Í vikunni lauk bólusetningu heimilismanna Grundarheimilanna. Til að vörn sé til staðar þurfa að líða um það bil 10 dagar frá seinni bólusetningu, þannig að eftir næstu viku, væntanlega frá og með mánudeginum 1. febrúar verður hægt að minnka þær takmarkanir sem hafa verið á heimsóknum aðstandenda til heimilismanna. Þær breytingar verða kynntar rækilega í lok næstu viku. Ekki verður hægt að hafa allt eins og áður var, því eftir er að bólusetja starfsfólkið. Vonandi verður það gert í apríl eða maí mánuði og þannig fáum við eðlilegt líf á heimilin okkar þrjú í byrjun sumars.
Við sem rekum hjúkrunarheimili hér á landi höfum í gegnum covid 19 öldusjóinn notið öruggrar forystu þríeykisins góða og starfsmanna þeirra embætta sem þau veita forstöðu og fyrir það ber að þakka með bros á vör. Einnig ber að þakka kærlega fyrir þær bólusetningar sem þegar hafa átt sér stað auk þeirra sem væntanlegar eru út árið. Fumlaus og markviss vinnubrögð heilbrigðisráðherra í nánu samstarfi við Evrópusambandið hefur tryggt okkur yfir milljón skammta af bóluefninu góða, sem dugar til að bólusetja vel rúmlega þjóðina alla. Og sýnist að það verði komið þokkalegt ástand í þjóðfélaginu næsta haust, miðað við fréttir af afhendingu bóluefnisins, sem breytast reyndar dálítið eins og íslenska veðrið. Kannski verður búið að bólusetja meirihluta þjóðarinnar fyrr. Vonandi.
Talandi um Evrópusambandið, þá las ég það í fréttum um daginn að allar þær þjóðir sem ættu aðild að því innkaupafyrirkomulagi sem hjá þeim/okkur gildir, mættu ekki reyna að útvega sér bóluefni fram hjá því samkomulagi. Svo sér maður einnig í fréttum að Þjóðverjar, sem ku vera nokkuð stór þjóð innan Evrópusambandsins og dulítið í forystu þess, hafi engu að síður gert slíka framhjásamninga og tryggt sér bóluefni umfram það sem Evrópusambandið var búið að semja um. Hvurslags græðgi er þetta eiginlega. Svei þeim.
Ég horfi bjartsýnn fram á veginn og vorið og vona að við komum til með að eiga saman ánægjulegt sumar, líklegast með litlum sem engum takmörkunum á heimsóknir til heimilismanna heimilanna okkar þriggja. Það verður nú munur 😊
Kveðja og góða helgi,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna