Þegar forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, var sett í embætti forseta Íslands flutti hún í lok ræðu sinnar ljóðið Leitum. Það sem færri vita kannski er að ljóðskáldið, Hólmfríður Sigurðardóttir, býr í Mörk. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir heimsótti Hólmfríði einn bjartan haustmorgun og spurði hvort hún væri til í að spjalla um ljóðin sín og leyfa mér að birta nokkur þeirra hér á síðum Heimilispóstsins og heimasíðu Grundarheimilanna.
Hólmfríður tók vel í beiðni mína og bókin hennar Dagar sóleyjanna koma lá einmitt á borðinu við rúmið hennar. Rætur hennar liggja til Raufarhafnar og það er einmitt önnur bók á borðinu þar sem gluggi frá hennar æskuheimili prýðir forsíðuna. Hún verður aðeins feimin þegar hún upplýsir að þetta sé bók sem nafna hennar Hólmfríður Helga Sigurðardóttir hafi skrifað um sig, ömmuna sína.
Og hver er svo þessi hógværa amma sem yrkir svona fallega og hefur þessa ljúfu nærveru?
„Ég er fædd og uppalin í litlu húsi á Raufarhöfn, sem heitir Sandgerði. Mín fjölskylda bjó í helmingi hússins en frændfólk mitt í hinum helmingnum. Það voru í raun tvö þorp á Raufárhöfn þegar ég var að alast upp og nokkur rígur á milli. Okkar hús tilheyrði minna þorpinu, Sandi og það er ríkt í mér enn í dag að ég er Sandari. Þar stóðu átta eða níu hús en Holt var miklu stærra. Þar var allt nema kirkjan og prestshúsið. Foreldrar mínir voru Arnþrúður Stefánsdóttir og Sigurður Árnason. Ég kem úr stórum systkinahópi, við vorum fimm stelpur, einn strákur og einn fósturbróðir sem var sonur elstu systur minnar Sissu. Þau eru öll látin nema hún Margrét Anna en þau náðu öll háum aldri engu að síður. Ég fékk aldrei þá tilfinningu að við værum fátæk en við vorum ekki efnuð. Mamma var útsjónarsöm og á heimilinu voru kostgangarar sem ég man að ég var frekar ósátt með. Þá komu til okkar menn sem dvöldu um tíma í þorpinu við vinnu og það var ekkert hótel svo það má segja að stundum hafi Sandgerði verið eins og veitingastaður.
Hólmfríður segist minnast æskunnar með djúpu þakklæti og hefur einmitt reynt að hitta þann horfna tíma í sumum ljóða sinna. Í bók barnabarnsins hennar Ömmu, draumar í lit segir hún að stundum hafi henni fundist henni takast að fanga angurværðina sem fylgir andblæ minninga og snúið er að lýsa.
Klif
Rumska
hér liggja rætur
minning
horfinnar bernsku
sátum daglangt
við sólbakaða steina
gleymdum stund
vorblær og bergmál
mölluðum í leir og sand
skreyttum skip og báta
lambagrasi
hlógum inn í hvíta drauminn
sungum inn í ókomið vor
einar
vegamót
kvöl kom yfir þig
löngu fyrir kvöld
sofinn er söngur þinn
Fyrsta stúlkan úr þorpinu sem fór í MA
Hólmfríður sleit snemma barnsskónum því hún var aðeins fjórtán ára þegar hún kvaddi foreldra sína og hélt með skipi til Akureyrar. Hún hafði ákveðin tilkynnt að hún vildi fara í Menntaskólann á Akureyri. Það þótti ekki sjálfsagt á þessum árum og reyndar ruddi Hólmfríður brautina því hún var fyrsta stúlkan frá Raufarhöfn sem lagði stund á nám við Menntaskólann á Akureyri. Það var erfið stund á bryggjunni og Hólmfríður man enn hvað henni var óglatt og hvernig tárin streymdu niður kinnarnar þegar hún kvaddi foreldra sína. Hólmfríður hefur sérstaklega orð á því að það hafi engar umvandanir fylgt frá þeim heldur bað mamma hennar bara um að hún færi varlega. Hún sér líka ljóslifandi fyrir sér hvernig pabbi hennar gekk með henni þögull niður á bryggju, þessi maður sem vanalega geislaði af glaðlyndi. En Hólmfríður hafði aldrei komið um borð í strandferðaskip og þegar hún horfði á þorpið sitt smám saman fjarlægast tók við spennan að koma til Akureyrar. Í bók nöfnu hennar um ömmu sína segir Hólmfríður að í raun hafi menntunin verið í öðru sæti en aðallega hafi hana langað til að komast úr fámenninu og kynnast fólki. Og hún átti svo sannarlega eftir að kynnast fólki á Akureyri.
Það var eitthvað sætt við hann
Svo hitti hún Grím M. Helgason, stóru ástina í lífi sínu. Hann var að austan og þremur árum eldri en Hólmfríður sem er fædd árið 1930. Þetta var um jólaleytið og margir farnir heim til að halda jól. „Ég og Gógó sem var frá Raufarhöfn og kom ári á eftir mér í MA ákváðum að vera á Akureyri um jólin og þarna erum við í húsnæði þar sem hægt var að spila borðtennis þegar þessi sæti sjötti bekkingur skorar á mig. Það var ekkert meira en þessi eini leikur en við vissum af hvort öðru þaðan í frá.“Grímur flutti svo á Seyðisfjörð og kenndi þar í gagnfræðaskólanum en hún hélt áfram náminu og fór heim á sumrin til að vinna í síldinni. Eitt kvöldið fór Hólmfríður með vinkonu sinni Gógó á ball í Axarfirði. Þar var Grímur og þar kviknaði neistinn. Næsta sumar kom Grímur á Raufarhöfn til að vinna í síldinni og þá bjó hann í húsi hjá frænku sinni sem var næsta hús við Sandgerði, á Bessastöðum. „Við tókum okkur tíma og kynntumst vel áður en við urðum par.“ Þau trúlofuðu sig svo 1952.
Konan vann, maðurinn nam
Eins og tíðkaðist hér áður fyrr var fyrirkomulagið þannig að maðurinn fór og menntaði sig og konan vann fyrir þeim á meðan. Og þannig var það líka hjá Hólmfríði og Grími. Hann nam íslensk fræði og hún vann hjá Atvinnudeild Háskólans. Þau giftu sig 1953 og sama ár fæddist Vigdís, fyrsta barnið þeirra af átta en þau eru auk Vigdísar, Sigurður, Anna Þrúður, Helgi Kristinn, Grímur, Hólmfríður og Kristján. Áttunda barnið var tvíburi Önnu Þrúðar sem dó nýfædd. Hólmfríður segir að þau hjónin hafi ekki áformað að eignast svo mörg börn en það hafi verið yndislegur tími þegar þau voru að alast upp þó oft hafi verið mikið að gera og basl á þeim. Í bók nöfnu hennar þegar verið að er að rifja upp æskuár barnanna segir að á fimmtudögum hafi verið kvöldvökur á heimilinu: „Þá bakaði ég góða köku, lesin voru ljóð eða kaflar úr bók og vikupeningunum var útdeilt.“
Dreif sig í kennaranám
Þegar börnin urðu stálpuð, snemma á áttunda áratugnum kom kippur í kvennabaráttuna á Íslandi og Rauðsokkurnar voru áberandi. Hólmfríður lagði við hlustir. Hún segir mér að það hafi blundað í henni að mennta sig og kvennabaráttan hafi ýtt við sér. Hún hafði byrjað að vinna á Kleppi 1973 og leiðbeindi sjúklingum aðallega við handavinnu. Þar sagðist hún hafa skynjað, innan um fagfólkið sem þar starfaði, að hún vildi láta til sín taka. Hún skráði sig í Kennaraháskólann árið 1979 og segir að það hafi verið heillaspor fyrir sig. Að loknu náminu fór hún að kenna við Safamýrarskóla og kenndi þar til 71 árs aldurs. En hér inn á milli árið 1989 knúði sorgin dyra hjá fjölskyldunni þegar Grímur, eiginmaður Hólmfríðar lést úr krabbameini aðeins 62 ára . Hans var sárt saknað og í ljóðabók Hólmfríðar eru einmitt nokkur ljóð sem hún orti í sorgarferlinu.
Einsemd
Í bjartri nóttunni
felur sig einsemdin
í fingrum og hjarta
læðist eins og
beittur hnífsoddur í sári
biðin
minnir á nagandi hverfulleikann
leita stjörnu í brunni
bið þess að þú lesir
angur hjarta míns
engn endurkoma
nema í dansandi skýjum
draumsins
Börnin stutt þétt við bakið á mér
Viðtalið sem átti að snúast um ljóðin hennar Hólmfríðar endaði náttúrulega ekkert þannig því það er svo gaman að tala við hana og við fórum út og suður. Þegar ég fer að myndast í lokin við að tala um ljóðabókina hennar segir hún. „Ég ætlaði aldrei að gefa út þessa ljóðabók. En börnin eru svo hvetjandi og hafa alltaf stutt svo þétt við bakið á mér þegar ég hef verið að pára þessi ljóð að ég lét segjast þegar þau sögðu að þetta væri til að gefa fjölskyldunni og vinum og vandamönnum. Helgi og Hólmfríður Helga Sigurðardóttir sáu um útgáfu bókarinnar eða stýrðu útgáfunni og gerðu það vel. Þórður Grímsson sá um hönnun bókarkápu, sem tókst prýðilega. Og nú þegar ljóðin mín eru komin á prent þykir mér vænt um bókina og ég er þeim þakklát.“
Hvernig koma ljóðin til þín?
„Það koma til mín setningar sem verða eins og ljóð. Ég vakna oftast snemma og með ljóð á vör en svo gleymi ég því miður setningunni áður en ég næ að koma henni á blað. En það tekst stundum“, segir hún og brosir til mín blíðlega. „Þetta er bara eitthvað sem ég er með í hjartanu og þarf að koma frá mér.“
Þegar ég stend upp til að kveðja erum við búnar að lesa saman nokkur ljóð og ég spyr hvort það sé eitthvað sérstakt ljóð sem hún vilji að ég birti. Opnaðu bara bókina segir hún og birtu það ljóð sem þú færð upp. Ég get ekki gert upp á milli ljóðanna minna.“
Bros
Þegar sólin skín hvíldarlaust
faðmar sumar augu þín
kærleikurinn lifir
í blómstrandi trénu
og brosi jarðarinnar
------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Að lokum ljóðið sem forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, flutti við innsetninguna í embættið í ágúst síðastliðnum
Leitum
Leitum úrræða
látum hendur og orð
fallast í faðma
leitum gleðinnar
í ljóðinu
finnum frelsið
í höndunum
leitum regnbogans
finnum ljósberann
leitum láns
finnum það leika um líf
lands vatns og ljóss.