Covid aurar

Covid 19 veiran hefur valdið miklum búsifjum um allan heim.  Alvarlegust eru dauðsföll og veikindi þeirra sem hafa veikst illa.  Nú á seinustu metrunum, vonandi, þessarar veiru, hafa þó einkenni þeirra sem hafa smitast verið afar væg í lang flestum tilfellum.  Sem er gott.

Efnahagsleg áhrif veirunnar eru gífurleg.  Mikil skuldasöfnun ríkissjóðs, þrengingar og gjaldþrot margra fyrirtækja og einstaklinga, niðurskurður í ýmiskonar opinberri þjónustu og svo framvegis.  En einhvern veginn höfum við sem samfélag komist í gegnum þetta í eins góðu jafnvægi og hægt er að ætlast til.  Geri ekki lítið úr framangreindum vandamálum, en þetta er mitt persónulega mat.

Covid er eitthvað sem við höfum öll lært mikið af.  Til frambúðar má gera ráð fyrir að við sinnum perónulegum smitvörnum betur en við höfum gert hingað til og vonandi verða stjórnvöld um heim allan betur meðvituð um hvað skal gera þegar veira sem þessi skýtur aftur upp kollinum, hvenær sem það verður nú.

Eitt af því sem covid hefur leitt af sér er aukinn rekstrarkostnaður hjúkrunarheimila landsins.  Við höfum blessunarlega fengið mest af þeim kostnaði bættan hjá ágætum yfirvöldum þessa lands.  Nú á lokametrunum hefur veiran dreift sér víða á þessum heimilum sem veldur, fyrir utan auðvitað veikindum og óþægindum þeirra sem smitast, verulega auknum rekstrarkostnaði.  Tvennt veldur.  Annars vegar hafa heimilin greitt álag til þeirra starfsmanna sem hafa sinnt heimilismönnum í íþyngjandi hlífðarbúnaði og svo höfum við þurft að grípa til fjölmargra aukavakta þar sem talsverður fjöldi starfsmanna hefur veikst.  Kostnaðurinn hleypur á tugum milljóna króna fyrir Grundarheimilin í lok síðasta árs og byrjun þessa.

Við höfum sótt um endurgreiðslu vegna þessa kostnaðarauka og fengið jákvæð svör og greiðslur fyrir nær öllu því sem við báðum um.  Og fyrir það ber að þakka af heilum hug. Vonandi heldur það ferli áfram á sömu nótum næstu misserin.  Við erum ekki kominn alveg í gegnum brimskaflinn, en langleiðina þó og með góðri hjálp yfirvalda tekst okkur að komast heil á höldnu í gegnum þetta allt saman.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna