Frá hugsjón til heillaríks starfs í heila öld

Lokapunkturinn á vel heppnuðu aldarafmæli Grundar verður settur yfir i – ið næstkomandi sunnudagskvöld.  Kl. 20.15 verður sýnd á RÚV heimildamynd um aðdragandann að stofnun Grundar og starf Grundarheimilanna í Reykjavík og Hveragerði í heila öld.

Stjórn Grundar ákvað snemma á síðasta ári að fá Jón Þór Hannesson til að gera framangreinda heimildamynd í tilefni af afmælinu og semja við RÚV um sýningu hennar.  Afraksturinn kemur fyrir augu landsmanna strax á eftir Landanum og eflaust verða margir við viðtækin.  Jón Þór er mikill reynslubolti í gerð heimildamynda og vann lengi hjá Saga film en hann var einn af stofnendum og starfsmönnum þess góða fyrirtækis. 

Myndin byggir að hluta til á 100 ára sögu Grundar sem var gefin út í tilefni afmælisins en þar að auki eru viðtöl við fjölmarga einstaklinga, bæði sem vinna á Grund, búa á Grund eða tengjast Grund með ýmiskonar hætti.

Ég ákvað strax í upphafi að skipta mér ekkert af gerð myndarinnar og fela Jóni Þór alfarið að sjá um gerð hennar.  Og er afar ánægður með þá ákvörðun mína og sé að hún var hárrétt.  Maður er sjálfur líklega of nálægt þeirri daglegu starfsemi Grundarheimilanna til að geta áttað sig á samhengi hlutanna.  Jóni Þór tókst að draga upp hlutlausa mynd af öldinni sem liðin er frá því að hugmyndin um stofnun og rekstur öldrunarheimilis kom upp hjá langafa mínum og fleiri góðum mönnum.

Ég hvet ykkur til að poppa, kæla gosið og setjast við sjónvarpsskjáinn næstkomandi sunnudagskvöld kl 20.15.  Njótið.

 

Kveðja og góða helgi,

Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna