Fréttir

Gospel söngur á Grund

Í vikunni fengum við góða geti frá Michigan í Bandaríkjunum til að syngja í hátíðasal heimilisins. Margir heimilismenn lögðu leið sína á tónleikana. Um var að ræða átta manna gospel hóp frá Andrews háskólanum í Michigan.

Framkvæmdir Grundarheimilanna 2022

Í ár sækja Grundarheimilin í Framkvæmdasjóð aldraðra um framlag upp á 152 milljónir vegna framkvæmda upp á 380 milljónir. Sjóðurinn styrkir framkvæmdir sem bæta aðstöðu heimilismanna á hjúkrunarheimilum um 40%. Stærsta einstaka framkvæmdin er suðurgarður Grundar. Þar er fyrirhugað að opna leið úr núverandi starfsmannaborðstofu á jarðhæð út í garðinn og reisa þar rúmlega 100 fermetra veitingaskála. Þar verður hægt að kaupa veitingar og njóta skálans og garðsins sem verður útbúinn fallegum bekkjum, leiktækjum og gróðri. Einnig verður rýmið þannig úr garði gert að það verður „mannhelt“ þeim sem eru með minnisglöp og eru ekki alveg með á nótunum. Áætlaður kostnaður við breytingarnar á garðinum er um það bil 150 milljónir. Næst stærsta framkvæmdin er breyting á svokölluðum stubbi frá þeim breytingum sem síðast voru í gangi frá A2 til vesturs að borðstofunni á annarri hæð. Þar að auki verður norðurhluta borðstofunnar breytt í tvö einsmanns herbergi, hvort með sínu baðherbergi. Þetta kostar 106 milljónir. Með þessu bætist enn í eins manns herbergin á Grund með sér baðherbergi. Þriðja í röðinni er endurnýjun á lyftu á Minni Grund sem er kominn til ára sinna. 33 millur þar. Árlega er síðan skipt um nokkra tugi glugga á Hringbraut 50 og í ár er gert ráð fyrir 27 milljónum í þá framkvæmd. Níu aðrar framkvæmdir eru ráðgerðar á Grund, Mörk og Ási. Framkvæmdir sem þessar eru allar til þess fallnar að bæta aðstöðu heimilismanna Grundarheimilanna. Í gegnum árin hafa þessar framkvæmdir numið mörg hundruð milljónum króna og hverri krónu er vel varið. Með þessu erum við reyndar að fækka rýmum á Grund þar sem hvert herbergi fær sér baðherbergi, og slíkt kostar pláss. Vonandi sér stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra þessi mál í sama ljósi og stjórn Grundar og veitir öllum þessum brýnu framkvæmdum styrk og þar með brautargengi. Við þurfum svo sannarlega á því að halda. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Púttvöllurinn opinn

Púttvöllurinn hefur verið opnaður á ný. Í tilefni af því hittist pútthópurinn í síðustu viku og tók saman fyrsta pútt ársins.

Sumarsól í Mörk

Heimilisfólkið í Mörk hefur verið að búa til fallegt listaverk fyrir anddyrið. Páskaskreytingin vék fyrir þessari dásamlegu sumarsól. Frábær samvinna við að setja saman listaverkið, sem minnir á sumarið og tíðina sem í vændum er.

Skemmtileg heimsókn

Sönghópurinn Tjaldur söng nokkur lög með heimilisfólkinu á hjúkrunarheimilinu í Ási á dögunum. Hress hópur og mikil upplyfting að fá svona skemmtilega heimsókn í hús. Takk fyrir okkur.

Páskaeggjabingóið í Mörk

Nokkrar myndir frá páskabingóinu okkar sem var haldið í Mörk fyrir nokkru. Mætingin var góð og það hefði mátt heyra saumnál detta, þvílík var einbeitingin. Heimilismenn voru ánægðir með vinningana eins og myndirnar bera með sér..

SFV 20 ára

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu (þá heilbrigðisþjónustu) voru stofnuð þann 24. apríl 2002. Fyrir rétt rúmlega 20 árum. Þessara tímamóta var minnst síðastliðinn þriðjudag með stuttu málþingi um framtíð velferðarþjónustunnar þar sem heilbrigðisráðherra var með ávarp og í framhaldi þrjú erindi um málefnið frá mismunandi sjónarhornum. SFH, eins og það hét í upphafi, átti uppruna sinn í Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu en það félag var í upphafi félag æðstu stjórnenda í öldrunarþjónustu. Þegar leið nær aldamótum hafði bæst verulega mikið af millistjórnendum í FSÍÖ. Þannig var í raun búið að „þynna“ út félagið og forstjórar og framkvæmdastjórar heimilanna leituðu sér að nýjum samstarfsvettvangi. Sem endaði svo með stofnun hinna nýju samtaka og hafa eingöngu átt aðild að því æðstu stjórnendur hjúkrunarheimila og svo æðstu stjórnendur nokkurra annarra fyrirtækja og félaga sem veita velferðarþjónustu. Má þar meðal annars nefna SÁÁ, Krabbameinsfélagið og Reykjalund. Markmið samtakanna hefur alla tíð verið fyrst og fremst að sinna hagsmunagæslu og koma fram fyrir aðildarfélögin gagnvart hinu opinbera ásamt því að sjá um gerð kjarasamninga við stéttarfélög. Upphaflega var enginn starfsmaður hjá samtökunum en fyrir um það bil átta árum, minnir mig, var fyrsti starfsmaðurinn ráðinn, Eybjörg Helga Hauksdóttir lögfræðingur. Það var mikið gæfuspor fyrir samtökin og efldust þau jafnt og þétt undir styrkri stjórn hennar. Hún lét af störfum í fyrra og í hennar stað var ráðinn Sigurjón Norberg Kjærnested verkfræðingur. Annað gæfuspor. Auk hans starfa í dag hjá samtökunum tveir lögfræðingar, þær Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir og Heiða Vignisdóttir. Þær sinna margvíslegum verkefnum fyrir samtökin og gera það mjög vel. Eins og fyrr segir hafa samtökin eflst og dafnað þessa tvo áratugi. Til að byrja með vissu mjög fáir hver samtökin voru en í dag er tekið mark á því sem þau senda frá sér, leitað til þeirra af opinberum aðilum og þau taka virkan þátt í umræðunni um velferðarmál þjóðarinnar. Innilega til hamingju með árin 20 með ósk um áframhaldandi árangur fyrir hönd aðildarfélaganna í hverju því verkefni sem við er að glíma. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Gleðilegt sumar

Við óskum ykkur gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn sem er að líða.

Gleðilegt sumar

Viðburðaríkum vetri er lokið. Tvennt stendur upp úr. Heldur leiðinlegt veður og lok Covid 19. Daglegt líf og heimilishald hjúkrunarheimilanna er meira og minna komið í fastar skorður eins og áður var fyrir Covid. Nú bætist inn í tímatalið okkar, fyrir Covid og eftir covid, og við munum eflaust í mörg ár vitna til þessara tveggja ára sem tóku svo hressilega á okkar fallega mannlífi. Kenndi okkur margt, tók margt frá okkur, reynsla sem flestir myndu eðlilega viljað hafa komist hjá en skilur ýmislegt eftir. Að mínu mati fórum við Íslendingar og þau okkar sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi nokkuð vel í gegnum þennan andstyggðar faraldur. Heimsóknarbannið, eins og var rakið í síðasta pistli, var lykillinn að því að ekki fór verr samhliða því að við lærðum allskonar ný samskipti og leiðir til að tækla daglegt líf með öðrum og á stundum betri hætti en áður. Fjarfundaframfarir urðu gífurlegar, eitthvað sem við komum örugglega til með að notfæra okkur áfram um ókomna tíð. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka enn og aftur öllum heimilismönnum Grundarheimilanna, aðstandendum þeirra og okkar framúrskarandi starfsmönnum fyrir það hvernig þið tækluðuð þetta ástand sem varið hefur í rúm tvö ár. Þið eruð algjörlega frábær. Hitt sem stendur upp úr nýliðnum vetri er veðrið. Hefur ekki verið jafn vont veður og mikill snjór frá árinu 1990, að því er mér finnst og minnir. Á mínu fyrsta formannsári í björgunarsveitinni í Hveragerði var þetta reynslumikill og á köflum annasamur tími. Lokanir á Hellisheiði og ansi margir dagar og nætur við björgun á fólki úr ófærð og óveðri er eftirminnilegt. Að gefa er betra en að þiggja, og við sem störfum í björgunarsveitum landsins náðum svo sannarlega að gefa af okkur í vetur og fyrir það er ég afar þakklátur. Okkur finnst gaman að vera úti í vondu veðri, keyra stóru jeppana okkar í mikilli ófærð og bjarga fólki. En svona seinni part vetrar var þetta orðið nokkuð gott og spennan við framangreint farin að minnka all verulega. En þetta hafðist allt saman og við í björgunarsveitinni fengum all nokkrar krónur í kassann fyrir allar þessar lokanir. Eitthvað sem við komum til með að nýta á skynsamlegan hátt. Gleðilegt sumar og takk kærlega fyrir eftirminnilegan vetur 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Páskaeggjabingó í Mörk

Það eru að koma páskar og í Mörk fer það ekkert á milli mála.