrgissvæðinu setustofa og salur í Ásbyrgi. Það er gott og gaman að skipta um umhverfi og fyrir þá sem að eru í útideildum að kíkja í kjallarann á hjúkruanrheimilinu eða á milli staða. Mörk: Aðstaðan á herbergjum heimilisfólks er auðvitað ein sú besa sem að við höfum og þörf á að útbúa rými til heimsókna annarsstaðar því minni en á hinum heimilunum. Það er þó mikilvægt fyrir heimilismenn að breyta til og fara út af herberginu. Í Mörk erum við kapellu með sófa innaf stóra matsalnum á 1.hæð. Við höfum svo auðvitað frábært kaffihús sem að er um að gera að kíkja á.

Púttvöllurinn opinn

Þar kom að því. Það er búið að opna púttvöllinn okkar hér í Mörk. Í tilefni af því hittist pútthópurinn áðan og tók saman fyrsta pútt ársins. Allir íbúar eru velkomnir alla daga en venjan er að hittast á þriðjudögum kl.14:30 við garðskálann og taka saman pútt, að því loknu fer hópurinn í Kaffi Mörk og fær sér veitingar.

Sumarblómin komin

Sumarblómin komu til okkar í Mörkina í dag beint frá gróðurhúsunum okkar í Ási. Stúlkurnar úr ræstingunni tóku það að sér að planta þeim í beðin okkar. Alltaf jafn gaman að sjá beðin svona blómleg. Nú má sumarið koma.

Sumarbyrjun ??

Nú styttist í sumarið, þó að veðurfarslega sé ekki að sjá það. Við vonum það besta og reiknum með að við fáum betra sumar eftir rysjótt vorið. Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá okkur á Grundarheimilunum t.d. hefur púttvöllurinn sem að við erum með í Mörkinni látið verulega á sjá. Við eigum von á því að geta opnað hann fljótlega, þó að hann verði ekki orðinn iðagrænn. Við leitum ráðlegginga til færustu golfvallarsérfræðinga í þeim efnum og fylgjum þeirra ráðum. Víða hafa nýþvegnir gluggar i Mörk og Ási líka fengið að kenna á rokinu og erfitt að sjá út. Það sem að fylgir vorinu og upphafi sumars hjá okkur er svo fjöldinn allur af sumarstarfsfólki sem að kemur til starfa til að hleypa okkur sem að venjulega stöndum vaktina í kærkomið frí. Hópurinn er að venju stór og fjölbreyttur og hef ég notað tækifærið til þess að hitta nýliðana okkar sem að þegar eru komnir til starfa í nýliðafræðslu sem að er byrjuð hjá okkur á öllum heimilum. Næsti hópur byrjar svo í byrjun júní í fræðslunni, en fræðslan er keyrð í tveimur hópum þar sem að starfsmenn byrja á misjöfnum tímum. Við þetta tilefni hef ég notað tækifærið og kynnt þeim eitt það allra mikilvægasta sem að við verðum að hafa í huga við þjónustu þeirra sem að þurfa á okkar þjónustu að halda. Að mínu mati er það eitt af gildum Grundarheimilanna, virðing. Öll viljum við njóta virðingar og mikilvægt að við gætum þess í störfum okkur að gleyma því ekki í samskiptum við aðra. Við berum virðingu fyrir samstarfsfólki, heimilisfólki, aðstandendum o.fl. og ætlumst til að fá virðingu til baka. Við þurfum ekki að vera sammála til að sýna skoðunum og lífsýn annarra virðingu. Alltaf er gott að hafa hugfast hvað maður sjálfur myndi vilja þegar að einhver gengur mjög nálægt manni í að sinna persónulegum þörfum. Við þurfum líka að muna það að spyrja heimilisfólk hvað það vill og sýna skoðunum þeirra og vali viðringu með því að nálgast þau eins og við sjálf myndum vilja. Viljum við ekki vera spurð um hvað við viljum borða í morgunmat? Viljum við láta tala um okkur eða við okkur? Margt smátt sem að við getum gert sem að skiptir gríðarlegu máli. Ég býð alla okkar frábæru nýliða velkomna til starfa og hvet þá sem að fyrir eru til að taka vel á móti þeim og aðstoða við fyrstu skrefin í nýju starfi. Það ferli er lærdóms ríkt fyrir okkur öll. Þessi vikupóstur er minn fyrsti sem nýr forstjóri Grundarheimilanna. Ég nota tækifærið til að þakka stjórn Grundarheimilanna traustið sem að mér er sýnt með því að fela mér þetta starf. Ég hef notið fyrstu dagana í starfinu og hlakka til áframhaldandi samstarfs hér eftr eins og síðustu 12 ár þar á undan í öðru hlutverki. Ég auglýsi sömuleiðis eftir góðum hugmyndum að umfjöllunar efni, af nógu er að taka og flott að fá fleiri hugmyndir frá ykkur. Kveðja og góða helgi Karl Óttar Einarsson forstjóri Grundarheimilanna

Velkomin á markað í dag

Við minnum á vormarkaðinn okkar sem verður opinn í dag, mánudaginn 22. maí. frá klukkan 11:00 til 15:00. Markaðurinn var opnaður fyrir helgi, síðasta föstudag og meðfylgjandi myndir voru teknar þá. Allur varningur er ókeypis en gott er að hafa með sér poka. Verið hjartanlega velkomin.

Óskilamunir á Grund

Vormarkaður á Grund

Eurovision stemning

Það var Eurovision stemning í Ási fyrir helgina og vakti kátínu þegar boðið var upp á tónlistar bingó með Eurovison lögum. Heimilisfólk söng og dansaði með. Bingóvinningarnir voru í anda dagsins, sætindi og gos.

Leikskólabörn á Grund

Um tólf leikskólabörn af elstu deild á Sælukoti ætla að kíkja reglulega í heimsókn á Grund, spila, föndra, syngja og spjalla við heimilisfólkið. Þau komu í fyrsta sinn í síðustu viku og það er óhætt að segja að það hafi tekist með eindæmum vel. Það var ýmislegt brallað í hátíðasalnum þennan morgun, farið í boccia, vatnslitað, spjallað og svo var boðið upp á hressingu.