Í dag lykta mörg hús landsmanna ansi illa. Þar á meðal eldhús og borðsalir Grundarheimilanna. Auk skötu verður boðið upp á saltfisk þannig að það finna vonandi allir eitthvað við sitt hæfi. Hef einnig heyrt utan af mér að einhvers staðar verði hægt að næla sé í flatbökubita. Sel það ekki dýrara en ég keypti.
Þegar við Alda tókum saman fyrir tæpum 13 árum hafði ég aldrei smakkað skötu. Datt það aldrei í hug, þvílík ólykt af þessum mat, sem væri eflaust mikið skemmdur. Þrátt fyrir áskoranir þess efnis að prófa og að bragðið væri allt annað en lyktin þá fékk ég mér aldrei bita af skötu. En þar sem Alda var vön skötu frá blautu barnsbeini þá fékk hún mig til að smakka, bara einu sinni. Og viti menn, ég kolféll fyrir bragðinu. Sé meira að segja pínu eftir því að hafa ekki smakkað fyrr, þvílíkt lostæti sem vel kæst skata er.
Ég er mikill gráðostamaður og þegar ég prófaði skötuna í fyrsta sinn fannst mér eins og ég væri að borða heitan gráðost. Það eru ef til vill ekki allir sammála mér með þessa gráðostalýsingu en mér finnst hún eiga vel við. Ég hlakka alltaf mikið til Þorláksmessu að fá mér rjúkandi heita skötu, kartöflur og íslenskt smjör (já ég veit að ég er ekki kominn ennþá í hnoðmörinn) seinni part dags ásamt malti og appelsíni. Borða alveg á mig gat og finna um kvöldið hvernig smá hluti af skinninu innan á kinnunum flagnar lítillega af. Dásamlegt.
Alda hafði aldrei prófað rjúpur áður en við tókum saman. Hún prófaði þær á aðfangadagskvöld og líkar mjög vel. Þannig að við lærðum nýjar matarvenjur af hvort öðru um jólahátíðina og græddum bæði helling á því.
Verði ykkur að góðu í skötunni og rjúpunum, eða hverju öðru því sem þið snæðið um jólahátíðina.
Kveðja og gleðileg jól,
Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna