Á morgun laugardaginn 29. október á Grund 100 ára afmæli. Upphafið má rekja til líknarfélagsins Samverjans sem Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason langafi minn hafði forgöngu um ásamt fleiri góðum mönnum. Félagið hélt skemmtisamkomur og safnaði þannig fé auk þess að fá gjafafé frá Reykvíkingum.
Býlið Grund við Sauðagerðistún var keypt og tekið í notkun þann 29. október árið 1922. Grund við Hringbraut var síðan byggð og tekin í notkun í september 1930. Haraldur Sigurðsson ráðsmaður Grundar féll frá haustið 1934 eftir skammvinn veikindi og í hans stað var ráðinn tímabundið afi minn Gísli Sigurbjörnsson til að stýra Grund. Það gerði hann í 60 ár en hann féll frá í janúar 1994. Mjög löng tímabundin ráðning. Móðir mín Guðrún Birna tók við Grund og var forstjóri heimilisins í 25 ár eða til 1. júlí 2019.
Grund var lengi eina hjúkrunarheimili landsins og leiðandi í slíkri þjónustu um áratugaskeið. Afi heitinn byggði Grund upp, stofnaði til elliheimilisrekstrar í Hveragerði árið 1952 í samstarfi við Árnesinga og byggði við og bætti þar í bæ auk þess að auka verulega við húsakost við Hringbrautina.
Grundarheimilin í dag eru þrjú, Grund, Ás og Mörk. Starfsemi í Mörkinni hófst árið 2010 þegar við tókum að okkur rekstur 113 rúma hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 66 auk þess að kaupa af Landsbankanum 78 íbúðir og leigja þær út til 60 ára og eldri. Sú starfsemi stækkaði verulega að umfangi árið 2018 þegar við byggðum 74 slíkar íbúðir til viðbótar þeim sem fyrir eru.
Á Grund stendur til að halda áfram breytingum herbergja þannig að allir heimilismenn eigi kost á eins manns herbergi með sér baðherbergi. Þá stendur til að byggja kaffihús í suðurgarði Grundar þar sem gengið verður út frá núverandi matsal starfsmanna. Hægt verður að ganga út úr kaffihúsinu út í garð þar sem verða bekkir, runnar, blóm og tré og hægt að eiga þar notalega stund með kaffi og kleinu eða léttvínsglas.
Framtíð Grundarheimilanna er björt. Það er góður bisniss að sinna öldrunarþjónustu hér á landi. Aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti að við okkur blasa óþrjótandi tækifæri til að veita margskonar öldrunarþjónustu, jafnt á vegum hins opinbera sem og á einkamarkaði.
Ég óska okkur öllum innilega til hamingju með árin eitt hundrað.
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna