Þegar kærleikstré voru komin upp á allar hæðir Grundar í hamingjuvikunni í haust, vaknaði sú hugmynd að nýta þau áfram í eitthvað annað, t.d. jóladagatal "Við áttum þetta líka fína efni í vinnustofunni sem var alveg upplagt í að nota í jólapoka á jóladagatalið 1. – 24. desember. Saumaðir voru 288 pokar fyrir alls níu deildir í hjáverkum frá nóvemberbyrjun“, segir Valdís Viðarsdóttir í vinnustofu Grundar. Þá var að fá hugmyndir um hvað ætti að setja í alla 24 pokana á hverri deild. "Þetta átti bara að vera eitthvað einfalt og meira svona til að hleypa tilbreytingu og birtu inn í aðventudagana.“ Að sögn hennar eru sumir jólapokarnir bara með hlýlegum skilaboðum sem ylja um hjartarætur, eða málshættir og gátur. „Við sendum jólakort á milli deilda. Svo fá jólasveinarnir allir 13 sitt pláss frá 12 des með sögum og leikjum. Okkur datt í hug að vera með jólailmsdag, þar sem allir baka smákökur og jólakötturinn gerir vart við sig af og til." Það er eitthvað notalegt að opna dagatalið á hverjum degi og fá annaðhvort notaleg skilaboð eða vitneskju um eitthvað skemmtilegt sem verður gert þann daginn.