Falleg og nytsamleg gjöf

Í tilefni af aldarafmæli Grundar fengum við nokkrar fallegar gjafir.  Blóm, myndir, veglega peningagjöf og ýmislegt fleira.  Það sem stóð upp úr, þó maður eigi nú kannski ekki að gera upp á milli afmælisgjafa lærði ég reyndar sem ungur maður, voru tónleikar sem tryggingafélagið VÍS færði heimilismönnum Grundar. 

Tengiliður okkar hjá VÍS hafði samband við mig nokkru fyrir afmælið og spurði hvað okkur finndist um að fá í afmælisgjöf tónleika fyrir heimilisfólk Grundar með góðu tónlistarfólki.  Mér leist mjög vel á hugmyndina og enn glaðari varð ég þegar ég heyrði að það var hljómsveitin GÓSS sem spiluðu og sungu fyrir heimilisfólkið þriðjudaginn í síðustu viku.  GÓSS skipa þau Guðmundur Óskar, Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsson.

Fullur hátíðarsalur af heimilisfólki, aðstandendum og starfsmönnum nutu stundarinnar til fullnustu og það var mikið brosað og klappað.  Fyrir hönd okkar allra á Grund þakka ég VÍS kærlega fyrir fallega, rausnarlega og nytsamlega gjöf.

Þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu kórum, tónlistarmönnum og hverjum öðrum þeim sem hafa gefið sér tíma og heimsótt Grundarheimilin með sína fallegu afþreyingu.  Má þar meðal annars nefna nýleg dæmi eins og Jólakórinn, Laufáskórinn, skólahljómsveit Vesturbæjar, Lúðrasveitina Svan og svo mætti lengi telja.  Við á Grundarheimilunum höfum notið menningar- og skemmtiframlags þúsunda í gegnum tíðina og vonandi heldur slíkt áfram um ókomna tíð.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna