Fleiri hjúkrunarrými? Já takk

Enn og aftur berast neyðarköll frá Landspítalanum.  Nú síðast frá forstjóranum sjálfum sem haft var eftir rétt nýlega orðrétt á alnetinu: „Þetta stendur og fellur með að það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum“.   Eðlilega, covid 19 hefur tekið flugið á ný og allt of mörg rými á þjóðarsjúkrahúsinu eru setin, eða legin, af einstaklingum sem eru flestir búnir að fá sína greiningu og eftir atvikum lækningu, og þurfa að komast í varanlega dvöl á hjúkrunarheimili.  Þessi neyðarköll stjórnenda LSH hafa endurómað þá rúma þrjá áratugi sem ég hef sinnt stjórnunarstörfum í öldrunarþjónustu hér á landi.  Og sýnist að köllin komi til með að endurtaka sig reglulega um ókomna tíð, í það minnsta á meðan ég verð í mínu starfi.  Því miður virðist ekki skipta máli hvort covid faraldur geysi, ég fann á alnetinu margar tilvitnanir mörg ár aftur í tímann á sömu nótum þegar ég leitaði eftir nýjustu ummælum forstjóra LSH.

Það er alveg með ólíkindum að þessi staða skuli koma upp með svo reglubundnum hætti.  Það er ekki eins og að tölfræðin, aldurssamsetning þjóðarinnar eða aðrar viðeigandi upplýsingar liggi ekki fyrir.  Þessir einstaklingar fæddust á fyrri hluta síðustu aldar og hafa verið til í 70 – 90 ár.  Og það er frekar einföld stærðfræði að reikna út hversu margir einstaklingar á þeim aldri þurfi á dvöl á hjúkrunarheimili að halda.  En einhvern veginn tekst ráðamönnum landsins að klúðra þeim útreikningi, eða það sem verra er, að þeir reikni þetta jafnvel ekkert út.

Reglulega er blásið í lúðra og tilkynnt með pomp og prakt að nú skuli þessi mál öll sömul leyst með aukinni heimahjúkrun og heimaþjónustu.  Og jafn oft hafa þessi fögru fyrirheit beðið skipsbrot, í það minnsta steytt á skeri.  Vissulega hefur orðið aukning í heimahjúkrun og heimaþjónustu sem ber að þakka fyrir og er hið besta mál, en bara ekki nægilega mikið til þess að minnka sívaxandi eftirspurn eftir hjúkrunarrýmum, þannig að þau dugi til. 

Vonandi sér ný ríkisstjórn ljósið og gerir bragarbót á uppbyggingu, umgjörð og rekstrarumhverfi hjúkrunarheimila landsins.  Þeir sem eru komnir á efri ár, eru hrumir og bíða á LSH eftir plássi á hjúkrunarheimili, eiga það skilið.  Þeir sem bíða eftir nauðsynlegum aðgerðum á LSH og komast ekki í þær vegna framangreindra sem bíða í rúmunum þar, eiga það skilið.  Við eigum það öll skilið.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna