Fréttir

Herrarnir fengu allir glaðning

Bóndadagurinn var fyrir nokkru og pínulítið seint að birta þessar myndir en stóðumst bara ekki mátið. Herrarnir á Grund fengu allir glaðning á bóndadaginn og voru alsælir. Harðfiskur og smjör féll í kramið en líka malt og appelsínið og súkkulaðið.

Kæru heimilismenn, aðstandendur, starfsfólk

Við ætlum að rýmka heimsóknartilmæli frá og með 1 febrúar. Hver heimilismaður getur fengið 1-2 heimsóknargesti á dag, þarf ekki að vera sá sami alla vikuna. Heimsóknartímar eru opnir. Grímuskylda er í heimsóknum og gestir eru beðnir um að dvelja ekki í sameiginlegum rýmum. Ef heimilismenn fara af heimilinu hvetjum við þá til að gæta ítrustu sóttvarna, vera með grímu og sótthreinsa hendur. Við biðjum heimsóknargesti um að koma ekki í heimsókn ef þeir: Eru í sóttkví eða smitgát Eru í einangrun vegna Covid-19 Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang). Hafa dvalið erlendis undanfarna daga og eru ekki komnir með neikvæða niðurstöðu úr skimun eftir komuna til landsins. Þetta á við um bólusetta gesti, óbólusettir þurfa að gangast undir tvöfalda skimun og sóttkví eins og reglur á landamærum segja til um. Viðbragðsteymi Grundarheimilanna

Kæru heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk

Við ætlum að rýmka heimsóknartilmæli frá og með 1 febrúar. 1. Hver heimilismaður getur fengið einn til tvo heimsóknargesti á dag, þarf ekki að vera sá sami alla vikuna. 2. Heimsóknartími er kl.13-18 eða eftir nánara samkomulagi. 3. Grímuskylda er í heimsóknum og gestir eru beðnir um að dvelja ekki í sameiginlegum rýmum. 4. Ef heimilismenn fara af heimilinu hvetjum við þá til að gæta ítrustu sóttvarna, vera með grímu og sótthreinsa hendur. 5. Við biðjum heimsóknargesti um að koma ekki í heimsókn ef þeir: • Eru í sóttkví eða smitgát • Eru í einangrun vegna Covid-19 • Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang). • • Hafa dvalið erlendis undanfarna daga og eru ekki komnir með neikvæða niðurstöðu úr skimun eftir komuna til landsins. Þetta á við um bólusetta gesti, óbólusettir þurfa að gangast undir tvöfalda skimun og sóttkví eins og reglur á landamærum segja til um. Viðbragðsteymi Grundarheimilanna

Hópsmit á hjúkrunarheimili

Í byrjun þessarar viku greindust tæplega 30 heimilismenn Litlu og Minni Grundar með Covid 19. Eitthvað sem hefði sett alla starfsemi heimilisins á aðra hliðina fyrir rúmlega ári síðan þegar enginn var bólusettur, hvorki heimilismenn né starfsmenn. En nú er öldin önnur, og miklu betri. Þeir sem eru þríbólusettir eru ekki mikið veikir og munu vonandi hrista þetta af sér eins og hverja aðra flensu. Sama er að segja um þá starfsmenn sem smitast, þeir eru lítið eða ekkert veikir. Í umræðunni um bólusetningar gegn Covid 19 hefur margt komið fram og líklega ekki allt alveg samkvæmt sannleikanum. Síðast í gær var fullyrt í fréttum á alnetinu að rannsókn í Skotlandi sýndi fram á að það væru meiri möguleikar á að láta lífið af völdum Covid 19 ef viðkomandi hefði verið bólusettur. Eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Enda var ekki vísað til hvaða rannsóknar var um að ræða. En áróður sem þessi kemst eflaust í undirmeðvitund einhverra, þeirra sem lesa til dæmis bara fyrirsagnir og kynna sér ekki málin til fullnustu. Og það er ekki gott, því að mínu mati, athugið ég er ekki læknis- eða hjúkrunarmenntaður, þá hefur bólusetning heimilismanna hjúkrunarheimila bjargað mjög mörgum mannslífum. Án bólusetningarinnar sem við njótum að hafa fengið í dag, hefði eflaust talsverður fjöldi heimilismanna Grundar látið lífið. Eitthvað sem enginn sem rekur hjúkrunarheimili vill að gerist. Bólusetning bjargar mannslífum, á því er enginn vafi í mínum huga. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Þorrinn kom siglandi í Mörk

Heimilisfólk í Mörk útbjó þessa skemmtilegu þorraskreytingu sem prýðir anddyri heimilisins. Þorrinn að sigla inn í matsalinn sem á vel við þar sem kræsingarnar þessa dagana hafa borið keim af súrmeti og því sem tilheyrir þessum þjóðlega tíma.

Verum ósammála en kurteis

Umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum er allskonar. Oft á tíðum notað hæsta stig lýsingarorða og ekkert gefið eftir í yfirlýsingum, fúkyrðum og skömmum. Og oftar en ekki er persóna viðkomandi embættis til dæmis, dregin inn í óvægna umræðu í stað þess að gagnrýna og rökræða málefnið sem ágreiningur snýst um. Að sjálfsögðu er ekki ætlast til þess að allir séu sammála, eða allir hafi sama smekk og sem betur fer þá er skoðana- og tjáningafrelsi í landinu. Það eru ekki allir jarðarbúar svo heppnir. En margir hverjir veigra sér við að tjá sínar skoðanir af því að þeir fá skammir, uppnefni, einelti og skítkast af því að þeir eru ekki á sömu skoðun og þeir sem telja sig allt vita og geta. Við sem rekum hjúkrunarheimili landsins höfum verið í miklum öldusjó undanfarin tvö ár. Mikið hefur gengið á, heimsóknarbann, heimsóknartakmarkanir, veikindi heimilis- og starfsmanna, bólusetningar heimilis- og starfsmanna, margskonar takmörkun á starfseminni, erfiðleikar í rekstri og svo mætti lengi telja. Við höfum gert allt sem við getum til að hámarka hag og velsæld þeirra sem búa hjá okkur og starfa. Slíkar aðgerðir eru og munu alltaf verða umdeildar, en þær eru gerðar í góðri trú og byggjast á þeim bestu upplýsingum og gögnum sem fyrir liggja. En þessar ákvarðanir eru eðlilega umdeildar. Og það er fínt að rökræða þær, skiptast á skoðunum og rökum, með og á móti. Ég er meira en til í svoleiðis skoðanaskipti. En það er lágmarkskrafa að vera kurteis. Og lang- langflestir eru það, en ekki alveg allir. Kurteisi kostar ekkert, og skilar alltaf miklu meiri árangri en dónaskapurinn. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Jólin kvödd í Ási

Það er venja í Ási að kveðja jólin á þrettándanum og dansa þá í kringum jólatréð, taka á móti jólasveinum og gæða sér á kræsingum sem eldhúsið hefur lokkað fram. Ekki var hægt að halda slíkan viðburð í ár. Við í Ási kvöddum samt jólin með söng og gleði. Heimilið er hólfaskipt þessa dagna og því var allt smærra í sniðum þetta árið. Rakel og Gylfi í eldhúsinu klæddu sig upp og brugðu á leik með heimilisfólki og færðu því að sjálfsögðu kræsingar.

Kæru aðstandendur

Viðbragðsteymi Grundar leggur til áfram sömu takmarkanir á heimsóknum út næstu viku. Velkomið er að skipta um heimsóknaraðila svo framarlega að hann geti tryggt sóttvarnir. Eftirfarandi reglur eru í gildi frá 30.desember: Grund er eingöngu opin á milli kl. 13-17 fyrir heimsóknir. Eingöngu má koma einn aðstandandi í heimsókn á dag og þarf það að vera alltaf sá sami amk. næstu 7 daga. Við biðjum um að heimsóknargestir séu ekki börn eða ungmenni. Heimsóknargestir séu bólusettir, gæti sérstaklega að persónubundnum sóttvörnum og ekki verra að þeir taki reglulega hraðpróf. Alger grímuskylda er á meðan á heimsókn stendur. Heimsókn þarf að vera inni á herbergi heimilismanns. Ekki er hægt að mæla með ferðum heimilismanna úr húsi nema brýn ástæða sé til. Veiran læðist að okkur úr öllum áttum en engin smit eru nú í hópi heimilismanna Grundar. Einhverjir starfsmenn eru frá vinnu en við gerum okkar allra besta að halda uppi þjónustustigi þrátt fyrir það. Ég vil þakka ykkur fyrir skilning og þolinmæði, það er svo mikilvægt að finna samstöðuna núna þegar við sannarlega þurfum öll á því að halda. Góða helgi

Kæru aðstandendur

• Alger grímuskylda er á meðan á heimsókn stendur. • Mörk er eingöngu opin á milli kl. 13-18 fyrir heimsóknir. • Eingöngu má koma 1 aðstandandi í heimsókn á dag og biðjum við um að það sé alltaf hinn sami ef mögulegt er. • Ekki er hægt að leyfa ferðir heimilismanna úr húsi nema brýn ástæða sé til. • Heimsókn þarf að vera inni á herbergi viðkomandi. Ekki staldra við í sameiginlegum rýmum heimilisins.

Táknræna tré Grundarheimilanna komið upp á vegg

Nú er búið að setja þetta myndarlega skýli yfir aðal inngang heimilisins. Þá er þar einnig komið stórt skilti með fallega trénu sem einkennir allt sem merkt er Grund og Grundarheimilunum. Þá hefur sjálfum innganginum verið breytt og hann er nú að öllu leyti þægilegri fyrir þá sem eru með göngugrindur eða í hjólastól. Það er alltaf verið að breyta og bæta